Hamingjur mínar
Hamingjur mínar eru ekki háskólagengnar.
Þær eru erfiðiskonur þessar tvíburasystur, eins og á þeim má sjá.
Fengu ekki að ganga menntaveginn, sama hvað þær voru námfúsar.
Þær höfðu þó vit á því að gifta sig ekki. Kunnu vel að verjast vonbiðlum, stóðu saman í því, og voru svo heppnar eða forsjálar að eignast ekki börn.
Kannski voru þær við karlmann kenndar, en sögurnar um það er vissara að hafa ekki eftir.
Samkomulag þeirra systra í bárujárnshúsinu er nú orðið stirt.
Þar hjálpar ekki arfgeng minnisveikin og þrasgirnin.
Lengivel hélt ég að þær væru yngri en ég, amk fannst mér þær vera skár á sig komnar.
Ég veit ekki lengur hvað ég á að halda um aldurinn á þeim. Svo mikið víst að þær eru hættar að hafa sig til. Fara ógreiddar út í búð, og guð má vita hvort þær eru tannburstaðar.
Það eina sem ég get gert er að halda mig á gangstéttinni hinum megin og vona að þær sjái mig ekki.
Steinunn Sigurðardóttir, Að ljóði munt þú verða (Bjartur, 2018)
- Innan við múrvegginn - 15/01/2021
- Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar - 29/12/2020
- Gamall húsgangur - 24/12/2020