trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 16/01/2016

Hugleiðing nývígðs prests

Í september 2014 var ég vígður til prests. Það var ljúfur og eftirminnilegur dagur sem hafði verið utan og innan seilingar til skiptis í um tuttugu ár og jafnlengi ýmist utan eða innan framtíðaráforma minna. Ég sjálfur hafði um tíma gefið það alfarið upp á bátinn að hann myndi nokkurn tímann renna upp. Þennan dag fékk ég það mjög sterkt á tilfinninguna að nýr kafli væri hafinn í lífi mínu og því fylgdi í senn eftirvænting og kvíði; einkennileg tilhlökkun blönduð óvissu.Egilsstaðakirkja

Nú hef ég verið prestur í rúmt ár. Ýmislegt hefur komið mér á óvart á þessum ári. Til dæmis ver ég mun meiri tíma í skrifstofustörf og hvers konar skipulagsvinnu en ég hafði gert mér í hugarlund. Sömuleiðis er leitað mun meira til mín eftir sálgæslu og ýmiss konar ráðgjöf en ég bjóst við. Minni tími fer í helgihald, prédikanaskrif og guðfræðigrúsk en ég hafði séð fyrir.

En það sem kemur mér meira á óvart er sá fjandskapur sem kirkjan, sem ég þjóna, verður fyrir í ræðu og riti. Það er niðurdrepandi að leggja sig fram í starfi af heilindum og köllun og finnast maður gera gagn og hjálpa, en fá það svo yfir sig að allt sem maður geri sé til aðeins ama og tjóns.

Það einkennnilega er að sú kirkja, sem lýst er í þessum fjandskaparyfirlýsingum, er stofnun sem ég kannast ekki við og tel mig ekki þjóna.

Kirkjan starfar í raunheimum. Hér í Fjarðabyggð er hún mikilvægur þátttakandi í menningar- og félagslífi bæjarfélagsins og ég veit að svo er víðar. Þótt þetta sé sama kirkja og í Reykjavík er staða hennar í samfélaginu allt önnur. Og staðreyndin er sú að í þeim raunheimi sem ég starfa sætir kirkjan afar lítilli gagnrýni. Það er ekki fyrr en ég fer á internetið sem skammirnar hellast yfir mig og ég les með reglulegu millibili að ég sé málaliði heimsveldis hins illa sem snúist aðeins um peninga og völd og sjálfur hafi ég valið mér starf vegna ágirndar í efnisleg gæði en ekki af köllun andans – rétt eins og reynslan sýni að prestsembætti sé auðfengnasta og óbrigðulasta ávísunin á auð, vinsældir og virðingu sem í boði sé.

Hvers vegna?

Jú, kirkjan er víst svikamiðill sem selur fólki hugarburð um handantilveru og æðri veru samkvæmt ranghugmyndum þeirra sem hæst gagnrýna hana. Þetta sýnir að mínu mati ansi stæka vanþekkingu á því hvað kirkjan er. Trú er ekki hugarburður. Trú er mjög raunverulegt fyrirbæri og mikill mótunarþáttur í sögu samfélagsins og þroska og liðan einstaklinga. Hvort það, sem átrúnaðurinn beinist að, er raunverulegt eða ekki – á sama hátt og það er raunverulegt að þú ert nú að lesa þessi orð – það veit enginn með vísindalegri vissu. En trúin sjálf er jafnraunveruleg og máttug fyrir því. Kirkjan er ekki að selja fólki hugarburð. Kirkjan er vettvangur til að iðka trú og stofnun sem starfar í trú og kærleika. Kærleikurinn er ekki heldur hugarburður.

Þannig verð ég ekki var við að það sæti gagnrýni að á sjöunda hundrað unglinga á aldrinum 13-16 ára komi saman á landsmóti Æskulýðssambands Þjóðkirkjunnar, fræðist í leik og starfi um geðrækt og geðheilsu og safni fé til að styrkja efnalítil börn á Íslandi til tónlistarnáms og íþróttaiðkana. Ég held að fátítt sé að svo stór hópur unglinga á þessum aldri dvelji saman í slíku nábýli svo lengi án þess að nokkurn skugga beri á samkomuna. Það var sáralítið gagnrýnt þegar þessi sömu börn söfnuðu fé til að kaupa þrælabörn úr ánauð á Indlandi. Það er mjög lítið gagnrýnt að á hverju hausti gangi fermingarbörn í hús og safni fé til að grafa brunna í Afríku og frelsa þannig tugi og hundruð jafnaldra sinna frá þrælkun við vatnsburð og gefa þeim kost á betra lífi, heilsufari og menntun.

Þegar fólkið, sem kemur til mín með reglulegu millibili til að fá hjálp við að vinna úr samskiptavandræðum sínum og reyna að bjarga hjónabandi sínu, les fullyrðingar á netinu um að fráleitt sé að réttlæta tilvist kirkjunnar með því að hún gegni einhverju sálgæslu- eða ráðgjafarhlutverki veit ég að það hristir hausinn og sér að sá sem þannig talar veit ekkert í sinn haus. Það sama gildir um fólkið sem til að líða betur þarf kannski aðeins einhvern sem hlustar á sorg þess eða viðbrögð við áfalli eða missi – og gerir það ókeypis.

En af hverju rekur kirkjan þá ekki öflugan gagnáróður og leiðréttir þessi ósannindi sem mörgum sjálfskipuðum álitsgjöfum þjóðarinnar finnst heilög skylda sín að halda að fólki? Jú, vegna þess að þegar lagt er til að 150 milljónum sé varið til að bæta ímynd kirkjunnar veldur það skaða á ímynd kirkjunnar sem óvíst er að 150 milljónir geti bætt. Vegna þess að þegar kirkjunnar menn opna á sér munninn virðist þeim oft einkennilega áskapað að skjóta sig einatt í fótinn á einhvern hátt.

Kirkjan vinnur gott og þarft verk. Ég held að við ættum að halda áfram að vinna verk okkar í hljóði og af auðmýkt og að láta verkin tala. Þessum 150 milljónum væri að mínu mati betur varið í starf kirkjunnar. Besti áróðurinn fyrir kirkjuna er starf kirkjunnar – ekki orð hennar.

Það virðist nefnilega fara kirkjunni svo miklu betur að vera með opinn faðminn en munninn.

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,408