trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 18/08/2014

Hvernig reddar maður brú á kortéri? Spyrjiði Árna Johnsen. – Játningar óvart alþingismanns

Eftir Margréti TryggvadótturMargrét Tryggvadóttir

Að vera þingmaður er svolítið eins og að eiga hund; lífsstíll sem fylgir manni alltaf og varir allan sólarhringinn, alla daga ársins. Tölvupósturinn, fréttir, umræðan, barnaafmæli, símtöl á öllum tímum sólarhrings, lestur og jafnvel vinskapur; allt í lífi manns fer að snúast um „tíkina,“ hvort sem manni líkar betur eða verr.

Maður er alltaf kjörinn fulltrúi, almannaeign, og það þarf að venjast því að fólk stari ofan í innkaupakörfuna hjá manni í stórmarkaðnum til að sjá hverju þessi afæta á þjóðinni er nú að spandera á sig og sína. Og þingstörfin ganga alltaf framar öðru sem maður þyrfti eða langar til að gera.

Og alveg eins og það er gefandi að eiga hund sem treystir manni fyrir tilveru sinni getur það líka verið gefandi að starfa í stjórnmálum. Maður fær einstaka innsýn inn í líf og tilveru annarra og tækifæri til að láta gott af sér leiða. Leggja hönd á plóg. Rækta. Manni er treyst fyrir fjöregginu. Og þá verður maður að standa undir því trausti.

———-

Þrátt fyrir að ég hafi alltaf haft það á tilfinningunni að ég kæmi til með að starfa í stjórnmálum þótti mér sá vettvangur hér á landi ekkert spennandi. Ég fann aldrei hjá mér þörf fyrir að ganga í einhvern flokkinn og oft skilaði ég auðu í kosningum – fannst ég bara hafa um ókosti að velja.

Ég hafði áhuga á alþjóðlegum stjórnmálum, ástandinu í Miðausturlöndum, krísunum í Suður-Ameríku og þróun mála í Kína. Ég hef alltaf haft ákveðnar skoðanir um hvernig hlutirnir eigi að vera en íslensk hreppapólitík var ekki minn tebolli þótt ég hafi stundum skipt mér af, eins og þegar tveir menn ákváðu að Ísland styddi Íraksstríðið og þegar kom að því að virkja á Kárahnjúkum.

En svo kom hrunið og þá fannst mér sem líf mitt hefði verið byggt á lygi, allar forsendur sem við gáfum okkur fyrir stóru ákvörðununum, eins og hvar við ætluðum að búa og hvað það myndi kosta, hvað við ættum og hvað við skulduðum, voru bull, spunnar upp af viðskiptalífinu með dyggri aðstoð stjórnvalda. Og ég tók þessu persónulega enda varðaði þetta allt mitt líf.

Mér fannst ég ekki bera ábyrgð á því sem gerðist, ég sá það ekki fyrir og ég hefði örugglega breytt með öðrum hætti ef ég hefði haft þær upplýsingar sem við vitum nú að stjórnvöld höfðu um stöðu mála. Við eigum að geta treyst stjórnvöldum, þau eiga að vinna fyrir fólkið, ekki hagsmunaaðilana. Og vera mín á Alþingi hefur ekki aukið traust mitt á stjórnvöldum.

Ég vil búa á Íslandi og ég vil að börnin mín geti fengið að vaxa og dafna með stórfjölskyldunni og vinum sínum, menntað sig og átt hér gott líf. Ég vil geta hitt allt fólkið mitt hvenær sem er. Og ég vil ekki búa við reiði og upplausnarástand lengur en nauðsynlegt er. Þess vegna gaf ég sjálfri mér það loforð að ég myndi gera allt sem í mínu valdi stæði til að laga landið mitt. Koma hlutunum í þann farveg að hér væri búandi án þess að vera með sting í hjartanu. Og til þess þurfti rótækar breytingar.

Þess vegna mætti ég á ýmis mótmæli veturinn 2008-9 og þess vegna tók ég þátt í búsáhaldabyltingunni. Það er hræðileg tilfinning að standa fyrir framan þjóðþingið sitt eftir slíkt hrun og upplifa að það eina sem hægt er að gera til að krefjast breytinga er að búa til hávaða. Það hlýtur að vera önnur leið.

Óvart

Ég fór óvart inn á þing. Ég kom ekki að stofnun Borgarahreyfingarinnar en fimm vikum fyrir kosningar fór ég inn á heimasíðuna þar sem þrír möguleikar voru á þátttöku; að vera félagi, styrkja eða vera á framboðslista. Ég hakaði við síðasta kostinn.

Nokkrum dögum seinna var hóað í alla frambjóðendur á höfuðborgarsvæðinu. Þar tróðst inn þekktur maður, sló í borð og talaði fjálglega um forustu sína í Suðvesturkjördæmi, einmitt þar sem ég bý. Ekki batnaði það þegar hann fór að tala um byssur. Mér leist ekkert á hann en af orðum hans mátti ráða að hann myndi leiða listann.

Allir á fundinum fengu blað þar sem maður gerði grein fyrir sér og hvaða sæti maður hefði áhuga á. Fyrir fundinn hafði ég hugsað mér að gefa kost á mér í 2.-5. sæti. Ég var sjálfstætt starfandi og þótt nóg væri að gera gat ég hagrætt verkefnum þannig að ég gæti tekið virkan þátt í kosningabaráttunni næsta mánuðinn. En ég fann að þennan mann gæti ég ekki fylkt mér bak við. Því skrifaði ég á blaðið „1. sætið eða ekkert.“ Svo spjallaði ég við fólk sem ég hafði aldrei séð áður en virtist flest skemmtilegt og líkt og mér ofbjóða hvernig komið var fyrir okkur sem þjóð.

Í ljós kom þó að aldrei hafði komið til greina að ræðumaðurinn væri á lista svo ég sættist á 3. sætið. En föstudaginn fyrir páskavikuna hringdi Jóhann kosningastjóri. Tveir höfðu gefið kost á sér í Suðurkjördæmi, hvorugur var áfjáður í að leiða listann en vildi alls ekki að hinn gerði það. Væri ég til í að íhuga 1. sætið þar? Daginn eftir yrði fundur með öllum frambjóðendum þar sem hann yrði ákveðinn og ég gæti komið og gert grein fyrir mér.

Ég var reyndar á leiðinni norður á skíði og sagðist því ekki komast á fundinn en bað um að fá að hugsa málið smástund. Eftir að hafa spjallað við fjölskylduna í bílnum yfir eina heiði eða svo hringdi ég aftur í Jóhann og sagði já. Ég hafði hvort sem er engu að tapa. Fundurinn fyrir suðurkjördæmi samþykkti mig því nánast óséða sem oddvita listans. Ég hélt hins vegar að þetta væri alveg „öruggt sæti“ og engin hætta á að ég kæmist raunverulega inn á þing. Fylgið í kjördæminu mældist vart og bara þrjár vikur í kosningar.

Ég dreif mig heim á þriðjudeginum, rétt náði í myndatöku fyrir auglýsingar og sauð kjötsúpu handa öllum á listanum. Fyrsti sellufundur var um kvöldið heima hjá mér. Þangað komu ekki allir en þeir sem mættu voru dásamlegt fólk sem gott var að vinna með.

Á kosninganóttinni þegar ljóst var að Borgarahreyfingin væri að vinna ótrúlegan sigur miðað við tímann sem við höfðum og peningaskortinn var ég glöð og þakklát fyrir að hafa fengið að taka þátt í þessu ævintýri. Við komum fólki inn, reyndar ekki mér, en ég var sátt við hvernig ég hafði leyst mitt verkefni, hafði kynnst skemmtilegu fólki og vonandi gæti Borgarahreyfingin stuðlað að nauðsynlegum breytingum.

Ég þurfti að vakna snemma næsta morgun til að stúdera lyftingar í Keflavík svo ég dreif mig heim laust eftir miðnætti og fór að sofa. Á milli fjögur og fimm um nóttina hringdi síminn. Fréttastofa RÚV vildi fá viðtal við nýja þingmanninn í beinni. Ég kom af fjöllum og sennilega var þetta heimskulegasta viðtal sem tekið hefur verið við mig fyrr og síðar. Áður en ég fór að sofa aftur fór ég á netið og tók skjáskot af stöðunni sem sýndi að ég væri inni. Ég gæti alltaf sýnt barnabörnunum þetta síðar meir. Þegar ég vaknaði upp úr sjö var talningu ekki enn lokið en ég var inni og þannig endaði þetta.

Makalaus andskoti.

Lærdómurinn

Og ég er enn inni nú þegar sér fyrir enda kjörtímabilsins og hef orðið margs vísari.

Það er lítið traust á stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Við sem komum ný inn á þing ætluðum að breyta ástandinu. Ég held að ég geti mælt fyrir munn flestra þegar ég fullyrði það.  Og þótt ýmsir hafi staðið sig vel höfum við sem kosin voru á þing í kosningunum árið 2009 brugðist sem heild, brugðist sem hópur. Við getum ekki unnið saman, við getum ekki talað saman. Og þjóðin á betra skilið.

Á þingi er þó fullt af góðu fólki, ólíkt því sem margir halda. Fólki sem ég myndi treysta fyrir lífi mínu ef svo bæri undir. Það er nefnilega alls ekki „sami rassinn undir þeim öllum.“ Og þetta fólk er í flestum flokkum. Ég er ekkert endilega sammála öllu sem það segir og gerir en ég veit að það er virkilega að vanda sig og trúir því að það sé að vinna þjóð sinni gagn. Og þannig á það að vera.

En á þingi er líka undarlegt safn einstaklinga sem maður hittir eiginlega hvergi annars staðar – og alls ekki marga í einu nema hugsanlega ef um sérstakt fjölskylduvandamál sé við að eiga. Þetta er agressívt fólk, fullkomlega sjálfhverft og ófært um samlíðan með öðru fólki. Þannig höfum við orðið vitni að því að erfiðleikarnir innan Evrópusambandsins hafa orðið ákveðnum hópi þingmanna uppspretta gleði vegna þess að þeir vilja ekki að Ísland gangi þar inn.

Eitt er að vera þeirrar skoðunar – það er fullkomnlega skiljanlegt. En það er bæði ljótt og andstyggilegt að gleðjast yfir óförum annarra, ástandi sem hefur valdið nágrönnum okkar og vinum handan hafs búsifjum, skaða og harmi og mun svo sannarlega bíta okkur líka ef allt fer á versta veg.

Svo er það fólkið sem stendur endalaust í vegi fyrir öllum aðgerðum og framþróun. Allt á að vera endalaust í ferli. Skipuð er nefnd á nefnd ofan. Enginn fær nokkru sinni úrlausn sinna mála. Það felast mikil völd í því að geta haft líf og starf annarra í lúkunum. Og sumum finnst það augljóslega góð tilfinning.

Slöpp vinnubrögð

Þingið hefur komist upp með ótrúlega slöpp vinnubrögð vegna fámennis. Í stærri samfélögum þar sem þingmenn eru mun fleiri er ekki hægt að veita öllum þingmönnum ótakmarkað málfrelsi, alltaf. Þar hafa menn brugðið á það prýðilega ráð að skipuleggja vinnu sína og skipta með sér verkum. Hér vitum við aldrei hvað er næst á dagskrá og getum því illa eða ekki undirbúið okkur.

Svo þykir nauðsynlegt að allir fái að tjá sig í stórmálum. Stimpla sig inn. Skipulagsleysið veldur því svo að menn segja oft eitthvað illa ígrundað, jafnvel tóma þvælu, í ræðustól. Þá er erfitt að bakka með það og menn verða að vinna áfram með vitleysuna í vondri trú og lenda henni með einhverjum hætti. Stjórnmálamaðurinn verður nefnilega alltaf að vita allt mest og best. Hann má aldrei segjast ekki vita eitthvað eða ekki vera búinn að móta sér skoðun. Skiptir þá engu hvort viðkomandi veit eitthvað um málið. Og það er dauðasynd að skipta um skoðun eða játa að hafa ekki skilið málið til fulls.

Á þessu eru þó undantekningar. Katrín Jakobsdóttir segir t.d. oft að það þurfi að skoða mál vandlega þegar hún er greinilega ekki viss og í kosningasjónvarpi fyrir síðustu sveitastjórnarkosningar sagðist Jón Gnarr ekki hafa vit á því hvernig ætti að flytja flugvöll, hann hefði aldrei gert það áður og þyrfti að fá ráðgjöf í þeim efnum. Og auðvitað er það einmitt þannig þótt fæstir viðurkenna það.

Þá eru innbyggðir flöskuhálsar í þingsköpin þannig að mál lenda iðulega í tímahraki fyrir þinghlé. Ef ekki næst að afgreiða þarf að leggja þau fram aftur á næsta þingi – öll vinnan sem lögð var í málið fer í súginn. Samt koma menn seint með mál inn í þingið, passa ekki að afgreiða þau í tíma og leyfa stjórnarandstöðunni að stoppa þau á lokasprettinum og horfa á þau ónýtast. Það finnst mér óþolandi og skil ekki af hverju stjórnarmeirihlutinn tekur ekki fastar á móti. Í því fellst ekki einungis uppgjöf af þeirra hálfu heldur einnig algjört virðingarleysi fyrir vinnu annarra þingmanna, starfsmanna ráðuneytanna og þingsins, sérfræðinga sem hafa sent inn umsagnir og veitt ráðgjöf og síðast en ekki síst fyrir fé skattborgaranna.

Pontan

Fyrst þegar ég kom á þing og fór að hlusta á ræður annarra þingmanna – ég viðurkenni að ég hafði ekki gert mikið af því áður – fannst mér aðdáunarvert hvað reyndir þingmenn höfðu mikið að segja um öll mál. Það ástand varði þó stutt því fljótlega rann upp fyrir mér að í fæstum tilfellum voru ræðurnar mjög efnismiklar þrátt fyrir lengd.

Formúlan á bak við langa ræðu um lítið mál er að segja allt að minnsta kosti þrisvar og segja hægt og ábúðarfullt „virðulegi forseti“ af og til. Ef ræðan er 20 mínútur er þeim fyrstu fimm varið í að reifa málið lauslega. Í mörgum tilfellum myndi það duga. Næstu tíu mínútunum er svo varið í að fara yfir málið – þ.e. segja það sama og áður en staldra lengur við hvert atriði. Síðustu fimm mínúturnar fara svo í að súmmera málið upp – draga saman það sem ræðumaðurinn fór yfir í lengra máli. Þá er ljósið á tímamælinum farið að blikka og rétt áður en ræðumaður lýkur máli sínu slær forseti í bjölluna.

Ég er varamaður í Norðurlandaráði og var svo heppin að fá að sitja eitt þing. Þar þótti mér eiginlega merkilegast að sjá hve tímamörk voru virt og allt gekk hratt fyrir sig. Ræður voru almennt fremur stuttar og menn hættu jafnvel í miðri setningu ef forseti sló í bjöllu. Við getum margt lært af þingunum í öðrum löndum.

Nú er pontan svo gott sem ónýt, bæði vegna skipulagsleysisins, almenns málæðis og síðast en ekki síst vegna málþófs. Hafi maður eitthvað til málanna að leggja í umdeildum málum og vilji koma þeim boðum til nefndarmanna sem munu vinna málið áfram drukkna þau orð í linnulausum málflaumi þar sem ekki nokkur leið er að greina kjarnan frá hisminu. Það er illa komið fyrir þingi þegar helsti vettvangurinn fyrir skoðanaskipti og sá eini sem almenningur hefur aðgang að er nánast ónýtur.

Landsbyggðarpólitíkin

Núverandi fyrirkomulag á kjördæmum og þingmönnum þeirra er beinlínis skaðlegt landsbyggðinni. Tæplega helmingur þingmanna á að vera sérstakur útvörður byggðar í landinu og er skipt á landsbyggðarkjördæmin þrjú. Þegar gefur á bátinn standa þeir oftar sem ekki saman sem einn maður, þvert á flokkslínur, sem vissulega er til eftirbreytni. Það er hins vegar miklum tilviljunum háð hvaða málefni ná í gegn hjá hópnum og ekki er unnið eftir skýrri né skynsamlegri stefnumörkun.

Vaðlaheiðargöngin eru dæmi sem margir þekkja en einna sorglegust hefur mér þótt þessi tilhneiging þegar kom að flutningi réttargæsludeildarinnar að Sogni á Landspítalann. Í stað þess að huga að velferð sjúklinganna sem slík stofnun hlýtur að snúast um fór málið að snúast um það hjá mörgum þingmönnum kjördæmisins að Sogn væri stór vinnustaður á Suðurlandi og að standa bæri vörð um störfin. Skipti þá litlu að Geðhjálp, Félag geðhjúkrunarfræðinga sem og erlendar eftirlitsstofnanir höfðu margbent á að ástandið á Sogni væri ekki viðunnandi.

Landsbyggðarþingmenn reyna gjarna að fá sæti í fjárlaganefnd. Fyrir hana koma svo fulltrúar allra sveitarstjórna á landinu. Upphefst þá mikið leikrit þar sem gjarna brestur á með einræðum þingmanna þess kjördæmis, sérstaklega ef flokksfélagar úr heimabyggð eru í heimsókn. Menn þurfa að sýna að þeir séu að vinna fyrir sitt fólk og öllum hnútum kunnugir.

Byggðamál eru ekki hugsuð í heild heldur eltast þingmennirnir við að reyna að ná bitlingum á sína staði, haldslausum plástrum á byggð sem er að liðast í sundur. Þá geta þeir óhræddir sýnt sig á heimaslóðum fyrir næstu kosningar. Fyrir hrun var víst einnig afar náið samband, alla vega í Suðurkjördæmi, milli þingmannahópsins og Vegagerðarinnar. Mér skilst að fundað hafi verið þrisvar á ári um eitthvað sem mér finnst að eigi að vera í faglegu ferli, ekki pólitísku. Þessir fundir hafa að mestu verið slegnir af eftir hrun og menn missáttir við það.

Sagan af brúnni

Eitt fyndnasta „leikritið“ var flutt á fundi með þingmönnum Suðurkjördæmis, sveitarstjórnarmönnum, fulltrúum almannavarna og fleiri þar sem farið var yfir stöðuna eftir gosið í Eyjafjallajökli, hvað hafði gengið vel, hvað þyrfti að bæta, líðan íbúa og fleira. Prýðilegur fundur í alla staði og gagnlegur.

Í lok fundarins bað einn sveitarstjórinn um orðið og bað þingmenn kjördæmisins um að beita sér fyrir brú yfir Þverá og vísaði í tölvupóst um málið sem hann hafði sent okkur. Við tókum þessu nú vel enda skiljanlegt að fólk vilji ekki þurfa að keyra á móti stóru hlaupi eins og mögulegt er ef og þegar Katla gýs. Ég mundi þó ekki eftir neinum tölvupósti.

Þetta var hins vegar greinilega mál fyrir Árna Johnsen sem stóð upp og brast í mikla ræðu um málið. Hann upplýsti á fundinum að um leið og hann hefði fengið tölvupóstinn hafði hann farið á stúfana að leita að brú og það sem meira var, hann hafði fundið þessa fínu brú í Svíþjóð sem kostaði bara 20 milljónir (sem ku víst vera lítið þegar kemur að brúm) og það eina sem hann þyrfti nú að fá að vita hve brúin þyrfti að vera löng.

Við vorum nokkur samferða í bíl og á heimleiðinni bárum við saman bækur okkar. Enginn kannaðist við tölvupóstinn og því síður að hafa einhvern tímann fengið sterk viðbrögð við tölvupóstum sendum á Árna Johnsen. Og hvernig finnur maður brýr í Svíþjóð? Vorum við öll aumingjar að geta ekki reddað þessari brú?

Þegar heim var komið fór ég tölvuna að leita í póstinum. Þá kom í ljós að sveitarstjórinn hafið sent póstinn aðeins um korteri áður en að fundurinn byrjaði og því hafði ég ekki séð hann. Árni hefði því augljóslega þurft að hafa snar handtök, lesa tölvupóstinn undir stýri og redda hinni sænsku brú á nokkrum mínútum. Æ. En hversu oft hefur þetta bragð virkað? Og Þverá er enn óbrúuð á þessum slóðum.

Valdið liggur annars staðar

Eitt af því sem hefur komið mér mest á óvart á þinginu er hve þingið hefur í raun lítil völd. Fyrir hrun má segja að stjórnmálamenn hafi afhent fjármálkerfinu gríðarlegt vald, ekki bara á sviði bankamála heldur einnig t.d. skipulagsvald. Hagsmunaaðilar svo sem Samtök atvinnulífsins leggja mikið púður í að skila vönduðum umsögnum um öll mál og koma með ábendingar til löggjafans. Auðvitað eiga þær ábendingar oft rétt á sér en oft er líka um hreina frekju að ræða.

Þá er eins og menn átti sig ekki á að þótt SA tali alltaf um „atvinnulífið“ og hagsmuni þess eins og það sé eitt og samtökin geti mælt fyrir alla er það alls ekki svo. SA eru einkum samtök stærstu fyrirtækjanna og eru einungis með tæplega þriðjung vinnumarkaðarins innan sinna vébanda. Hagsmunir minni fyrirtækja eru oft allt aðrir. Þá er hið þétta samband á milli ASÍ og SA dularfull þversögn. Lífeyrirsjóðirnir ráða einnig allt af miklu á Íslandi sem stór fjárfestir. Allir vita að lífeyrissjóðakerfið þarfnast endurskoðunar og er ekki sjálfbært en samt er ekkert gert.

Leikreglur lýðræðisins

Verst af öllu finnst mér að leikreglur lýðræðisins eru ekki virtar. Síðastliðinn vetur höfum við horft upp á það viku eftir viku að pontan er hertekin með málþófi og stundum ræður tilviljun ein hvaða mál er tekið í gíslingu. Næsta mál er bara tekið og því jaskað út og ekkert annað kemst að.

Þetta er spurning um völd meirihlutans. Minnihlutinn, sem oft er kallaður því gildishlaðna orði stjórnarandstaða (en stendur þó algjörlega undir því í þessu tilfelli), verður að geta unað við það að hafa ekki unnið kosningar. Eftir sem áður eru fjölmörg tækifæri til að hafa áhrif til góðs, t.d. með starfi í nefndum, með því að leggja fram mál og breytingartillögur við mál meirihlutans. Þeir þingmenn sem ekki hafa leikið harða, tilviljunakennda stjórnarandstöðu hafa reyndar komið fjölmörgum málum í gegnum þingið og enn fleiri hefðu komist í gegn ef „stjórnarandstaðan“ stæði ekki í veg fyrir framgangi alls.

Mér finnst stjórnarmeirihlutinn hafa brugðist kjósendum sínum með því að leyfa þessu að gerast. Auðvitað verður minnihlutinn að hafa einhver vopn og geta gripið í neyðarhemil en það á ekki að jaska honum út dags daglega.

Síðast liðið vor var mikil pressa á að ljúka þingstörfum. Af hverju? Jú, það þurfti að pússa gólfið í þingsalnum. Að lokum var fjöldi þjóðþrifamála sleginn út af borðinu og þingi slitið. Árangur vetrarins var því heldur rýr. Slík forgangsröðun getur ekki gengið.

Það er hægt að breyta þessu

Í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis samþykkti þingið merka ályktun þar sem listuð voru upp mörg atriði sem þyrfti að laga. Því miður hafa breytingarnar gengið hægt og þær sem þó hefur verið ráðist í að sumu leyti misheppnast. Þingsköpum var breytt en ekki náðist samstaða um þær róttæku breytingar sem gera þarf. Það er nauðsynlegt að skipuleggja tíma þingsins betur og gera umræður markvissari. Það verður aldrei nema ákveðið verði fyrirfram hve löng umræða um tiltekið mál á að vera og tíma skipt niður á flokkana.

Í staðinn þarf stjórnarandstaðan nýtt vopn í stað málþófsins, mér þætti heppilegast að minnihluti þings gæti sent mál til þjóðarinnar. Ef það yrði misnotað yrði það bara einu sinni. Þjóðin hefur engan húmor fyrir því að fá í hausinn smámál sem engu skipta og kjörnir fulltrúar geta vel útkljáð. Og fjarlægja þarf flöskuhálsana úr þingstarfinu þannig að hægt sé að afgreiða mál frá fyrra þingi. Það er út í hött að henda málum út um gluggann á lokasprettinum.

Við þurfum líka að laga hvernig við tölum saman og um hvert annað. Það á ekki bara við um þingmenn – það er eiginlega með ólíkindum hvað fólk lætur út úr sér um aðra. Nýleg dæmi eru þegar stjórnmálamönnum er líkt við fjöldamorðingja. En við þurfum líka að tala hreint út, segja hlutina eins og þeir eru. Sjúkleiki þrífst á meðvirkni og pukri – það þekkja allir sem hafa þurft að hafa kynni af alkóhólisma.

Það er ekkert öðruvísi með stjórnmálin.

Margrét Tryggvadóttir

———-

Margrét undirbýr nú útgáfu bókar um reynslu sína af stjórnmálum undanfarin ár. Hún fjármagnar útgáfuna með aðstoð væntanlegra kaupenda í gegnum vefinn Karolina Fund. Þeir sem vilja kynna sér málið betur eða taka þátt í útgáfunni ættu að smella hér.

 

2,637