trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 14/10/2015

Hin hálu þrep Bjarna Bernharðar: Þessa bók leggur enginn ósnortinn frá sér

Skákborð lífsinsBjarni Bernharður

Um dagana

hef ég setið

að lífsins tafli.

 

Á tjaldi hugans

bregður fyrir

myndum

af tapskákum

fortíðar

 

sem gleymast ei

og eru mér víl.

 

Í hugarfórum

finnast líka

sætir sigrar

 

mér til vegsauka.

 

Að stilla upp borði

og tefla til þrautar

er hinn rétti andi

 

—lífið er áskorun!

BBB

Nú síðsumars kom út sjálfsævisaga Bjarna Bernharðar Bjarnasonar (1950), Hin hálu þrep.

Bjarni Bernharður er mörgum, sér í lagi þeim sem eiga leið um miðbæ Reykjavíkur, kunnur. Hann hefur um árabil staðið í Austurstræti og selt ljóðabækur sínar og tekið fólk tali.

Ekki er því að neita að einstaka manneskja hefur verið hálf smeyk við þennan stóra mann, sem af hafa farið margar sögur. En með bókinni gefst þeim, og öðrum, kostur á að kynna sér lífshlaup Bjarna. Í bókinni segir hann frá hörðu og margslungnu lífi sínu af alúð og heiðarleika. Fyrsti kafli bókarinnar hefst á orðunum: „Straumhart fljót rennur í gegnum sveitaþorp“. Og segja má að með þeim orðum takist Bjarna að fanga kjarna lífshlaups síns í einni setningu. Í aðfaraorðum bókarinnar segir Bjarni:

„Minningar raðast ekki í tímaröð í undirvitundinni heldur eru þær í brotum, brotum sem hafa enga innbyrðis tengingu en samþættast í endurliti. Hugurinn er stöðugt að endurraða augnablikum jafnhliða því að skapa heildarmynd. Þræðir tímans togast á frá einu hólfi til annars í hugarheiminum og framkalla endurlifun. Vitundin er skip sem siglir á hvítum bárum tímaleysis, frjáls undan annmörkunum tíma og rúms.“

Með þessum orðum gefur Bjarni til kynna að í bókinni sé um að ræða endurlifun höfundar.

Í frásögn sinni velur Bjarni Bernharður sagnaform þar sem hann segir frá í fyrstu persónu, en í sárustu köflunum segir köflunum segir hann þó söguna í þriðju persónu. Og tekst með því að gera þá bærilega fyrir bæði söguna og lesandann. Til að styrkja frásögnina enn frekar og gera hnitmiðaðri notar hann ljóð sín og myndir. Úr verður falleg og heilstæð frásögn um hart, erfitt og á köflum skelfilegt líf manns sem bjó við harðræði í bernsku, þarf snemma að fara að sjá sér farborða, lendir í neyslu vímuefna og í viðjum erfiðs geðsjúkdóms, og verður manni að bana. Bjarna hefur þó, með elju sinni, tekist að vinna sig út úr skelfingunni og mæta lífinu með öllum þess áskorunum.

Hver sá sem les bókina leggur hana ekki ósnortinn frá sér.

Sú sem þetta ritar vatnaði músum oftar en einu sinni. Bæði við að heyra Bjarna lesa úr bókinni þegar hún kom út, og aftur við lestur hennar. Um leið hlýtur lesandinn að dást að kjarki Bjarna Bernharðar, þrautseigju og því að standa með sjálfum sér.

Bókina má kaupa í bókabúðum, en einnig má nálgast hana beint af höfundi í gegnum facebook síðu hans.

Lára Jóna Þorsteinsdóttir

(Mynd af Bjarna: Árni Grétar)

Flokkun : Menning
1,283