trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 06/10/2018

Hvar varst þú 6. október 2008? Bjarni Ben. var að koma peningum úr landi til að borga fyrir truflaða útsýnisíbúð

[Í tilefni dagsins rifjar Herðubreið upp hvað Bjarni Benediktsson var að sýsla dagana sem Hrunið varð. Kaflinn er úr bókinni Hinir ósnertanlegu. Hann fjallar einkum um aflandseyja- og fasteignaumsvif núverandi fjármálaráðherra, sem komst upp um vorið 2016 – fyrir aðeins tveimur árum. Sumar setningar í textanum vísa í umfjöllun fyrr í bókinni og verða betur skildar í því ljósi.]

Það var ekki aðeins faðir Bjarna og einhver ótalinn fjöldi vina hans og kunningja sem birtust í Panama-skjölunum frá Mossack Fonseca.

Bjarni var þar sjálfur alveg svart á hvítu.

Gefum okkur að hann hafi ekkert vitað um íbúðirnar í Makaó, sem Vafningur keypti á sínum tíma. Hann vissi hins vegar allt um íbúðirnar í Dúbaí, sem hann ætlaði að græða á. Utan um þau viðskipti var stofnað félagið Falson & Co. (talandi um óheppilegar nafngiftir), sem var skráð á Seychelles-eyjum í Indlandshafi, örlítið minna þekktu skattaskjóli en Tortóla er.

Þeir áttu félagið þrír saman, Bjarni, Baldvin Valdimarsson og Ægir Birgisson. Það virðist vera á reiki hvort ætlunin var að kaupa eina eða fjórar íbúðir í háhýsi í furstadæminu, breyta þeim í „lúxusíbúðir“ (hvað skyldi Sveinn Benediktsson hafa sagt um slíkt á Siglufirði?) og selja með fínum hagnaði. Í þessu skyni lagði Bjarni um fjörutíu milljónir króna í verkefnið.

Aðspurður um aflandseyjafélagið í Panama-skjölunum sagðist Bjarni ekkert hafa vitað um það. Hann hefði haldið að félagið væri í Lúxembúrg. Þó kemur skýrt fram í öllum pappírum hvar félagið hafði heimilisfesti og í tölvubréfum er regulega talað um það sem Seychelles-félagið.

En Bjarni vissi það ekki eða var búinn að gleyma því þegar hann var loksins spurður.

Þess var líka vandlega gætt, að dylja eignarhaldið á félaginu. Hlutabréf voru þess vegna ekki gefin út á einstaklingana, sem áttu það, heldur á handhafa samkvæmt sérstakri beiðni.

Viðskiptin í Dúbaí hófust árið 2006, en svo varð ekkert úr þeim. Bjarni hefur sagt að fjárfestingin hafi gengið til baka og þeir félagar hafi meiraðsegja tapað á henni.

Það sé nú allt og sumt.

Ekki er ástæða til að draga það í efa, en í yfirlýsingu sem Bjarni sendi frá sér eftir að upp komst um aflandsfélagið vorið 2016 segir meðal annars:

„Eini tilgangur félagsins [Falsons] var að halda utan um eignina í Dubai en svo fór að við tókum aldrei við henni. Ákveðið var að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 var málið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli. Það hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi. Við gildistöku reglna um hagsmunaskráningu þingmanna átti ég því hvorki hlut í félagi í atvinnurekstri né aðrar fasteignir en húsnæði til eigin nota.“

Þetta er athyglisvert í ýmsu ljósi og rétt að muna.

Byrjum á því, að fasteignadraumar Bjarna Benediktssonar í útlöndum voru hreint ekki úti þótt fréttin um Dúbaí reyndist vera ekki-frétt og tómt slaður.

Falson kom nefnilega víðar til tals í fasteignadílum Bjarna.

Í janúar 2008 var Bjarni kominn á kunnuglegar slóðir – já, einmitt til Flórida. Hann var að vísu á ferðalagi á vegum þingsins til Níkaragua og þannig séð á kostnað skattgreiðenda, en dveljum ekki við smámuni. Gefum honum sjálfum orðið í tölvubréfi til Ægis Birgissonar:

„Er í Nicaragua á vegum þingsins. Stoppaði á Miami um síðust helgi á leið niðureftir. Fékk kynningu á mjög spennandi díl. Spurning hvort við eigum að skoða hann saman í Falson,“ segir Bjarni þar. Ægir svaraði og velti fyrir sér hvort hentugt væri að nota Falson eða jafnvel láta það stofna dótturfélag utan um þennan díl.

Þetta er sá hinn sami Ægir og vísaði iðulega til Falsons sem „Seychelles-félags“ í tölvubréfum.

Ó – við sem vorum látin halda að „eini tilgangur félagsins“ hefði verið að halda utan um eignina í Dúbaí. Svo sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra okkur að minnsta kosti orðrétt í yfirlýsingunni sem vitnað var til hér á undan.

En það var semsagt aldrei eini tilgangur félagsins. Það kom alveg og vel til álita að nota félagið í öðrum tilgangi og um það var rætt í tölvubréfum. En fjármálaráðherrann og formaður Sjálfstæðisflokksins skrökvaði blákalt að þjóð sinni, í trausti þess að hann kæmist upp með það. Aftur.

Díllinn á Miami var heldur engir verkamannabústaðir:

„Þetta er á algerlega brjáluðum stað neðst á South Beach. […] Þrjú risastór svefnherbergi og allur pakkinn. Truflað útsýni upp með ströndinni og út á haf. […] Sú dýrasta var penthouse ekki nema 1.000 fm með privat sundlaug á 40. hæð ofan á öllu draslinu. Þetta var eins og næturklúbbur.“

Þeir félagar keyptu á endanum íbúð á Flórida fyrir tæpar fjórar milljónir Bandaríkjadala, þó að því er virðist ekki í gegnum Falson, og lögðust í umfangsmiklar framkvæmdir við hana. Þær kostuðu í það minnsta vel á annað hundrað þúsund dali.

Þetta vitum við af því að Bjarni stóð sjálfur í greiðslum og millifærslum vegna þessa meðfram störfum sínum í þinginu á meðan óveðursský hrönnuðust upp í fjármálalífinu. Og þegar öllum með opin augu var ljóst að sett yrðu gjaldeyrishöft á næstu dögum.

Því verður ekki lýst sem öðru en tragikómedíu.

Upp úr hádegi hinn 6. október 2008 – tveimur klukkustundum áður en Geir Haarde bað guð að blessa Ísland – gaf Bjarni fyrirmæli til Glitnis um lokagreiðslu til iðnaðarmannanna á Flórida.

Tveimur dögum síðar – daginn sem Kaupþing féll  – lét hann svo borga hönnuðum fyrir þeirra þjónustu við breytingar á trufluðu útsýnisíbúðinni á South Beach.

Ólíkt höfðust þeir að, alþingismenn, þessa örlagaríku daga. Sumir að reyna að forða landinu frá gjaldþroti, aðrir að senda fé úr landi vegna fasteignabrasks á Flórida.

En það er fleira.

Bjarni tilgreindi í áðurnefndri yfirlýsingu að fasteignakaup Falsons í Dúbaí hefðu gengið til baka 2008, málið verið gert upp 2009 og félagið sett í „afskráningarferli.“

Sagan er flóknari, því að Bjarni og félagar ætluðu hreint ekkert að hætta með Falson og lúxusíbúðirnar í Dúbaí. Fyrrgreindan 6. október 2008 fór Landsbankinn á hausinn og þar með útibú bankans í Lúxembúrg, sem hafði reddað Bjarna hlutafélagi á Seychelles-eyjum í gegnum lögmannsstofu í Panama.

Nýi Landsbankinn tók ekki vel í að eiga viðskipti við hlutafélag, sem enginn vissi hver átti. Gleymum því ekki, að við stofnun félagsins var sérstaklega farið fram á, að hlutabréf yrðu skráð á handhafa, en ekki hina raunverulegu eigendur sem fengu þó fullt prókúruumboð. (Í stjórn félagsins sátu einhverjir fátæklingar í Panama og vissu ekki einu sinni af því.)

Nú þurfti Falson semsagt að finna nýjan viðskiptabanka og þeir félagar prófuðu aðra banka í Lúxembúrg.

Svarið var nei. Viðskiptahættir gamla Landsbankans tíðkuðust ekki þar. Evrópskir bankar þurftu að vita hver átti félag sem sóttist eftir viðskiptum.

Að svo búnu – eftir Hrun og eftir að allir íslenzku bankarnir voru farnir á hausinn – fékk Mossack Fonseca í Panama beiðni um að breyta skráningu hlutabréfanna. Að þau yrðu skráð á raunverulega eigendur sína. Annars gæti félagið ekki stofnað viðskiptareikning í nýjum banka.

Þá loks voru Bjarni og félagar tilbúnir að skrá sig formlega sem eigendur Falsons, þegar enginn banki vildi eiga við þá viðskipti.

Sögulok þekkjum við ekki ennþá, en í viðtali við Ríkisútvarpið kvaðst Bjarni Benediktsson „halda“ að hinn nýi bankareikningur Falsons hefði aldrei verið stofnaður.

Og þarna, í nóvember 2008 en ekki fyrr, var ákveðið að ganga út úr fasteignakaupunum í Dúbaí. Svona lék Hrunið marga nú illa.

Sögunni er heldur ekki lokið.

Í marz 2009 setti forsætisnefnd alþingis nýjar reglur um hagsmunaskráningu alþingismanna, mun strangari og ítarlegri en fyrr. Þær skyldu ná utan um stórt og smátt, þar sem alþingismenn ættu hagsmuna að gæta.

Viðskiptin í Dúbaí voru ekki gengin til baka og Falson var ennþá til. Bjarni Benediktsson var meiraðsegja orðinn skráður hluthafi í Falson, nauðugur viljugur.

En Bjarni Benediktsson lét hlutafélagsins Falsons í engu getið þegar hann skilaði inn hagsmunaskýrslu til þingsins eftir hinum nýju reglum. Af hagsmunaskráningunni mátti ætla að hann væri óskup venjulegur lögfræðingur, sem hvergi hefði komið nálægt nokkrum hlut.

Bjarni sagðist ekki hafa þurft að geta Falsons, af því að það hefði ekki verið „í atvinnurekstri“ (sjá títtnefnda yfirlýsingu hér fyrr).

Nýsettar reglur þingsins sögðu hins vegar ekkert um atvinnurekstur. Þær kváðu bara á um félög og hagsmuni. Punktur. En Bjarni ákvað að segja ekki frá Falson. Og sagði heldur ekkert fyrr en Panama-skjölin komu fyrir sjónir okkar.

Hann neitaði meiraðsegja ári fyrr – í Kastljósi – að hafa haft nokkuð með aflandsfélög að gera:

„Sp. Þú hefur aldrei átt eignir eða átt viðskipti í gegnum þessi svokölluðu skattaskjól?

BB: Nei, það hef ég ekki gert.“

Uppgjörið vegna hins misheppnaða fjárfestingarævintýris í Dúbaí var klárað í október 2009 – hálfu ári eftir að Bjarni hefði átt að skýra þingi og þjóð frá þessum hagsmunum sínum. Sem hann ákvað að gera ekki.

Minni athygli hefur vakið hvert Bjarni vildi fá endurgreiðsluna frá lúxusíbúðakaupunum í Dúbaí – það sem eftir var af upphaflegu fjárfestingunni, fjörutíu milljónum.

Höfum í huga að þetta er í október 2009, heilu ári eftir Hrun og löngu eftir að Bjarni er orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins og að eigin sögn hættur öllum monkíbissniss í viðskiptalífinu.

Endurgreiddu peningarnir frá Falson vegna Dúbaí rötuðu ekki inn á reikning hjá neinum af nýendurreistu íslenzku viðskiptabönkunum. Þeir fóru inn á svissneskan bankareikning, eftir beinum og skýrum fyrirmælum Bjarna sjálfs.

Á meðan flestir aðrir stóðu í stórræðum í tiltekt ári eftir Hrunið var formaður Sjálfstæðisflokksins að möndla með greiðslur til sjálfs sín inn á svissneskan bankareikning,

Og án þess að við viljum gera upp á milli svissneskra banka, þá hefur nafn þessa tiltekna banka verið í fréttum af öðru tilefni. Hann heitir eftir Julius Baer og er sá sami og Júlíus Vífill Ingvarsson, annar forystumaður í Sjálfstæðisflokknum, notaði til að fela hluta af arfi föður síns frá systkinum sínum.

Það var áreiðanlega góður og öruggur geymslustaður og reikningurinn í traustum gjaldmiðli líka.

—————

[Tilvísanir í heimildir eru í bókinni Hinir ósnertanlegu og eru flestar reyndar auðfundnar á vefnum.]

1,398