trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 20/12/2015

Hjá klikkuðu fólki: Dásamleg bók Garðars Sverrissonar um einstæða og fallega vináttu

Ritdómur – Karl Th. BirgissonBobby Fischer

Yfir farinn veg með Bobby Fischer

Garðar Sverrisson

(Skrudda 2015)

Það er fáheyrt, að ég hlæi upphátt að skrifuðum texta. Sérstaklega ef hann er ekki brandari. En slíkt getur Garðar Sverrisson nú gert manni.

Þessi dásamlega bók Garðars um vináttu hans og Bobbys Fischers – og þar með síðustu ár Bobbys, líf hans á Íslandi, sérvizku, veikindi og dauða – er algerlega einstök. Og falleg. Og hlý.

Í einhverjum skilningi er hún eins og löng, en ákaflega vel skrifuð minningargrein. En þó ekki, því að hún er líka og eins og dagbókarfærsla um síðustu misserin í lífi manns sem var svo margt í senn, snillingur á sínu sviði, fullkomlega óþolandi af því að hann var svo snarklikkaður, en líka ástrík og á köflum djúpvitur manneskja.

Og það var þar sem ég hló. Að einhverju sem Bobby sagði – eða Garðar – sem var alls ekki meint sem brandari, heldur voru ósjálfráð viðbrögð við fullkomlega súrrealískum aðstæðum sem þeir voru komnir í. Og þeir vinirnir lentu í þeim oftar en tölu verður á komið.

Trúið mér. Drumbur eins og ég hlær ekki upphátt sisona að ástæðulausu. Ég hló af hlýju.

———-

Ég rek ekki mörg dæmi hér, en frásögn af ferð þeirra félaga í sumarbústað austur í Miðhúsaskóg er ein og sér efni í smásögu sem verðskuldar Nóbelsverðlaun. Þeir skipta um bústað af því að hagamús skýzt yfir gólfið og þar með þykir ólíft í húsinu. Þetta var ekki fælninni í Bobby að kenna (og átti hann þó heilt gallerí af þeim), heldur Garðari – sem í þessum fallega kafla sýnir hversu brilljant og næmur höfundur hann er. Textinn er svo lipur og áreynslulaus, og lýsir miklum mannskilningi.

Fyrir tilviljun horfa þeir svo daginn eftir á beina útsendingu af atskákmóti í hinum seinni sumarbústað. Í þeim fáu málsgreinum tekst Garðari að bregða upp svo lifandi mynd af Bobby Fischer að sálgreiningar og fleiri ævisögur verða óþarfar.

Eitt upphátt hlæ enn: Þegar læknarnir banna Bobby á sjúkrahúsvistinni undir lokin að borða ber af lífræðilegum ástæðum, en hann doblar son Garðars, Sverri, til að smygla til sín svolitlum birgðum:

„Eins og rómverskur keisari sat hann alsæll upp við dogg í rúminu og tíndi makindalega upp í sig hvert berið á eftir öðru. Af sjálfsánægjunni í svip hans var greinilegt að þarna fannst honum hann heldur betur hafa náð frumkvæðinu úr höndum mínum og spítalans.“

Þetta var fárveikur og sárþjáður maður, dauðvona í þokkabót og vissi það líklega. Það er ekki annað hægt en að hlæja með Bobby yfir þessum litla sigri hans á yfirvaldinu, sem vildi segja honum fyrir verkum. Í tilviki Landspítalans var þar þó alls ekkert yfirvald heldur heilbrigðisstofnun til fyrirmyndar, og raunar er ákaflega lærdómsríkt að kynnast viðbrögðum lækna þar við óhefðbundnum skoðunum Bobbys á líkama fólks og lyfjagjöf.

Aðrar frásagnir Garðars af rifrildum þeirra Bobbys, hlátrasköllum, aftursætisbílstjóraökuferðum og löngum þögnum læt ég ykkur eftir að lesa. Gerið það endilega og verðið betri manneskjur á eftir.

———-

Hér að ofan sagði að Bobby hefði verið snarklikkaður. Ég stend við það og bæti við: Hann var alveg sprúðlandi spinnegal í sumum efnum, og þar er Garðari nokkur vandi á höndum í bókinni, eins og ljóslega skín í gegnum texta hans.

Garðar er sagnfræðingur, en ekki sálfræðingur. Samt er hann nógu glöggur, hann hefur séð og upplifað nógu margt til þess að vita, að einföldu skýringarnar á mannlegu atferli eru sjaldnast hinar réttu eða nægjanlegar til skilnings.

Í tilviki Bobbys Fischers er þó svo auðvelt að missa sig í popp- og eldhúskrókasálfræði. Uppreisn hans gegn gyðingdómnum, viðvarandi paranoja og alls kyns samsæriskenningar, og þó ekki síður uppreisn gegn móður hans, sem Bobby elskaði greinilega langt umfram aðrar manneskjur í lífinu og kemur svo fallega fram víða í bókinni. Þessi uppruni, æska og uppeldi, útskýrir að einhverju leyti hvers vegna Robert Fischer varð að hinum bilaða Bobby Fischer.

Í umfjöllun um öðruvísi fólk er hins vegar afar viðkvæm lína á milli þess, að útskýra og afsaka. Þetta þekkjum við á núlíðandi stund, þar sem við þykjumst vita og skilja hvers vegna ungt fólk gengur til liðs við hrottafengin hryðjuverkasamtök, og viljum bregðast við orsökunum, en án þess að réttlæta gerðir þess. Útskýringin verður samt oft að afsökun, eða er skilin þannig.

Í frásögnum af Bobby lendir Garðar í þessum vanda. Okkur verður smám saman ljóst hvernig hann skilur manninn, hvers vegna Bobby hugsar eins og hann hugsar. Garðar skiptist líka á skoðunum við hann og skynjar að honum er ekki alls varnað, andmælir þó ályktunum Fischers þegar forsendurnar eru vitlausar og veikbyggðar, en á endanum verður hann að sætta sig við Bobby Fischer eins og Bobby Fischer er.

Og honum þykir vænt um Bobby. Eins og mér líka, eftir lestur bókarinnar.

Það breytir ekki hinu, að Bobby Fischer var bilaður og fullur ranghugmynda. Garðar veit þetta, en reynir að feta slóð skilnings og vináttu.

Á einum stað mistekst það. Eftir hryðjuverkaárásirnar í Bandaríkjunum 11. september 2001 tók filippeysk útvarpsstöð símaviðtal við Bobby þar sem hann fagnaði morðunum einlæglega og þóttu þau eiginlega það bezta sem komið hefði fyrir mannkynið hin seinni ár. Gott á helvítis gyðingana, svona efnislega.

Í bókinni skautar Garðar yfir þetta alræmda viðtal, sem lýsti hugmyndaheimi Bobbys þó svo vel og viðlíka hafði komið fran í mörgum öðrum viðtölum, og telur það til marks um stundarójafnvægi, hann hafi jú verið í fangelsi og ekki vel stemmdur, og svo framvegis. Og vitnar um að aldrei hafi hann heyrt Bobby tala með sama hætti aftur. Allur textinn er eins og afsökun.

Ýmislegt annað sem Garðar telur fram sem meint rök Bobbys fyrir lífsskoðun hans er líka of kjánalegt til að teljast boðlegt, þótt Garðar láti okkur alveg vita líka hvað honum finnst sjálfum.

Gott og vel. Bobby Fischer var að innræti og upplagi góð manneskja, greinilega einstaklega barngóður og hafði sérstakt lag á að nálgast dýr. Mannhatrið má líka útskýra með alls kyns tilvísunum í sögu og aðstæður. Það á hins vegar aldrei og má ekki að afsaka.

Í þessari umfjöllun eru þetta einu hnökrarnir sem ég finn á annars yndislegri sögu af einlægri vináttu tveggja manna, sem eru hvor öðrum einkennilegri. Annar þó umtalsvert meira en hinn.

———-

Nema hér: Þessi bók á fullt erindi á erlendan markað og mér skilst að hún hafi nú þegar verið þýdd á ensku. En þar með kemur að alvarlegum veikleikum í uppbyggingu sögunnar. Ég nefni bara þrennt.

1. Sagan hefst þar sem Garðar og Bobby hittast á Hótel Loftleiðum, eftir nokkurra mánaða samskipti í síma til og alls kyns vendingar um ríkisborgararétt Bobbys og önnur flókin mál. Mikil dramatík og vel skrifuð.

Spurning: Hvernig kynntust Garðar Sverrisson og Bobby Fischer? Hvers vegna fóru þeir að tala saman, Garðar á Íslandi og Bobby í fangelsi í Japan?
Lesandanum er aldrei gefinn nokkur ávæningur um þetta. Á Íslandi muna fréttafíklar forsöguna og þó varla allir, en yngra fólk veit ekkert og útlendingar enn minna. Upphaf sögunnar er samhengislaust og óskiljanlegt nema okkur nördunum. Með henni fylgir hvorki formáli né eftirmáli.

2. Í bókinni birtist reglulega kona sem heitir Miyoko, allt frá fyrstu síðum til loka. Hver er hún? Hvers vegna er hún þarna? Skiptir hún einhverju máli?
Lesandinn fær aldrei að vita, að þetta er eiginkona Fischers. Ekki fyrr en á lokasíðunum, þegar Garðar ráðleggur henni að taka giftingarvottorðið með sér frá Japan til að losna hugsanlega við vesen við greftrun Bobbys.

3. Á einum tímapunkti er Garðar kominn á sjúkrahús vegna alvarlegs sjúkdóms. Alveg óforvarendis, og Bobby hefur vitaskuld gagnleg ráð að gefa. Einkenni sjúkdómsins koma oftar við sögu, en lesandanum er aldrei sagt meira.

Hvaða sjúkdómur Garðars er þetta eiginlega og hvernig eigum við að skilja hann í samhengi við söguna? Er ekki lágmark að veikindin séu útskýrð, úr því að þau þykja frásagnarverð á annað borð?

Við sem þekkjum til Garðars vitum hvers kyns er, en aðrir lesendur ekki og enn síður lengra komnir að.

Að viðbættum alltof mörgum óleiðréttum innsláttarvillum í textanum – sem mér virðist því miður of algengt hjá þessu forlagi – þykir mér í yfirlæti mínu rétt að biðja fólk þar innan húss að herða sig í ritstjórn og yfirlestri.

———-

En þetta var nú smámunasemi og tuð, því að þessi bók grípur mann alveg frá blaðsíðu tíu og til loka. Til þess þarf maður ekki einu sinni að hafa minnsta áhuga á skák eða þekkja hrók frá biskupi. Þetta er saga um fólk, og einkum tvær einlægar manneskjur.

Hér er tillaga: Annaðhvort gefið þið einhverjum þessa bók í jólagjöf, með skýru fororði um að fá hana lánaða, eða kaupið hana ykkur til yndis.

Það er svo gott að hlæja með góðum manneskjum. Jafnvel – og jafnvel sérílagi – þegar þær eru snarklikkaðar.

Karl Th. Birgisson

Flokkun : Menning
1,409