trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 04/05/2014

Hæstiréttur neitar að taka fyrir mál Birgittu, Chomskys og fleiri gegn Obama. „Vonbrigði,“ segir hún

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur neitað að taka fyrir mál sem Birgitta Jónsdóttir og sex aðrir einstaklingar höfðuðu gegn Barack Obama forseta og fleiri embættismönnum í Bandaríkjastjórn.Birgitta og Obama

Málið snýst um þann hluta þjóðvarnarlaga Bandaríkjanna (National Defense Authorization Act) sem heimilar Bandaríkjaher að handtaka fólk og fangelsa ótímabundið án þess að ákæra sé gefin út eða réttarhöld fari fram.

Þetta er heimilt að gera við þá sem sýna stuðning eða eiga samneyti við „hryðjuverkamenn“ og aðra þá sem teljast hættulegir öryggi ríkisins. Sjömenningarnir telja skilgreiningar í lögunum svo víðtækar og óljósar að þær standist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna, hvorki um tjáningar- og samskiptafrelsi né réttláta málsmeðferð, og telja almenningi standa ógn af þessum lögum.

Þau höfðuðu mál árið 2012 og á fyrsta dómstigi úrskurðaði dómari þeim í hag – setti lögbann við því að þessum ákvæðum laganna yrði framfylgt enda brytu þau í bága við fleiri en eina grein stjórnarskrárinnar (sjá úrskurðinn hér).

Áfrýjunardómstóll sneri þessar niðurstöðu við með þeim rökum að sjömenningarnir hefðu ekki sýnt fram á aðild sína eða að þeim stæði í raun ógn af þessum lagabókstaf (sjá úrskurðinn hér). Tiltekið var að sérstaklega ætti þetta við um Birgittu og aðgerðasinnann Kai Wargalla, sem hvorug er bandarískur ríkisborgari.

Málinu var enn áfrýjað og nú til hæstaréttar Bandaríkjanna. Hann tilkynnti sl. mánudag að hann hygðist ekki taka málið til meðferðar og því stendur niðurstaða áfrýjunardómstólsins óbreytt. Hæstiréttur rökstuddi ekki ákvörðun sína (hér).

„Það eru mér að sjálfsögðu vonbrigði að ekki hafi tekst að fá málið tekið fyrir í hæstarétti, sér í lagi ef horft er til þess að fyrsti dómsúrskurður var okkur í vil,“ sagði Birgitta í samtali við Herðubreið. „Dropinn holar þó steininn og þessar aðgerðir hafa orðið til þess að senda til baka viðbótina [ofangreind ákvæði, innsk. Herðubreiðar] sem við sóttum að yrði felld út í nokkrum fylkjum. Við vonum að tilraunir til að vekja fólk til meðvitundar um eðli heimildarinnar til Bandaríkjahers sem viðbótin veitir verði til þess að málið verði tekið upp á æðsta stigi lagasetningar í Bandaríkjunum.

Það mun sennilega ekki gerast á meðan Obama er við völd en hann beitti sér sérstaklega fyrir því að hnekkja fyrsta dómnum sem innihélt lögbann á viðbótina. Þau okkar sem höfum barist gegn því að Bandaríkjaher fái svo ríkar heimildir til að láta fólk hverfa munum án efa halda þessari baráttu áfam.“

Auk Birgittu og Wargalla höfðuðu málið Christopher Hedges, Daniel Ellsberg, Jennifer Bolen, Noam Chomsky og Alexa O´Brien.

Flokkun : Efst á baugi
1,625