trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 03/11/2016

Hafði eg ekki annað á fótunum en vasaklútana mína og bolina af öðrum sokknum og götótta skóna

Kristinn Jónsson, bóndi á Tjörnum í Eyjafirði, lenti í miklum hrakningum í lok september 1898. Veturinn eftir skrifaði hann bróður sínum bréf þar sem hann lýsir þessari hrakningaför.hrakningar-a-heidarvegum


Rauðará við Reykjavík, 22. febr. 1899.

Elsku bróðir!

Hjartans þakklæti fyrir bréfið þitt og alla þá miklu bróðurást, er þú sýndir mér með því að gera það, sem þú gazt, til þess að leita að mér í haust, eiga þessar línur að færa þér, um leið og eg óska, að þér líði ævinlega vel.

Þú biður mig að skrifa þér nákvæmlega um allt það ferðalag mitt, og hef eg hugsað mér að gera það, eftir því sem eg get, með því að þú ert sá eini, sem skrifar mér nákvæmlega um leitirnar eftir mér.

Það er þá fyrst að segja þér, þegar eg skildi við Karles, þá gekk eg suðaustur úr Svínárdraginu nokkuð langt austur og svo beint suður og nokkuð fram og þá var komin hellirigning og dimmviðri, en alveg logn, og þá beygði eg og hélt í vestur nokkra stund. Svo beygði eg við og þóttist fara í norður, en þú segir, að þá hafi eg tekið öfuga stefnu. Svoleiðis hélt eg æði lengi, þar til mig fór að gruna, að eg færi ekki rétt, en vegna þess að alveg var logn, þá gat eg ómögulega vitað, hvert eg hélt. Þó hélt eg áfram og fór nú heldur að greikka sporið og þóttist alltaf fara í norður, þar til eg vissi, að eg hlaut að vera orðinn alveg rammvilltur, og þá reyndi eg til að fá hundinn til þess að fara á undan mér, því að eg vissi mörg dæmi til þess, að hundar eru góðir að rata, en eg fékk hann ómögulega til þess. Hann fór aðeins fáa faðma á undan mér fyrst og lagðist svo niður og vildi ekkert fara frá mér, og hélt eg þá bara áfram án þess að vita, hvert eg fór, og get eg hugsað, að eg hafi þá farið eitthvað krókótt. Nú fór fljótt að dimma af nótt, og var eg þá á rennsléttum söndum. Ekki leizt mér að setjast að, því að bæði var eg holdvotur af regninu og mjög heitur af ganginum og hélt því áfram. Um miðja nótt kom eg að á og áleit, að hún mundi sjálfsagt renna í norður, og hélt því tafarlaust meðfram henni og hafði hana á vinstri hönd, en seint um nóttina kom eg að annarri á, og var eg kominn þar í odda á milli þeirra, og óð eg þá yfir þá, sem eg hafði á hægri hönd, og gekk það vel. Síðan hélt eg áfram alla nóttina og næsta dag fram á nótt og óð þá margar smáár. Þá er eg ætlaði að leggja mig fyrir, tók eg eftir því, að hundurinn var ekki með mér, og þótti mér það mjög slæmt. Hann hafði alltaf um daginn verið dálítið á eftir mér og bar sig mjög aumingjalega, og datt mér í hug, að hann hefði bara sezt að við einhverja kvíslina, og því sneri eg við að þeirri næstu og kallaði, það sem eg gat, en það kom fyrir ekki, svo að eg hætti því og lagði mig fyrir. Ekki varð mér svefnsamt, það sem eftir var af nóttunni, því að kuldi var mikill, en eg rennvotur upp að mitti. Á fimmtudaginn hélt eg aftur af stað. Þá um daginn gjörði kuldastorm á eftir mér og birti töluvert og sá til sólar. Þá hafði eg ána á vinstri hönd, en jökul á hægri hönd, og eftir sólinni sá eg, að eg fór í suður, en samt leizt mér ráðlegast að halda með ánni, á meðan eg gæti, og það gjörði eg. Svo hélt eg svona alltaf áfram á föstudaginn og laugardaginn og óð þá nokkrar ár, enga dýpri en í mitti. Á nóttunni lá eg og svaf dálítið. Það undarlegasta var, að eg tók aldrei neitt út af hungri, og aldrei fann eg til þreytu öðruvísi en að það smádró af kröftunum og mig fór að sækja svefn, og aldrei var eg neitt hræddur eða órólegur. Eg hugsaði mér bara að halda áfram, á meðan eg mögulega gæti, og setjast svo að þar, sem eg væri kominn, ef eg yrði þá ekki búinn að ná mannabyggðum.

Á laugardagskvöld kom eg að kofa, og þar fór eg inn og lá þar um nóttina, en þá var svo mikið frost, að stokkfrusu skór á fótunum og sokkar, og gat eg þá lítið gengið eftir þá nótt. Þó hélt eg af stað úr kofanum, af því að þá var bezta veður. Komst eg æðilangan veg um daginn. Næstu nótt var eg alla um kyrrt, en á mánudag var eg mjög máttfarinn, og þá var eg ráðalaus að verja mig fyrir svefni, og var dagleiðin heldur stutt. Um kvöldið kom eg að miklum skógi og settist þar að. Þá hafði eg ekki annað á fótunum en vasaklútana mína og bolina af öðrum sokknum og götótta skóna. Þarna svaf eg til morguns í einum dúr, en um morguninn var bezta veður, og ætlaði eg mér að halda áfram, en þá voru fæturnir svo aumir og mátturinn svo lítill, að eg gat ekki staðið nema að styðja mig við hríslurnar, og varð eg því að leggja mig fyrir aftur, og það segi eg þér satt, góði bróðir, að oft hafði eg lagzt til svefns órólegri heldur en í þetta skipti, því að eg vonaði, að eg fengi nú að sofna hinum sætasta og síðasta blundi, og oft hef eg óskað þess síðan, að eg hefði mátt hvíla þar lengur, en eftir litla stund vaknaði eg aftur og skreið á fætur, og þá sá eg fjóra hesta skammt frá mér og mann rétt hjá mér. Hann kom strax til mín og sagði mér, hvar eg væri og flutti mig svo til næsta bæjar, og vorum við 3 klukkutíma á leiðinni.

Nú held eg það sé orðið mál að segja þér, hvernig mér líður nú. Það er þá fyrst að segja þér, að eg er orðinn nokkuð góður í fótunum, farinn að ganga um allt, og lítil sárindi í þeim. Samt er eg aldrei vel frískur, alltaf slæmur fyrir brjóstinu og hef ekki góða matarlyst. Helzt hef eg lyst á mjólk, og er dýrt að lifa á henni í Reykjavík, ef maður þarf að kaupa hana sérstaklega, en það kemur nú ekki til, á meðan eg er hér.

Á sjúkrahúsinu lá eg 13 vikur, og kostar það æðimikið, og svo meðul og læknishjálp og allt og allt, enda er það líka mikið, sem búið er að gefa mér hér, og það vona eg, að eg hafi dálítinn afgang, en hvað mikinn veit eg ekki ennþá, og þess vegna get eg ekkert sagt þér, hvort eg sezt að hér eða ekki. Eg er mjög hræddur um, að það verði aldrei svo mikið, að eg geti komizt áfram með að læra hér handverk, því að það kostar mikið. Fyrst þarf maður að ráða sig svo langan tíma, 3–5 ár, og gefa með sér fyrri árin og leggja sér töluvert til allan tímann, og svo er það ekki hugsanlegt, nema ef eg fæ bærilega heilsu aftur, sem eg vona að verði. Vilhjálmur frá Kaupangi býr hér, og er eg hjá honum, síðan eg fór af sjúkrahúsinu. Þau hjón og systkinin biðja að heilsa ykkur.

Nú bið eg þig að skila kærri kveðju í Gerði, og segðu þeim, að eg biðji þau að fyrirgefa, að eg skrifa þeim ekki nú, og láttu þau vita, hvernig mér líður. Bezt að þú skrifaðir þeim línu, ef þú getur ekki fundið þau sjálfur. Líka bið eg mjög vel að heilsa Steingrími bróður og hans fólki. Eg þakka honum hjartanlega fyrir tilskrifið, og segðu honum, að eg skuli skrifa honum með næsta pósti. Einnig bið eg þig skila kveðju til Guðrúnar þinnar og litlu stúlkunnar og yfir höfuð til allra góðra kunningja. Skilaðu til pabba, að eg biðji hann láta mig vita, hver hefir beðið um Gránu mína, og segðu honum, að eg biðji hann að lofa henni ekki fyrst, því að það liggur ekkert á því. Svo er nú víst komið nóg af svo góðu, því að eg býst við, að þú getir ekki lesið helminginn af því, og um fram allt bið eg þig að láta engan sjá bréfið.

Að endingu bið eg góðan Guð að annast þig um tíma og eilífð.

Það mælir þinn bróðir,

Kristinn Jónsson

(Hrakningar á heiðavegum, úrval frásagna Pálma Hannessonar og Jóns Eyþórssonar. Veröld, 2016.)

1,346