Hin sanna saga
Stefán Bogi Sveinsson skrifar
Bergsvein Birgisson
Lifandilífslækur
(Bjartur, 2018)
Bergsveini Birgissyni líður augsýnilega vel á Ströndum, í það minnsta í skáldskap sínum og ég leyfi mér að ætla að hið sama eigi við í raun. Alltént sækir hann ítrekað í þann sagnabrunn sem Strandirnar geyma og ferst það jafnan vel úr hendi. Gildir þar einu hvort hann vinnur þar með samtíð eða nálæga fortíð, upphaf byggðar líkt og hann gerði í Geirmundar sögu heljarskinns nú eða þá heldur aftur til 18. aldar eins og raunin er með hans nýjustu skáldsögu, sem nefnist Lifandilífslækur.
Það er ekki ofmælt að ég hafi fyllst tilhlökkun þegar ég frétti fyrst af því að ný skáldsaga væri væntanleg frá Bergsveini. Ég viðurkenni fúslega að ég telst til aðdáenda og hef verið það alveg frá því að fyrsta skáldsaga hans, Landslag er aldrei asnalegt, kom út árið 2003. En eftir því sem fjallað var meira um bókina fylltist ég sömuleiðis ákveðnum beyg því fram kom að það hefði á einhvern hátt verið höfundinum kappsmál að skrifa bókina því hún tæki með einhverjum hætti á deilumálum samtímans, sérstaklega á Ströndum. Ég gat ekki skilið það öðruvísi en svo að átt væri við virkjanaáform.
Rithöfundar mega og eiga sannarlega að takast á við stórar spurningar í verkum sínum, en það er ekki vandalaust að gera það svo vel sé. Ótti minn byggðist á því að það er alls ekki öllum höfundum gefið að taka afstöðu til deilumála í samfélaginu án þess að gjöreyðileggja skáldverk sín um leið. Og því sértækara sem málefnið er þeim mun hættara er við því að boðunin beri söguna ofurliði og hún verði flatneskju og leiðindum að bráð.
Skemmst er frá því að segja að það urðu ekki örlög Bergsveins að drepa mig úr leiðindum. Langt því frá. Spurningarnar sem tekist er á við eru stórar og svörin sömuleiðis, heillandi og margræð. Ekki minnsti vottur af þreytandi prédikunartóni heldur bara saga sem er töfrandi og spennandi í senn.
Persónur í Lifandilífslæk eru ýmist sögulegar eða skáldaðar, ef svo er hægt að segja, því auðvitað eru sögulegu persónurnar líka skáldaðar. Orð þeirra og gjörðir lúta duttlungum höfundarins rétt eins og hinar persónurnar. En þessi sögulega tenging er að mínu mati einkar skemmtileg og mikilvæg fyrir upplifun lesandans á verkinu. Það verður raunverulegra fyrir vikið, jafnvel þótt á stundum daðri Bergsveinn við allskonar fantasíur, þjóðsögur og goðsagnir ýmiskonar. Úr þessu öllu blandar hann kokteil sem ég held að enginn annar gæti sett saman á sannfærandi hátt, en er honum einhvern veginn fullkomlega eðlilegur. Það má setja þetta í samhengi við málfarið á bókinni, sem er einstakt. Bergsveinn fer afar vel með gamalt orðfæri og tungumál sem heyrist ekki né sést lengur í nútímanum en rennur að því er virðist algjörlega áreynslulaust úr hans penna. Þetta er á allan hátt trúverðug saga, þó á sama tíma sé hún alls ekki sönn. Eða ættum við kannski frekar að segja, ekki í samræmi við sögulegar staðreyndir? Sagan getur út af fyrir sig verið sönn, þó hún hafi aldrei gerst. Eða er það ekki?
Lifandilífslækur hefst í Kaupmannahöfn og þar koma við sögu þekktir einstaklingar úr Íslandssögunni. Án þess að ætla mér að dvelja lengi við það vil ég sérstaklega nefna þátt Jóns Eiríkssonar (1728-1787) í sögunni. Mér þótti einhverra hluta vegna vænt um að sjá honum gerð skil í þessum texta. Jón Eiríksson var gagnmerkur maður sem hefur að sumu leyti horfið í skuggann eftir því sem tíminn líður. Hann er líka mögulega sá maður sem hefur fengið reist eftir sig hvað veglegast minnismerki, við Skálafell í Suðursveit, en hvað fæstir vita samt nokkuð um. Sá Jón Eiríksson sem Bergsveinn Birgisson færir okkur hér er óhamingjusamur öðlingur sem auðvelt er að þykja vænt um og samsama sig með. Sá litli hluti sögunnar snerti sérstaklega við mér.
En eftir að búið er að leggja línurnar um sögusviðið og kynna aðalsögupersónuna, Magnús Árelíus, fyrir lesendum, yfirgefum við Kaupmannahöfn og segja má að sagan hefjist fyrir alvöru þegar hann kemur til Íslands með farareyrinn, vísindatækni og verkefnin stóru. Skýrslugerð um ástand lands og þjóðar og svo hinar vísindalegu mælingar sem honum eru svo hjartfólgnar, enda er Magnús Árelíus fulltrúi upplýsingarinnar og nýrrar kynslóðar sem trúir umfram annað á vísindin. Sagan snýst í framhaldinu kannski fyrst og fremst um það hvernig þeirri trú reiðir af í samskiptum við íslenska náttúru og íslenska þjóð. Ég held ég ljóstri engu upp þegar ég segi að sú trú á eftir að verða skekin nokkuð áður en yfir lýkur.
Frá því að sögusviðið færðist til Íslands upplifði ég lesturinn eins og ég væri að berast með straumi stóreflis vatnsfalls. Straumurinn var misstríður en alltaf til staðar og ég átti ekki annan kost en að láta berast með honum allt til ósa. Þessi upplifun mín samræmist að einhverju leyti líka hvernig höfundurinn lýsti því sjálfur hvernig hefði verið að skrifa bókina, en hann hefur talað um að hann hafi við það þurft að sleppa sínum eigin vilja og hugmyndum en leyfa einhverju öðru að streyma fram. Ekki bara að lýsa einhverjum sögulegum myndum heldur koma einhverri mynd á tilfinningalegan veruleika sem brýst fram og er ekki síður sannur.
Þessi stöðugi straumur sögunnar heillaði mig sem lesanda. Það eina sem nefna má að sé til vansa er að sumar persónur sögunnar týnast að einhverju leyti í allri þessari framvindu. Persónur sem vekja áhuga lesandans en skýtur í raun aðeins örstutt upp á yfirborðið en hverfa síðan aftur í flauminn. Á það ekki síst við um Jón Grímsson sem virðist um stund ætla að verða önnur aðalpersóna sögunnar en hverfur síðan án þess að lesandinn viti of mikið um hans innra gangverk. En sagan heimtaði að halda áfram án hans og því kalli varð að hlýða. Kannski er þetta bara frekar til marks um að höfundurinn hafi ekki misst sjónar á eigin markmiði, hvaða sögu hann ætlaði sér að segja, rétt eins og Magnús Árelíus missir ekki sjónar á eigin markmiði, að komast upp á Hornbjarg.
Hér ætla ég ekki að segja meira. Sumt verða bara þeir að lesa sem vilja og örlögum sögupersóna eða öðrum atburðum á Ströndum árið 1785 ætla ég ekki að uppljóstra. En það er óhætt að mæla með þessari stórkostlegu skáldsögu sem er vel að því komin að hafa hlotið tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Lifandilífslækur er söguleg skáldsaga, en jafnframt líka annað og miklu meira. Með því að flétta við hið sögulega stefjum úr þjóðsagnaarfinum, og raunar líka þáttum úr annarri frábærri íslenskri bókmenntagrein sem eru hrakningasögurnar, skapar Bergsveinn Birgisson magnað sögusvið sem er erfitt að slíta sig frá og hvar sögð er saga lands, þjóðar og mannlegs eðlis í þúsund ár eða lengur.
Er hægt að biðja um mikið meira en það?
Stefán Bogi Sveinsson
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021