trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 14/08/2019

Hermangararnir komnir á kreik

Þeir eru farnir að kyrja sinn gamla ástaróð, hermangararnir, þann um frelsarann, verndarann, elsku vininn kæra. Hann er ekki bara að koma, hann er kominn! Og með fullar hendur fjár.


Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins (SI) skrifar í dag fagnaðarerindi í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins. Þar segir hann að atvinnuleysi “á Suðurnesjum hefur aukist verulega að undanförnu og mældist 6,3 prósent í júní síðastliðnum á sama tíma og landsmeðaltalið var 3,4 prósent. Þannig hefur atvinnuleysi í Reykjanesbæ tvöfaldast á skömmum tíma” og leggur áherslu á “gildi erlendra fjárfestinga nú þegar íslenska hagkerfið er að sigla inn í samdráttarskeið”.

Segir síðan talsmaðurinn: 

“Fyrirhugaðar framkvæmdir Bandaríkjahers og Atlantshafsbandalagsins (NATO) … munu skapa rúmlega þrjú hundruð ársstörf á svæðinu á meðan á framkvæmdum stendur og meira þegar horft er til afleiddra starfa.”

Og viðlagið; gamalt og ryðgað en hefur enn himneskan hljóm í eyrum mangaranna:

“Að verkinu munu standa meðal annars íslensk fyrirtæki í byggingum og mannvirkjagerð og munu gjaldeyristekjur þeirra, að því er segir í greiningu SI, aukast til muna við þetta en þær voru um þrír milljarðar á síðasta ára.”

Og hann svíkur ekki vinnuveitendur sína, framkvæmdastjórinn, með lokastefinu:

“Að mati Samtaka iðnaðarins eru fyrirhugaðar fjárfestingar í mannvirkjagerð á  Keflavíkurflugvelli á vegum bandaríska hersins og NATO „kærkomið mótvægi við niðursveifluna í efnahagslífinu sem nú er hafin en nýleg áfallt (svo) í ferðaþjónustu hefur meðal annars komið fram í ört vaxandi atvinnuleysi, ekki síst á Suðurnesjum.“ 

 

Þetta er ámátleg framsögn, ömurlegur hugsunarháttur. Ég skammast mín fyrir þig, framkvæmdastjóri og ykkur í samtökum iðnaðarins. En ég veit að þið látið ykkur í léttu rúmi liggja fyrirlitningu mín. En mér er slétt sama um það. Ég skammast mín fyrir að vera af sömu þjóð og þið.

Úlfar Þormóðsson
Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,386