trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 17/02/2016

Hvernig Jónas frá Hriflu fletti ofan af spillingu kapítalsins. Stórfróðleg bók um sígilda sögu

Ritdómur – Karl Th. BirgissonOkurmálin

Dr. Ásgeir Jónsson

Okurmálin í Austurstræti

(Auðfræðasetur, 2016)

Neyðarfundur til að bjarga Íslandsbanka. Gjaldeyrishöft. Nauðasamningar við kröfuhafa. Rannsóknarnefnd alþingis. Húsleitir og handtökur. Saksóknari ákærir. Bissnisskallar dæmdir.

Hljómar þetta kunnuglega úr samtímanum? Já, líklega. Þetta er samt lýsing á því sem gerðist á Íslandi fyrir og upp úr miðri síðustu öld. Við bætist – og haldið ykkur nú – að meginorsök þessara hamfara var ónýtur gjaldmiðill og pólitísk stefnumörkun.

Þessa sögu rekur Ásgeir Jónsson í stórfróðlegri bók eða stóru kveri, sem kom út í upphafi árs. Það heitir Okurmálin í Austurstræti, og fjallar annars vegar um gjaldþrot Blöndalsbúðar, stærstu fata- og vefnaðarvöruverzlunar landsins árið 1955, og hins vegar gjaldþrot Íslandsbanka aldarfjórðungi fyrr.

Ásgeir er fræðimaður og það góður. Hann rekur málvexti einkar vel í bókinni, en sumt er á óþægilega miklu fræðilingói. Mig langar að sjóða niður það helzta fyrir okkur hin ólærðu, þó með því afar mikilvæga fororði að Ásgeir ber enga ábyrgð á ályktunum eða almennum lærdómi sem hér er dreginn af texta hans:

Skömmu eftir fullveldið var íslenzka krónan ekki lengur tengd hinni dönsku. Þar með hækkuðu markaðsvextir á henni, vegna stöðugs óstöðugleika og áhættuálags sem fylgdu hinni nýju örmynt. Enginn ógalinn peningakall (peningakellíngar voru fáar komnar til sögunnar) vildi eiga íslenzka krónu umfram danska nema því fylgdi von um talsverða ávöxtun aukalega. (Kunnuglegt?)

Skiljanlega ollu hávextirnir alls kyns vandræðum, einkum þeim sem vildu fjárfesta og hugsa til framtíðar, og ekki sízt þeim sem vildu byggja eða kaupa húsnæði. Í stað þess að bregðast við rót vandans, veikum gjaldmiðli, setti alþingi þak á vexti. Lét eins og íslenzka krónan væri bara fín, jafngóð og sú danska. Gömlu dönsku vextirnir voru lögbundnir og bannað var að lána við hærri vöxtum.

Þetta var skömmu eftir að Íslandsbanki – hinn eiginlegi seðlabanki landsins – fór á húrrandi hausinn.

Eftir fall hans voru sett á gjaldeyrishöft. Þau entust ekki nema 62 ár, þangað til rétt fyrir síðustu aldamót.

(Þetta er reyndar orðið mjög óþægilega kunnuglegt.)

Á rústum Íslandsbanka urðu til Útvegsbankinn og Búnaðarbankinn. Einn fyrir útgerðina, annar fyrir landbúnaðinn. Þeir áttu helzt ekki að lána öðrum atvinnugreinum.

———-

Núnú. Vegna vaxtaþaksins og pólitískrar stýringar og skömmtunar á takmörkuðu lánsfé áttu verzlun og þjónusta í allmiklum erfiðleikum með að fjármagna sig. Slík fyrirtæki skorti lánsfé. Þótt ekki væri nema til að fjármagna lagerinn og selja fólki föt.

Þeim, sem áttu þó peninga, þóttu lögbundnir vextir bankanna hins vegar ekki góður kostur. Raunvextir voru iðulega neikvæðir – verðbólgan og þar með rýrnun krónunnar var allajafna meiri en ávöxtunin, þótt það væri raunar sveiflukennt.

Og hér er „sveiflukennt“ einmitt lykilorð eins og stundum fyrr og síðar.

En eins og á öllum góðum mörkuðum kynntust framboðið og eftirspurnin, og úr varð hjónaband.

Í þessu tilviki að vísu ólöglegt hjónaband – rétt eins um væri að ræða hverja aðra kynvillinga – því að þegar verzlun og þjónusta í fjárþörf hittu fjármagnseigendur í leit að ávöxtun voru vextirnir of háir. Þeir voru bannaðir samkvæmt lögum og til varð ný stétt fólks á Íslandi: Svokallaðir okurlánarar.

Þau viðskipti virkuðu í stuttu máli þannig að okurlánararnir notuðu bankavíxla (eins konar ávísanir eða skammtímaskuldabréf án veðs, til skýringar fyrir yngri kynslóðina). Þeir báru ábyrgð gagnvart bönkunum, en létu svo fyrirtækin – eða bara fjárþurfi einstaklinga – ábyrgjast greiðslu þessara ávísana gegn peningum í reiðufé.

Allt var þetta á löglegum vöxtum undir sínu lögbundna þaki, en víxlarnir voru hins vegar afhentir með afföllum.

Á víxlinum stóð kannske að skuldaranum bæri að greiða eitt þúsund krónur. Hann fékk hins vegar ekki nema átta hundruð krónur afhentar í upphafi, en átti samt að standa skil á þessum þúsund.

Í afföllunum lágu hinir raunverulegu vextir, sem voru margfalt hærri en þessir lögbundnu. Þetta voru okurlán að lögum, en samt eina leiðin sem fjöldi fólks og fyrirtækja hafði til að bjarga sér. Þessi „óformlegu“ en kolólöglegu lánaviðskipti viðgengust árum saman fyrir allra augum. Og enginn skipti sér af þeim.

Þangað til.

———-

Þangað til kom að uppgjöri Blöndalsbúðar. Þá sáu allir fram á eitt allsherjartjón eftir sívaxandi okurlánaviðskipti og gjaldþrot, og bankarnir fengu þá sérkennilegu hugmynd í bjargarskyni að leyfa SÍS – Sambandi íslenzkra samvinnufélaga – að taka búðina yfir og selja þar jafnvel eitthvað af vörunni sem Sambandið var þá byrjað framleiða norður á Akureyri og hafði aldrei komizt í verzlanir í Reykjavík.

Það var nú aldeilis fíneríis varningur.

Sambandið hafði áður reynt að koma til Reykjavíkur. Þá reis upp sameiginleg andstaða bæjarstjórnar Reykjavíkur (les: Sjálfstæðisflokksins) og „Samtaka efnaðra verzlunarmanna“ (já, þau hétu það) og sagði þvert nei. Þessi óvænta stéttarsamstaða fékk meiraðsegja nafn og var kölluð Veggur.

Sjálfstæðisflokkurinn reisti múr í kringum Reykjavík og meinaði Sambandinu aðgang að verzlun þar.

En nú, árið 1955, þurfti að bjarga bönkunum og fjármagninu þegar Blöndalsbúð var komin á hausinn, og þá féll þessi múr skyndilega. Sambandið mátti koma suður, taka Blöndalsbúð yfir og skera kapítalistana úr snörunni.

Þessi díll var orðinn að samkomulagi og allir ætluðu að þegja um hann, en æ – þá kemur einn kall. Einn gamall og bitur kall.

Jónas Jónsson frá Hriflu

Jónas Jónsson frá Hriflu

Jónas frá Hriflu, þá sjötugur og löngu kominn í pólitíska útlegð, hafði föndrað við að gefa út blað þegar hann nennti. Það hét Ófeigur – Landvörn. Blaðið las enginn, þangað til hann í meinbægni sinni ákvað að fletta ofan af öllu gillimojinu í kringum Blöndalsbúð, okurlánum, öðrum lögbrotum og alls kyns baktjaldasamningum.

Jónas frá Hriflu varð metsöluhöfundur med det samme og blaðið seldist í þúsundavís. Fólk út um allt land varð bókstaflega brjálað. Kapítalistarnir höfðu aldrei upplifað annað eins. Þeir voru vanir að hafa sitt í friði. (Ég ætla ekki einu sinni að spyrja: Kunnuglegt?)

Og hvað? Hvernig fór svo? Hvernig lauk sögunni?

Tja, þið verðið bara að lesa bókina hans Ásgeirs, sem er á köflum dásamleg lýsing á tíðaranda og ekki síður þeim einstaklingum sem tóku að sér að gerast okurlánarar fyrir þá sem áttu peningana í raun og veru.

Í æsku heyrði ég litfagrar sögur samtímafólks af Sigurði Berndsen, hinum fatlaða okurlánara, sem kallaði viðskiptavini sína kalkúna. Líklega var sögumaðurinn tösku-Bjössi, alveg sérlega vellyktandi séntilmaður sem gekk um með smyglvarning í skjalatösku sinni og heimsótti kúnna. Af honum keypti pabbi karton af Camel og jafnvel nælonsokka ef vel stóð á.

Tösku-Bjössi var til af því að krónan var í höftum, gjaldeyrir fékkst ekki til innflutnings og fólk stóð í biðröðum. Jafnvel eftir mjólk og brauði, áður en það hækkaði í verði.

Hjá tösku-Bjössa var engin biðröð.

Hann kom í heimsókn.

Hann var neðanjarðarhagkerfið holdi klætt.

———-

Núnú. Er þetta ekki allt einhver fornaldarsaga? Varðar okkur eitthvað um margra áratuga gamla sögu?

Svarið er já, af því að mannfólkið breytist ekkert, sama hvort efnið er peningar eða ótti við ókunnuga sem standa utan dyra.

Í þessu tilviki er efnið gjaldmiðill. Einn lærdómurinn af sögunni er þessi:

Ekki leyfa stjórnmálamönnum að ljúga því, að gjaldmiðillinn þinn sé bara fínn, þegar hann er það ekki og allir sjá það.

Þannig verður til að lágmarki tvöfalt hagkerfi – tveir gjaldmiðlar. Í bók Ásgeirs eru annars vegar venjuleg íslenzk króna, sem útvaldir atvinnuvegir höfðu aðgang að á neikvæðum raunvöxtum af því að stjórnvöld fyrirskipuðu það, og hins vegar okurvaxtakróna, sem aðrir neyddust til að nota.

Í okkar samtíma er myndin ögn flóknari: Stórfyrirtækin fá að færa bókhald sitt í evrum og dollurum, launafólk fær greitt í óverðtryggðum krónum, en skuldar flest húsnæðislán í verðtryggðum krónum.

Okkur er sagt að hér sé mesta stöðugleikatímabil síðustu áratuga. Stýrivextir Seðlabankans eru hátt í sjö prósent.

Það er nú aldeilis fínn og öflugur gjaldmiðill.

Sérkennilegt að stórfyrirtækin skuli ekki taka hann upp.

———-

Þegar bankar lána út á neikvæðum raunvöxtum áratugum saman gerist bara eitt: Þeir tæmast. Þeir fá ekki greitt raunvirði útlána sinna til baka.

Sagan af gjaldþroti Íslandsbanka og gjaldþroti Blöndalsbúðar endurspeglar þau sannindi. Við bættist raunar, að bönkum var fyrirskipað að lána helzt til sjávarútvegs og landbúnaðar, sem hinir ráðandi flokkar áttu allt sitt undir.

Við þessar aðstæður, þegar peningar eru skammtaðir öðrum en almenningi og fyrirtækjum sem njóta ekki velvildar, þá verður til annað hagkerfi. Þetta ólöglega. Svarti eða grái markaðurinn.

Það gerðist til dæmis fyrir þrjátíu árum, þegar fyrirtækið Ávöxtun varð til. Þar voru í forsvari Pétur Björnsson og Ármann Reynisson. Ávöxtun keypti skuldabréf af fyrirtækjum og einstaklingum með miklum afföllum og auglýsti sérstaklega, að með þátttöku í þeim bissniss fengju fjármagnseigendur miklu betri ávöxtun en með því að geyma peninginn í bankanum.

Þetta gerðu þeir fyrir opnum tjöldum, rétt eins og ólöglegir okurlánarar mörgum áratugum fyrr. Í þeirra tilviki hét það hins vegar lögleg viðskipti. Sem það var að forminu til. Það var ekki bannað að kaupa skuldabréf með afföllum. Og er ekki enn.

Þeir félagar fóru að vísu síðar í fangelsi, en það var strangt til tekið af öðrum ástæðum.

Á svipuðum tíma kom upp annað og miklu umfangsmeira okurlánaramál, sem jafnan er kennt við Hermann Björgvinsson. Þar komu við sögu fjölmargir „virðulegir“ borgarar, en áhugasamir geta lesið um upphaf þess hér í Helgarpóstinum.

Viðskiptavinirnir voru smáfyrirtæki og einstaklingar í fullkomlega löglegum og eðlilegum rekstri, sem höfðu ekki aðgang að pólitískum skömmtunarbönkum.

[Núna get ég ekki stillt mig um persónulega nótu algerlega utan efnis: Þessa umfangsmiklu úttekt skrifa Halldór Halldórsson, Ingólfur Margeirsson og Sigmundur Ernir Rúnarsson. Fingraför þeirra sjást alls staðar í textanum:

Dóri er hinn nákvæmi blaðamaður, hver gerði hvað, hvenær, hverjar voru fjárhæðirnar og hver vissi um hvern. Ingó er líka nákvæmur, en leggst óhjákvæmilega í fílósóferingar eins og leiðarahöfundurinn sem hann var. Sigmundur Ernir er hins vegar á öðrum slóðum og spyr fórnarlömb okurlánara: Hvernig leið þér? Kunnuglegt.]

———-

Núnú. Kemur okkur þessi þrjátíu ára saga eitthvað við, fremur en sögurnar í bók Ásgeirs?

Svarið er aftur já, því að rótarvandinn er enn á sínum stað: Gjaldmiðill sem er svo veikur og óstöðugur að enginn vill eiga hann nema með von um háa ávöxtun. Þetta hefur gerzt aftur á nýliðnum árum eftir hrun. Spekúlantarnir útlenzku eru aftur farnir að veðja á vaxtamuninn og safna í nýja snjóhengju.

Gaman að því fyrir okkur.

Hvað með okurlánarana? Eru þeir ekki horfnir?

Jújú, vitaskuld, ef við undanskiljum bara smálánafyrirtækin sem rukkuðu ekki nema svosem 600 prósent ársvexti þegar þau risu hæst skömmu eftir hrun.

Þá voru bankarnir tómir, allir voru rukkaðir í botn og rúmlega það, og enginn fékk lánað. Allra sízt þeir sem vildu fjárfesta.

Víst var reynt að stemma stigu við hinum nýju okurlánurum, smálánafyrirtækjunum. Árni Páll byrjaði að ræskja sig, svo voru sett lög, en neðanjarðarhagkerfið kunni svar við því: Í stað þess að rukka himinháa vexti voru kúnnarnir látnir borga sérstakt gjald fyrir flýtimeðferð – og gott ef þeir fengu ekki síðar bók eða eitthvað viðlíka með láninu til réttlæta kostnaðinn enn frekar. Mig skortir geð til að fletta því upp.

En Sigurður heitinn Berndsen hefði hlegið upphátt:

Kúnnarnir eru kalkúnar. Það er hægt að plokka þá endalaust.

———-

Er ég að halda því fram að krónan sé orsök okurlána? Bæði já og nei.

Okurlán þekkjast í samfélögum með alvörugjaldmiðla, en þau eiga það allajafna sameiginlegt að fjármagna vafasama starfsemi sem þolir ekki dagsljósið og bankar geta ekki almennilega tekið þátt í.

Það er fáheyrt í heilbrigðu hagkerfi að okurlán séu notuð til að fjármagna eðlilegan, löglegan og nauðsynlegan atvinnurekstur. Það gerist hins vegar reglulega á Íslandi. Á meðan krónan er í höftum (og það verður hún áfram) er hún ekki rétt verðlögð og peningarnir leita þangað sem mestrar ávöxtunar er von.

Það er ekki flókin hagfræði.

Ásgeir Jónsson á miklar þakkir skildar fyrir stórfróðlega bók og félag þeirra Hersis Sigurgeirssonar, Auðfræðasetrið, lof fyrir að gefa hana út.

Fyrir utan efnið er þó ósagt hið ánægjulegasta: Við þurfum ekki einu sinni að rölta út í búð til að kaupa bókina. Hún er aðgengileg hér sem pdf-skjal. Enn frekari þökk fyrir það.

Og góða skemmtun við lesturinn.

Karl Th. Birgisson

 

1,418