trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 08/02/2018

Hvenær kallar maður mann níðing?

Karl Th. Birgisson skrifar

Meiðyrðamál eru alltof mörg á Íslandi. Meiðyrðalöggjöfin ennþá meingölluð. Og dómarnir eftir því.

Eitt hefur vakið athygli mína undanfarnar vikur. Það er mál Þórarins Jónassonar (Póra) í Laxnesi gegn Auði Jónsdóttur rithöfundi.

Þar er nú aldeilis smá.

Hér er rétt að gera svolítinn fyrirvara, af því að íslenzk umræða er iðulega svo heimskuleg (já). Fólk skiptist í lið, alveg óháð efnisatriðum og stundum óháð lögfræði eða jafnvel enn síður réttlæti.

Fyrirvarinn er þessi: Mér er hlýtt til bæði Auðar og Póra, af ólíkum ástæðum. Mér er líka sérlega hlýtt til landsins, en miklu fremur þykir mér tjáningarfrelsið með því mikilvægasta í tilverunni.

Að því sögðu, þá er nú hér:

Grein Auðar í Kjarnanum var ekki um Póra. Hún var pólitísk stuðningsgrein fyrir forsetaframboð Andra Snæs Magnasonar árið 2016 (sem mér er líka hlýtt til, til að tikka í það box). Auður notaði Póra hins vegar sem dæmi um landböðul og dýraníðing, og hafði ekki bara afa sinn fyrir því, heldur fullyrti það sjálf:

„Mikið mátt þú skamm­ast þín, Póri í Lax­nessi. Karlkjáni með doll­ara­seðl­ana upp úr rass­skorunni á reið­bux­unum þín­um. Skammastu þín fyrir að eyði­leggja nátt­úru Íslands og skammastu þín fyrir að fara svona illa með hest­ana þína.“

Auður teiknar upp níðinginn Póra sem andstæðu við náttúruelskandann Andra Snæ.

Olræt og alltílæ. Ef efni eru til.

Greinin er líka tilfinningaflæði um náttúru landsins, þar sem svæðið handan við þjóðveginn ofan við Laxnes er notað sem dæmi um níðingsskap.

Lýsing Auðar er ekki rannsókn, heldur frásögn af upplifun. Að því er virðist úr fjarska, af því að hún skoðar ekki aðstæður nema af steininum sínum í holtinu við Gljúfrastein. Orðalag eins og „mig grunaði ef til vill“ er ekki mjög traustvekjandi. Það er í ætt við „mér fannst ég finna til“. Bærinn Laxnes er hinum megin við þjóðveginn frá Gljúfrasteini og allnokkuð í burtu.

En aftur alltílæ. Við megum upplifa og skrifa um það.

Hitt er svo vitað og skrásett, að í landi Laxness var ofbeit lengi vel. Um það þarf ekki að deila, en síðan hefur verið samstarf við Landgræðsluna um endurheimt gróðurs. Það er líka skráð skilmerkilega.

Þetta eru nokkurn veginn efnisatriði málsins (hlutaðeigendum þykir ég áreiðanlega sleppa einhverju mjög mikilvægu, en ég ætla heldur ekki að taka afstöðu í áragömlum ættardeilum).

Er hér einhver niðurstaða? Já. Nokkrar.

Grein Auðar var misráðin. Ekki vegna tilgangs hennar, heldur af því að í pólitískri stuðningsgrein sakaði hún nafngreindan einstakling ekki bara um landníð, heldur dýraníð. Hún sverti nafn einstaklings í pólitísku dæmaskyni.

Það var heimskulegt og málstaður Andra Snæs er jafngóður án þess. Hann þarf ekki á slíku að halda.

Eða eru hestarnir hans Póra í Laxnesi vanhaldnir? Eru þeir horaðir og illa um þá hirt? Er Póri í Laxnesi dýraníðingur?

Svarið við þessum spurningum er hreint og klárt nei, eins og hver getur sannreynt með því að gera sér ferð yfir þjóðveginn þangað frá Gljúfrasteini.

En rétt eins og grein Auðar var misráðin, þá var stefna Póra heldur ekki skynsamleg. Sum mál vinnur maður ekki, sama hver málstaðurinn er og sama hver niðurstaðan verður. Stefnan gerði fátt annað en að vekja athygli á Póra í Laxnesi sem vondum manni, sem við vitum vonandi flest að hann er alls ekki. Þvert á móti.

Hann er ekki dýraníðingur. Og fjandans svei þeim sem segir það.

Mig grunar sterklega að Auði Jónsdóttur finnist það ekki heldur.

Hún skrifaði grein til stuðnings góðum forsetaframbjóðanda og til stuðnings mikilvægum málstað.

En hún missti sig í fáeinum setningum, sem hefðu betur verið óskrifaðar.

Póri brást líka of harkalega við. Það er skiljanlegt að hann hrökkvi illa við þegar hann er sakaður um að níðast á því sem hefur verið líf hans allt. En stefna var ekki málið.

En þannig er þetta og þar erum við stödd.

Allir spældir, langþreyttir og lúnir, og dómar falla hist og her.

Sumir spenna sig upp í að slást áfram, mest þó fyrir slaginn.

En engum líður vel.

Tillaga mín að lausn er ófrumleg, en sú eina sem mér þykir gagnleg.

Segðu Póri, að Auður sé hreint ágætur rithöfundur.

Og segðu Auður, að Póri fari ekki illa með dýrin sín.

Hvort tveggja vitum við að er satt.

Allt hitt, sem liggur utanum, meðfram og innaní, og er áralöng saga með fleiri leiðindum en nokkur nema fáir nennir að muna – það verður aldrei útkljáð fyrir dómstólum.

Við fáum bara þennan afmarkaða tíma á jörðinni.

Honum er betur varið í sitthvað uppbyggilegra og fallegra en meiðyrðamál út af vanhugsuðum setningum í blaðagrein.

Sérstaklega þegar óvont fólk á í hlut.

Karl Th. Birgisson

1,214