Sumarlesning Herðubreiðar (VXI): Svona skal kaupa sér að lögum eina ektakvinnu
„Heyr mína bæn, herra himneskur faðir, sem lér öllum þitt ljós og lætur oss frelsast úr þeim háskasemdum, sem yfir oss hanga. Sé það þinn heilagur vilji, að ég prísi þig og lofsyngi í heilögu ektastandi, þá leið biðil að húsum foreldra minna og opinbera þeim þinn náðuga vilja, svo að þau fái séð fyrir ráði mínu og búið mér heiðarlegt brauð í réttilegum kærleika, sem þér er þóknanlegur.“
Þannig kenna kirkjufeðurnir að ógefna stúlkur eigi að biðja.
Strangur vari er þó tekinn fyrir því að bera fram yfir himnaföðurinn óskir um sérstakan mann, og ekki vottar það heldur kristilegt hugarfar að biðja biðils, sem búinn er einhverjum sérstökum eiginleikum – þaðan af síður að setja guði kosti um aldur hans eða útlit.
Hið sama gildir um synina og dæturnar: „Menn skulu sofa og hvíla sig með Adam og láta guð ráða og þakka það, sem hann gefur.“
Alla hjúskaparþanka skal uppbyrja með bænum og ákalli og allri góðri forsjá, svo að guðs leiðsagnar og blessunar njóti við.
„Foreldrar, ættmenni og vinir eru meðalgöngumenn guðs,“ og guð tjáir þeim vilja sinn með því „að innplanta þeim góðar hugsanir og ráð og stýra þeim og hjálpa til þess, að börn þeirra og skjólstæðingar fái þann rétta og þénanlega ekatmaka.“
Það er barnanna „að akta það sem æðstu skyldu sína við foreldrana“ að fara að vilja þeirra í slíku efni. Þau mega að vísu láta uppi óskir sínar við þá. „En séu þeir andvígir ósk þinni,“ segja kennifeðurnir, „þá er það frá guði, sem ekki vill gefa þér þann maka, heldur annan, sem er miklu hentugri.“
Fyrst af öllu er þess að gæta, er ráðahags er leitað, að ekki séu meinbugir á, og ber þar einkanlega að hafa í hug, að ekki mega þeir ná hjónavígslu, sem eru þremenningar að frændsemi eða þaðan af nánari að skyldleika. Við því er varað að slægjast eftir fríðum konum öðrum fremur, því að fegurð kvenna er fallvölt, og svo segir og „sá merkilegi guðs maður, doktor Martinus Lúther,“ að „góss og peninga taka menn eftir föður og móður, en góð kona er af guði.“
Eigi að síður er þess vandlega gætt, að jafnræði sé með biðli og konu þeirri, sem hann leitar eftir, jafnt að ætt og þjóðfélagsstöðu sem efnum. Það er keppikefli allra foreldra að haga svo hjúskap barna sinna, að hvorki rýrni álit ættarinnar né efni hennar gangi til þurrðar.
Aftur á móti þykir litlu varða um aldur, og þess vegna er það alsiða, að rosknir og jafnvel gamlir ekklar leiti sér ráðahags í hópi ungmeyja, enda álitlegt ungum stúlkum að setjast í gróin bú. Á sama hátt kjósa ungir menn sér iðulega rosknar ekkjur og hreppa þannig oft jarðnæði, ef guð ann þeim lengra lífs en makanum.
Enginn ráðahagur getur tekizt, nema til komi samþykki forráðamanna. Er faðir giftingarmaður dóttur sinnar, en næstur honum bróðir og þar næst skilfengin móðir. Vilji kona ganga í hjúskap í ókunnu byggðarlagi eða héraði, þar sem ekki verður náð til nákomins giftingarmanns, skal koma til ráð skynsamra bænda eða annarra þeirra manna, sem forsjá er að. Að jafnaði koma hér og til ráð prestanna, og húsbændur hafa oft hönd í bagga með hjúum sínum, ef þau hyggja á hjónaband.
Margir eru miklir forsjármenn í hjúskaparefnum. Það er ekki ótítt, að bændur ráði við sig, hvar þeir eiga að bera niður, ef þeir kunna að missa konu sína, og foreldrar sammælast um hjúskap barna sinna á meðan þau eru á ómagaaldri. Slíkt er að vísu bannað að lögum, því að ekki má gefa stúlku fyrr en hún er komin á þroskaár.
En þetta er þverbrotið, enda að litlu haft í sjálfum konungsgarði. Fyrir fáum áratugum kvæntist til dæmis Hans hertogi, sonur Friðriks II, fjórtán ára gamalli stúlku, sem þá var orðin ekkja.
Þegar gert hefur verið statt, hvað ráðahags skal leita, eru fengnir til kvonbænanna málsmetandi menn. Fáist jáyrði, sem oft er þó talsverður dráttur á meðal hinna meiri háttar manna, er samið um kvonarmund og heimanfylgju og gjafir allar. Þegar því er lokið, fara kaup fram, og er þá kallaður til prestur, sem kemur með eigi færri vitni en fimm til þess að hlýða á hjónabandsgerninginn.
Þegar presturinn hefur sannfært sig um, að til hjúskaparins sé stofnað að ráði og vilja foreldra og giftingarmanna, eru lesnir skilmálar allir og fékaup, og að því búnu leitað jáyrðis hjónaefna. Loks fara handsöl fram með þeim formála og yfirlestri, sem lög og venjur bjóða.
Viðurlög eru, ef hjúskaparheit er rofið. Sé einungis um að ræða handsalað hjúskaparheit, er sá sekur um þrjú mörk, er því riftar, eða sæti að öðrum kosti sex vandarhöggum og bæti giftingarmanni, en tvöfalt þyngri verða viðurlögin, ef kaup hafa farið fram.
Þessu næst fara lýsingar fram í sóknarkirkjunni þrjá messudaga í röð:
„Því vil ég lýsa fyrir yður, að tilgreind hjónaefni hafa ráðið með sér hjúskaparband eftir guðlegri skikkan og landsins lögum. Og ef nokkrir eru hér við staddir, sem hér vita nokkra meinbugi á, frændsemi, mægðir eður nokkra aðra tálman eður hindran, svo að þessi ráðahagur megi ekki að lögum takast, þá skyldast þeir til að segja áður festar fara fram. En þeir, sem lýsingu heyra og meinin vita og vilja ekki segja, eiga ekki seinna þar um að heyrast.“
Að lýsingum loknum geta farið fram festar, sem eru undanfari sjálfrar hjónavígslunnar. Koma hjónaefni þá oft á kirkjustaðinn á sunnudagsmorgni og ganga þar til stofu. Þar er rifjað upp, hvað fór fram á kaupdegi um félag hjónaefnanna og síðan leitað jáyrðis þeirra á ný. „Sé vel að gætt, að kvensniptin sé óneydd og hafi sinn frjálsa vilja.“
Þegar þessu hefur verið fullnægt, tekur brúðgumi í hönd brúðar og festir hana sér til löglegrar eiginkonu eftir guðs lögum og landsins og heilagra feðra setningi.
Sjálf hjónavígslan fer fram í kirkjunni og getur það gerzt samdægurs, þegar þessi háttur er á hafður. Þegar presturinn hefur sagt brúðhjónin „réttilega samtengd í ærlegum, kristilegum, löglegum hjúskap að vitni guðs og góðra manna,“ les hann ritningargreinar og áminningarorð, sem hæfa þeim í veganesi í hinu heilaga ektastandi.
Meðal þeirra guðs boða og bífalninga, sem að þessu lúta, eru þau fyrirmæli, að karlmenn skuli elska konur sínar eins og Kristur söfnuðinn.
En til konunnar eru þetta sagt, þegar hún hefur verið minnt á, að hún „er af karlmanninum komin,“ þar eð Eva var sköpuð af rifi Adams:
„Kvinnurnar veri sínum bændum undirgefnar svo sem drottni, því að maðurinn er kvinnunnar höfuð, líka svo sem Kristur er safnaðarins höfuð. […] En líka svo sem söfnuðurinn er nú Kristni undirgefinn, svo og einnig skulu konurnar sínum bændum í öllu. […] Svo sagði guð til konunnar; þegar þú verður ólétt, skaltu börn þín með sótt og harmi fæða. Og undir bónda þíns valdi skaltu vera, og hann skal þinn herra vera.“
Síðan var syndafallið rifjað upp og bölvun sú, sem guð lýsti fallna á jörðina vegna athæfis konunnar. En „í fjórðu grein er ykkur það til huggunar, að þið vitið og trúið, að ykkar stétt er guði þægileg og blessuð, því svo segir ritningin.“ Loks er Salómon tekinn til vitnis um það, að „hver sem eignast eina kvinnum hann fær góðan hlut og meðtekur þóknan af drottni.“
Það er öllum metnaðarmál að halda brúðkaupsveizlu, og liggur þar við sómi manna. Í brúðkaup mikils háttar manna er boðið þeim fyrirmönnum, sem til verður náð, er stórhöfðingjar eiga í hug, og jafnvel úr öðrum landsfjórðungum, öllum þykir virðulegt að hafa meðal boðsmanna þá, er nokkurt mannsbragð þykir að.
En allt er það háð efnum og mannvirðingum, hvað fært er í því efni. Fáum er það keppikefli að komast í brúðkaupsveizlur fátæks fólks, en aftur á móti komast færri en vilja í brúðkaupsveizlur tignarfólksins.
——
(Öldin sautjánda, minnisverð tíðindi 1601-1700. Jón Helgason tók saman. Iðunn, 1970.)
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021