Heilsa þér, Kjarval
Eftir Pál Guðmundsson frá Hjálmsstöðum
Heilsa þér, Kjarval, halir frjálsir,
hýrar meyjar kné sín beygja.
Heilsa þér fjöllin, hamrasilfur,
hlíðar, geirar, burkni, reyrinn,
merkur víðar, barr og birki,
bjóða þér skjól við hlið á fjólu.
Fossinn hátt við hellur flissar.
Heiður þinn, Kjarval, um landið breiðist.
Fast þú sóttir leiðir lista,
lagðir á brattann, horfðir ei attur,
klifaðir bjarg þótt kæmi ofan
klakahríð með stormabraki.
Hæsta tindsins ógn og undur
örvaði dug og skerpti huga.
Framur í starfi, nýtur í námi,
naust þar anda og snilli handa.
Efni hefurðu saman safnað
sólarlands úr tinda kransi,
seitt úr fjöllum hulduhallir,
hillingar og töfragylling,
manað hefurðu í þarfir þínar
það, sem fyrr gat enginn drengur,
mánakvik á bárubökum,
blossarósir norðurljósa.
Enn á landið efni í myndir:
undradali, jöklasvalir,
dvergarið og drápuhlíðar,
dyngjufjöll og hveravelli.
Málaðu allt, sem augað tælir,
ör að viti, skyggn á liti.
Svífi þitt lof yfir hauður og höfin,
háttrómaði listamaður.
Páll Guðmundsson frá Hjálmsstöðum (1873-1958)
Tilurð: Páll bauð Kjarval í heimsókn, en hann kvaðst ekki myndu koma nema sér yrði heilsað með kvæði. Kvæðið var ort, en Kjarval kom ekki og birti Páll það þá í dagblaði. Kjarval launaði með mynd af Þingvöllum.
Sonarsonur Páls, Páll Guðmundsson frá Húsafelli, hefur gert lag við kvæðið, sem verður frumflutt á Listahátíð 2014.
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021