trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 22/07/2014

Ístruflanir

Eftir Bjarka KarlssonBjarki Karlsson

Nú er afi ær, og

andskotast á Rauð

úti í nepju og nauð

að ná í sætabrauð.

Nokkrum sortum nær og

næsta víst ég tel

fer þó fráleitt vel,

frýs í hel.

Amma, barin blá,

bíður ómegð hjá,

krílin kveisur hrjá,

krummi hlær á skjá.

Heim þá fákinn fær og

frosinn bónda sinn,

fokinn farmurinn,

framliðinn.

 

Ömmu í ekkjustandi

aumrar bíður smán

döpur, leið og down

dólgar rukka lán.

Eykst nú víl og vandi,

vesen, baks og streð,

tapast gæfa og geð,

gat nú skeð.

Sýsli kú og sauð

setur, ásamt Rauð,

og öllum karlsins auð

á uppboð, kennt við nauð.

Raun og rándýr fjandi

reynist útförin

passar peninginn

presturinn.

 

Ein á Austurvelli

amma slær á pott

hreppir háð og spott

hefur auga vott.

Hás í hárri elli

hrum í prjónasokk

gröm í gapastokk

gargar: fokk!

Hokin hornkerling

hrópar inn á þing:

aum er afskræming

engin leiðrétting!

Gljúp þó gráti kelli

gerist ekki neitt,

öllu er löngu eytt;

afar leitt.

Bjarki Karlsson

(Þetta kvæði verður ásamt fjölmörgum öðrum að finna á hljómplötu, bók og hljóðbók, Helreið afa, sem væntanlegar eru í haust. Þar flytja landsþekktir tónlistarmenn lög við ljóð Bjarka.)

Flokkun : Ljóðið
1,478