trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 12/10/2015

Hugljómun

Það er löngu vitað að að ótrúlegasta fólk vaknar stundum til vitundar. Stöku sinnum lifir hugljómunin og elur af sér nýja hugsun og framfarir. Oftar er hún þó líkari neistaflugi; sindrar og deyr í einni og sömu andrá. Um helgina urðu að minnsta kosti þrír frammámenn fyrir vitundarleiftri.

Vigdís HauksdóttirFyrst skal fræga telja Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar alþingis. Hún lýsti því yfir í Ríkisútvarpinu nú í morgun að hin nýstofnaða Stjórnstöð ferðamála væri óþörf þar sem samskonar „batterí“ sé þegar til staðar. Svo slokknaði á rænunni: Þessi ötuli talsmaður sparnaðar ætlar ekki bregða fæti fyrir nýja „batteríið“; hún ætlar að leggja því lið og veita fé í óþarfann, sem hún kallar svo.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherrann, sem er að méla heilbrigðisþjónustuna með því að þráast við að semja við starfsfólk hennar um mannsæmandi laun, var vakinn fyrir allar aldir í morgun, mætti í Ríkisútvarpið, fékk vitrun í svefnrofunum og fullyrti að endurtekin verkföll væru hvimleið; „ … þetta er þungt og þetta gerir ekkert annað en veikja stoðir heilbrigðisþjónustunnar í landinu,“ Vitrun ráðherrans kulnaði ekki í beinni útsendingu svo ef til vill verður samið áður en hundruðir fara í verkfall. Nema náttúrulega bálið slokkni í votviðrinu utandyra.

160695907„Ég hef aldrei talið mig ómissandi og ef ég tek þá ákvörðun um að hætta vona ég að því verði sýndur fullur skilningur,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson í hugljómun sem blikkaði eins og biluð neonljósapera í vörugeymslu  þegar hann var spurður að því á sunnudagsmorgni hvort hann myndi bjóða sig fram til forseta á næsta ári. Og talaði áfram undir blikkljósunum, þjóðhöfðinginn: „Ég er kannski ekki búinn að ákveða mig.“

Við eigum snarpa hugsuði í forsvari, Íslendingar. En það er eins og úthaldið skorti hjá mannvitsbrekkunum okkar.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
2,440