trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/02/2020

Húrra fyrir dómsmálaráðherra

Karl Th. Birgisson skrifar

Hún hefur lagt fram til samráðs og umsagnar frumvarpsdrög um breytingar á lögum um mannanöfn, þar sem gert er ráð fyrir löngu, löngu tímabærum breytingum.

Til dæmis um að við megum ráða því hvað við heitum og megum nefna börnin okkar án þess að eitthvert ríkisapparat stimpli það. Og svo framvegis.

Þetta með börnin er vitaskuld viðkvæmt. Svokölluð ónefni geta valdið þeim ama og jafnvel skaða á sálinni, en slíkt er þá frekar viðfangsefni barnaverndaryfirvalda en íslenzkufræðinga.

Hitt er morgunljóst, að afstaða okkar til nafna er breytileg eftir tíðaranda. Ég þreytist ekki á að taka dæmi af Merði. Gunnar Eyjólfsson lýsti því eitt sinn fyrir mér hvernig hann hefði húðskammað Árna Björnsson fyrir að gefa syni sínum þetta ónefni, sem myndi verða honum til mikillar ógæfu.

Enginn hafði heitið Mörður á Íslandi í þúsund ár. Ástæðan var Lyga-Mörður Valgarðsson í Njálu. (Þar er að vísu líka Mörður gígja Sighvatsson, en við mundum síður eftir honum í gegnum aldirnar.)

Ekki rættist spádómur Gunnars og síðan hafa komið fram fleiri Merðir, miklir mannkostamenn þeir sem ég kannast við.

Hið sama gildir um nöfn dregin af fuglaheitum. Við sjáum ekkert athugavert við Val, Hauk, Þröst og Örn. Hvað með Smyril og Fálka? Skúm, Lóm og Spóa? Eða Músarrindil og Þúfutittling?

Við eigum gullfallegar Erlur, Svölur og Lóur, og hin seinni árin hafa Ugla og Kría orðið vinsælli. En hvað um Gæs og Önd? Eða jafnvel Hænu og Álku?

Ég veit – okkur þykja þessi síðarnefndu fáránleg og jafnvel ónefni, en það er smekkur og smekkur breytist, eins og dæmið af Merði sýnir ótvírætt.

Um smekk er affarasælast að við ráðum sjálf. Við getum verið ósammála og jafnvel rifizt, en versta úrlausnarleiðin er að ríkisvaldið ákveði hvað er góður smekkur.

Fleira er í frumvarpinu hennar Áslaugar Örnu. Til dæmis að börn geti kennt sig við aðra en foreldri sín. Bravó. Sumir eru einfaldlega mun óheppnari með foreldri en aðrir og geta haft fyrir því margvíslegar ástæður að vilja ekki kenna sig þau. Þessi breyting er hreint mannréttindamál.

Svo er nú annað og talsvert skondnara.

Í þessu fína frjálslyndisfrumvarpi eru náttúrlega undantekningar og sérreglur, og eins og venjulega þegar lögfræðingar fara í slíka fimleika hafa þeir áberandi tilhneigingu til að detta á rassinn.

Nefnum aðeins tvö dæmi:

Það yrði heimilt að taka upp ættarnöfn. Nema auðvitað – hérna koma lögfræðingarnir siglandi – einhverjir aðrir beri þetta sama ættarnafn. Þá skal Þjóðskrá láta viðkomandi vita „og tilgreina að ættarnafnið verði skráð hjá beiðanda ef stofnuninni berast ekki andmæli innan þriggja mánaða um að réttarins til ættarnafnsins verði gætt fyrir dómstólum.“

Nú heiti ég til dæmis Thorberg. Það er skírnarnafn, en ekki ættarnafn. En ég gæti tekið upp á því að skrifa mig Karl Thorberg og beðið Þjóðskrá um að breyta til samræmis. Þá gæti hún Helga Thorberg elskuleg og allt hennar fólk farið í mál við mig af því að þau „eiga“ Thorbergs-nafnið.

Meikar ekki minnsta sens, kæri dómsmálaráðherra. Það á enginn nöfn.

Og þó, og það er seinna skringilega dæmið. Þessi málsgrein:

„Eiginnafn má ekki vera svo svipað heiti á lögaðila sem nýtur verndar hér á landi eða heiti á samtökum eða sambærilegum lögaðilum eða almennt þekktu listamannsnafni, ef gera má ráð fyrir að lögmætir hagsmunir bíði tjón af.“

„Lögaðili“ er ekki einstaklingur og er jafnan notað um félög og fyrirtæki.

Nú er að vísu skiljanlegt að lögfræðingum dómsmálaráðuneytisins þyki varhugavert að fólk heiti Eimskip, Landsbankinn eða Lífsstykkjabúðin, en hvernig virkar reglan omvendt?

Hún virkar svona: Við megum ekki heita eftir lögaðilum, en þeir mega heita eftir okkur. Vélsmiðjan Héðinn kemur upp í hugann og ekki síður Brynja á Laugavegi.

Ennú verra er að fyrirtæki virðast mega stela ættarnöfnum, jafnvel „almennt þekktu listamannsnafni“, sem okkur pöplinum er bannað. Síðast þegar ég vissi var verzlunin Kjarval á bæði Hellu og Kirkjubæjarklaustri.

Um þetta er ekkert í frumvarpsdrögunum.

En að samanlögðu sumsé: Húrra fyrir dómsmálaráðherra. Hún er þó að gera eitthvað og það meiraðsegja til bóta.

Þótt sumt sé óneitanlega talsvert fyndnara en annað.

Sennilega mætti átölulaust opna verzlunina Bubbi Laxness.

Karl Th. Birgisson

 

2,108