trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/02/2019

Halldór G. Björnsson: Góðmenni hert á áratugum gamaldags stéttabaráttu

Þráinn Hallgrímsson skrifar

Halldór G. Björnsson var borinn til grafar í vikunni. Hann var mikill vinur okkar og samstarfsmaður um margra ára skeið.

Halldór Björnsson var alvarlegur í bragði þegar hann leit við á skrifstofu Mímis snemma árs 1996. Framundan var sameining almennu verkalýðsfélaganna í Reykjavík. Hann vantaði mann sem gæti haldið utan um þetta stóra verkefni með stjórn Dagsbrúnar. Fáum vikum síðar var ég orðinn skrifstofustjóri félagsins. Sameiningin var flókið og erfitt verkefni því samhliða vorum við í nær samfelldri samningagerð næstu árin. Á sama tíma fór fram mikil uppbygging í félaginu auk þess sem byggja þurfti upp skrifstofuhúsnæði og félagsaðstöðu sem gert var fyrst í Skipholti og síðar í Sætúni.

Um fjórum árum síðar var sameiningu eldri félaganna lokið en Boðinn sameinaðist Eflingu síðar. Halldór hafði áður unnið að sameiningu lífeyrissjóðanna sem nú heitir Gildi lífeyrissjóður. Hann var afreksmaður í félagsmálum ASÍ á síðustu öld. Sú umbylting var gríðarlegur ávinningur fyrir allt verkafólk á höfuðborgarsvæðinu.

Það var mikið gæfuspor að fá að vinna með Halldóri. Hann var hertur á áratugum gamaldags kjarabaráttu, þar sem krónurnar skiptu meira máli en kaupmáttur, þar sem slagurinn varð oft meira áberandi en árangurinn. Hann lærði það af verðbólguárunum að allt var unnið fyrir gýg ef ekki tókst að vernda árangurinn með raunverulegum kaupmætti. Þess vegna fékk hann til liðs við sig öfluga stjórnarmenn og trausta starfsmenn en miklu skipti að undirstaða allra kjarasamninga væri fagleg vinna sérfræðinga, auk samningamanna sem nutu trausts á vinnustöðunum.

Fáum mönnum hef ég kynnst sem hafa farið jafnvel með forystuhlutverk. Hann gerði sér vel grein fyrir þeirri miklu ábyrgð sem hvíldi á leiðtoga Eflingar. Þótt hann væri formaður annars stærsta stéttarfélags landsins, neytti hann aldrei aflsmunar eða lét þvinganir stýra gerðum sínum. Hann hótaði ekki átökum eða verkföllum, heldur voru þau þrautalending þegar allt annað hafði verið reynt. Aðeins einu sinni sá ég hann skipta skapi en það var í hörðum deilum í samningagerð á fyrsta árinu okkar saman.

En hver var lykillinn að velgengni Halldórs? Þar skipti mestu að hann kom vel fram við alla, hvort sem það voru samverkamenn hans eða mótherjar. Sýndi öllum virðingu. Hann var ljúfmenni, alls staðar vinsæll, létt lund hans og umburðarlyndi, glaðværð og góð framkoma smitaði út frá sér og gerði allt andrúmsloft á vinnustaðnum og í samningum auðveldara.

Hann var líka hrókur alls fagnaðar utan vinnunnar. Hann átti það til eftir þrúgandi vinnutörn að bjóða upp á ferð í ísbúðina eða í bíó. Svo var hann einstaklega góður ferðafélagi.

Þegar ég hugsa til baka á ég bara góðar minningar um Halldór Björnsson. Við litum á hann sem góðan fjölskylduvin. Hann var okkur líka góð fyrirmynd. Þegar hann kvaddi Eflingu skildi hann eftir handa mér nokkurra ára gamlan farsíma og afar fallegt en nett skóhorn úr skínandi stáli. Símann hans notaði ég í mörg ár en minnist hans í hvert sinn sem ég lít skóhornið. Halldór mun eiga sinn stað í minningu okkar. Þeirri minningu fylgir sálarfriður.

Þráinn og Kara

1,342