trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 26/02/2019

Himnaríki er túnfífill

Guðspjall: Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“ (Mrk 4.30-32)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég er mjög þakklátur fyrir líkingamálið sem Jesús talar í Nýja testamentinu. Hann segir nefnilega aldrei: „Himnaríki er fyrir ofan skýin. Þar er hátt til lofts og vítt til veggja sem allir eru hvítmálaðir, útidyrnar eru gylltar og þar bíður hann Pétur vinur minn eftir hinum dánu, flettir þeim upp í lífsins bók og hleypir þeim inn ef þeir eiga það skilið. Þeir sem koma inn fá hvítan kufl, vængi á bakið og kennslu í hörpuleik. Síðan sitja þeir á skýi og spila á þessa hörpu til eilífðarnóns.“

Hann segir þetta aldrei. Af einhverjum ástæðum varð þessi hugmynd samt til, en það er annað mál.

Nei, Jesús segir aldrei að himnaríki sé svona eða hinsegin. Hann segir aftur á móti hvað eftir annað: „Líkt er um himnaríki og …“ eða „Svo er um himnaríki sem …“ og í dag segir hann: „Líkt er það …“

Eftir því sem ég kemst næst segir hann aldrei að Guð eða Guðs ríki sé „eins og“ eitthvað annað. Enda er ekkert „eins og“ Guð eða himnaríki. Ekkert.

Aftur á móti er eitt og annað ekki ólíkt því … að einhverju ákveðnu leyti. Það er nefnilega þannig með líkingarnar okkar um Guð að þær brotna alltaf fyrir rest.

Hin ranga líking

Í dag er það mustarðskornið sem er ekki ósvipað Guðs ríki upp að einhverju ákveðnu marki. Og það er hlutverk okkar að skilja upp að hvaða marki líkingin gengur upp og að hvaða leyti hún er röng.

Í fyrsta lagi er líkingin röng vegna þess að lýsingar Jesú á mustarðskorni og trénu sem upp af því vex fá ekki staðist. Staðreyndin mun vera sú að mustarðskorn er alls ekki „smærra hverju sáðkorni á jörðu“. Ekki svo að skilja að það sé eitthvað risavaxið, en að það sé alsmæsta fræ sem þekkt var í Palestínu á fyrstu öldinni er bara ekki rétt. Og hitt er líka fráleitt að þegar mustarðstré vaxi úr grasi fái það „svo stórar greinar að fuglar himins geti hreiðrað sig í skugga þess.“

Þetta er runni, getur orðið mannhæðarhár, kannski rúmlega það og er í raun hálfgert illgresi. Þetta dreifði úr sér í breiðum á stöðum þar sem annað óx ekki og fræin voru vissulega lostæti fyrir fugla þannig að á vissum árstímum mátti sjá stóra sveima af þeim yfir þessum breiðum.

Þetta vissu þeir sem Jesús var að tala við. Hvernig gat hann þá komist upp með að segja svona bull?

Byrjum á að átta okkur á því að orðið „mustarðskorn“ var í daglegu tali alþýðu manna notað í merkingunni „agnarögn“ eða „pínulítið smáræði“. „Eitt mustarðskorn“ af þessu eða hinu var bara eitthvað rosalega pínkulítið af því.

Og út frá þessu heldur hann áfram og lýsir tré sem hægt væri að líkja við himnaríki. Það er að segja, mustarðstréð sem líkist himnaríki er með svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess. Og áheyrendurnir sjá fyrir sér tré sem er mjög ólíkt þeim þyrrkingslegu runnum sem þeir þekktu. Og það fylgir sögunni að þetta kraftaverkatré spretti upp af einhverju ponsulitlu smáræði.

Viðkvæmt blóm eða harðgerð planta?

Þessi saga er í fjórða kafla Markúsarguðspjalls. Í honum eru þrjár dæmisögur dregnar af jarðyrkju. Við heyrðum þá síðustu hér áðan. Sú fyrsta er þó sennilega þekktust, en þar segir frá sáðmanni sem gekk út að sá. Sumt fræið féll í grýtta jörð og visnaði, annað átu fuglar, sumt kæfðu þyrnar og sumt féll í góðan jarðveg og skilaði margfaldri uppskeru. Sú næsta er um hveitikorn.

En síðan kýs hann að slá botninn í þessar líkingar Guðs ríkis við flóru landsins með því að segja það líkjast plöntu sem óx villt, jafnvel þar sem hennar var ekki óskað, breiddi úr sér og veitti fuglum himins … tja, alla jafna ekki hreiðurstað en yfirleitt  staðgóða næringu. Plöntu sem ekki var ræktuð sem nytjajurt, plöntu sem ekki óx í beinum, snyrtilegum röðum í frjóum jarðvegi, heldur hálfgerða lúpínu.

Nú ætla ég ekki að fullyrða að Guð ríki sé eins og lúpína, enda er sú ágæta jurt of umdeild og eldfimt umræðuefni til að það sé óhætt. Ég myndi aldrei bíta úr nálinni með að ganga svo langt. Sem er svolítið leiðinlegt því að mörgu leyti er himnaríki eins og lúpína – Það er að segja, sú lúpína sem unnendur þeirrar plöntu lýsa: Falleg og lífseig jurt sem breytir eyðisöndum í frjóan jarðveg. En Guðs ríki er ekki eins og aðflutt og ágeng jurt sem eyðileggur náttúrlegt gróðurfar og ryður burt viðkvæmum og upprunalegum gróðri – sem er sú lúpína sem lúpínuhatarar lýsa. Þar sem ég hef engar faglegar forsendur til að kveða upp úr um það hvorir hafi rétt fyrir sér ætla ég ekki að hætta mér lengra í þessa átt.

Í staðinn ætla ég að líkja Guðs ríki við hinn rammíslenska og ólseiga túnfífil, sem ég hef séð brjóta sér leið upp í gegn um malbikaða göngustíga á sama tíma og rósarunni neitar að blómstra ef sýrustigið í jarðveginum er ekki nákvæmlega rétt fyrir hann. Ég treysti mér alla vega til að fullyrða að Jesú þætti túnfífillinn mun nærtækari líking við Guðs ríki heldur en rósarunninn.

Guðsríki er nefnilega ekki rósarunni. Það er ekki viðkvæmt blóm heldur harðgerð planta sem ekki lýtur stjórn og skýtur rótum þar sem henni sýnist – án tillits til deiliskipulaga og draumsýna landslagsarkítekta og skrúðgarðyrkjufræðinga.

Það sem er ekki eins og Guðs ríki

Við getum verið þakklát fyrir þetta líkingamál, hve langsótt eða jurtafræðilega ónákvæmt sem það er, vegna þess að Jesús hefði getað líkt Guðs ríki við eitthvað allt annað.

Til dæmis pálmatré.

Og víst er að til eru þeir sem vilja sjá kristindóminn sem pálmatré. Eitthvað sem er fallegt og skrautlegt, augnayndi, en fyrst og fremst þó framandi og ókunnuglegt, og umfram allt eitthvað sem getur ekki alls dafnað meðal okkar nema verndað og innilokað í glerhólkum með sínu eigin tölvustýrða loftslagi. Til eru þeir sem vilja að kirkjan taki að sér hlutverk þessara glerhólka, verndi og vökvi kristindóminn, en passi þó aðallega fyrst og síðast að hann komist ábyggilega ekki í neina snertingu við raunveruleikann fyrir utan, því það myndir ríða honum að fullu. Og svo getum við staðið í okkar norræna og pálmatrjáalausa heimskautaloftslagi, virt fyrir okkur og dáðst að þessum pínkulitlu og vernduðu sýnishornum af hinu suðræna og seiðandi í smástund, látið okkur dreyma um hvað það væri nú yndislegt ef raunveruleiki okkar væri svona, og haldið svo áfram með okkar frosti nísta og pálmatrjáalausa líf.

En kristindómurinn er ekki pálmatré. Það þarf ekki að girða hann af, loka hann inni og vernda hann fyrir umhverfinu til að hann blómstri og dafni á einhverju afmörkuðu svæði sem tekið er frá fyrir hann og meðhöndlað sérstaklega með þarfir hans í huga. Laugarneskirkja er ekki glerhólkur með sínum eigin gerviraunveruleika utan um einhverja draumsýn sem ekki fær dafnað utan veggja hennar.

Nei, kristindómurinn er túnfífillinn sem brýtur sér leið upp úr malbikaða göngustígnum hvað sem þér kann að finnast um það. Og það er gott, því það þýðir að kristindómurinn verður á vegi þínum þarna úti. Og hann kann jafnvel að valda þér óþægindum.

Þegar kærleikurinn þvælist fyrir þér

Þegar flugvélin þín til sólarlanda getur ekki lagt af stað á réttum tíma af því að eitthvað fólk er að mótmæla því að um borð séu hælisleitendur sem verið sé að flytja úr landi í trássi við alþjóðalög til landa þar sem þeim er bráð hætta búin … þá er Guðs ríkið, þar sem náungakærleikur og samkennd ráða ríkjum, að brjóta sér leið upp úr hinu slétta malbiki hins beina og breiða vegar sem þig langaði svo mikið að renna áfallalaust eftir í sumarfríið þitt og hafa það gott. Undir þeim kringumstæðum myndirðu kannski frekar vilja að náungakærleikurinn væri pálmatré í glerhólki einhvers staðar allt annars staðar þar sem þú þarft ekki einu sinni að verða var við að hann sé til.

En hann er ekki pálmatré. Hann er túnfífill.

Þegar þig langaði að halda fína veislu með fínu fólki og fínum heiðursgesti af voðalega fínu tilefni og einhver gerist svo ófyrirleitinn að hafa orð á því að heiðursgesturinn sé í raun harðsvíraður kynþáttahatari og mannréttindabrjótur og því hvorki heiður né sómi af nærveru hans og kýs jafnvel að sniðganga partíið af þeim sökum … þá er Guðs ríkið, þar sem náungakærleikur og samkennd ráða ríkjum, að brjóta sér leið upp úr fína og snyrtilega blómabeðinu þínu þar sem skrúðgarðyrkjuskipulagið þitt gerði ráð fyrir pálmatré sem myndi sýna þér þá kurteisi að brjótast ekki út úr vernduðu gerviveröldinni í glerhólknum sínum og valda þér ónæði.

Guðs ríkið … kristindómurinn … náungakærleikurinn … vex ekki í beinum og snyrtilegum röðum þar sem þér hentar, þar sem lítið fer fyrir honum og hann setur ekkert strik í reikninginn. Hann er ekki pálmatré í glerhólki sem þú getur skoðað á sunnudögum og er ekki að þvælast fyrir þér þess á milli. Kærleikurinn lætur ekki að stjórn, hann lýtur ekki skipulagi. Hann þarf ekki verndað umhverfi.

Höfundarréttur kristindómsins

En er ég ekki að hræra öllu saman? Guðs ríki, kristindómnum og kærleikanum? Eru þetta ekki aðskilin hugtök, hvert sinnar merkingar? Tengjast þau kærleiksverk, sem ég hef nefnt hér, kirkjunni eða kristindómnum eitthvað sérstaklega?

Guð er kærleikur. Það stendur í Biblíunni. Það er því ekkert rugl að tala um Guð sem kærleika og kærleika sem Guð. Þar sem kærleikurinn er að störfum, þar er Guð að verki – óháð því hvort það sé gert í Jesú nafni eða ekki, óháð því hvort það sé gert á vegum kirkjunnar eða aðeins í nafni kærleikans. Hvar sem barist er í þágu kærleikans er fólk íklætt hertygjum ljóssins.

Því Guðs ríki er ekki bara ekki pálmatré í glerhólki.

Það er ekki heldur höfundarréttarvarið strá.

Það er túnfífill.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.


Séra Davíð Þór Jónsson

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 24. febrúar 2019

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,486