trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 19/04/2017

Guðmundur Andri Thorsson: Olræt – minningarorð um SAM

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Sigurður A. Magnússon verður borinn til grafar í dag. Ég man hann fyrst í foreldrahúsum þegar hann og Svanhildur, þáverandi kona hans, voru þar stundum í boðum. Það kom fyrir að maður vaknaði við gríska tóna – Teodorakis og hans fjörugu sorgarlög – angan samsett úr reykingum, ilmvatni og kamparíi, og röddin hans SAM drundi gegnum skvaldrið … olræt … Á þeim árum var hann hættur á Mogganum og hafði tekið stökkið yfir ginnungagapið sem skildi að hægri- og vinstrimennsku, var enn svífandi í loftinu yfir því – á leiðinni. Hann ritstýrði Samvinnunni, og gerði úr henni flott og nútímalegt tímarit, þar sem helstu álitamál samtímans voru krufin og rædd fram og aftur, stundum í hringborðsumræðum undir stjórn ritstjórans, þar sem ólík sjónarmið voru viðruð í einu, sem er enn nánast óþekkt hér á landi. Olræt. Svo kom þessi makalausa bók, Undir kalstjörnu, skáldsaga í anda Fjallkirkjunnar, um æsku og erfiðan uppvöxt, Pólana, fátæktina í Reykjavík og myrkar minningar sem hann rýndi inn í af einurð og þori, og eftir fylgdu margar skáldsögur sem maður gleypti í sig.Sigurður A. Magnússon 2

Ég kynntist honum gegnum störfin á Mál og menningu; maður fór stundum til hans á Barónsstíg með disk og setti í tölvuna hans, eða sótti disk í tölvuna. Hann var lítill tölvumaður en þeim mun meiri veisluljómi; alltaf í öllum boðum og veislum, með klútinn um hálsinn, brosið í augunum og andlitinu öllu og sígarettuna í munnstykkinu alveg að fara að hætta þessum fjára, beinn í baki og léttur á sér, og drakk bara vodka í kók með matnum því að léttvín fór svo illa í hann; áhugasamur, skoðanaríkur, ástríðufullur, og ákefðin slík að kannski bara þriðja hver setning náði að brjótast fram í honum,hausinn fullur af hugmyndum og orðum.

Olræt. Ekki er þar með sagt að líf SAM hafi bara verið eitt allsherjar partí þó að minningar manns tengist óhjákvæmilega slíku: hann var vinnuþjarkur og helgaði líf sitt bókmenntum í víðasta skilningi. Han var skáld, orti ljóð og skrifaði þessa merkilegu skáldsögu sem í ferlinu breyttist smám saman í hefðbundna ævisögu. Hann var afkastamikill og ágætur greinahöfundur – og afburða þýðandi: Ég átti því láni að fagna að fá að sitja með Halldóri Guðmundssyni og bera saman við frumtexta þýðingu SAM á Ulysses, sem voru einhverjar dýrlegustu stundir sem maður minnist frá þeim góðu árum á MM. Þá sá maður þá orðkynngi og hugkvæmni sem þessi maður bjó yfir.

Sigurður A. Magnússon gegndi mikilvægu hlutverki í íslenskri menningu á síðustu öld, hann opnaði og tengdi, hreifst og hreif, reif og reifst. Hann var baráttuglaður. Hann stóð alltaf og undantekingarlaus með réttlætinu, með fólki, með tjáningarfrelsi og hafði næstum líkamlegt óþol gagnvart kúgun, valdbeitingu, hernaðarhyggju og rangsleitni. Hann var geðríkur maður og miðlaði af örlæti af því ríkidæmi. Blessuð sé minning hans.

1,683