trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/10/2015

Guð blessi Ísland

Eftir Eirík GuðmundssonEiríkur Guðmundsson

Góðir landsmenn, verkefni stjórnvalda á næstu dögum er skýrt, að koma í veg fyrir að upplausnarástand skapist, ef íslensku bankarnir verða óstarfhæfir að einhverju leyti, til þess hafa stjórnvöld margvísleg úrræði og þeim verður beitt, á hinum pólitíska vettvangi jafnt sem annars staðar er mikilvægt að slíðra sverðin við þessar aðstæður, miklu skiptir að við sýnum bæði stillingu og yfirvegun þá erfiðu daga sem nú fara í hönd, látum ekki hugfallast og styðjum hvert annað með ráðum og dáð. Á þann hátt með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur. Guð blessi Ísland.

Ágætu hlustendur, guð blessi Ísland, það eru víst sjö ár í dag síðan þau orð féllu, síðdegis þann 6. október árið 2008. Ég man það eins og það hafi gerst í gær, og þó, nei ég var eiginlega alveg búinn að gleyma þessu, ,,ó miskunnarlausi tími.“ Eitthvað hafði gerst, eitthvað var að gerast, maður skildi ekki helminginn af því, svo birtist Geir á skjánum, og maður vissi að þetta var allt farið til fjandans, að ekki yrði aftur snúið, menn voru farnir að gera það sem þeir gera þegar allt er komið til andskotans, snúa sér til æðri máttarvalda, guð var ekki dauður. Íslendingar breyttust úr bankaræningjum í beiningamenn á einum sólarhring, guð blessi Ísland. Það var ekki fyrr en guð var nefndur til sögunnar sem menn áttuðu sig á því að þetta var búið. Dagarnir á undan voru þrungnir spennu, það var þytur í lofti, kvisað var um fall banka, skjálfandi jakkaföt, kófsveitta bindishnúta, menn pískruðu um þetta sín á milli, laumulegir í framan, paufuðust um göturnar með spádóma á vörum, einhverja grunaði eitthvað, aðrir voru búnir undir það versta, á meðan hlupu grallararnir í felur. Svo birtist Geir á sjónvarpsskjánum þann 6. október árið 2008, beintengdur við æðri máttarvöld, hann var kindarlegur í fyrstu, leit til hliðar, og brosti út í blámann, eða sortann eða á næsta tökumann, svo slæmt var ástandið orðið að við þurftum að leita alla leið til guðs, biðja guð að blessa okkur, það var gert, en hafði ekki gerst lengi.

Sjö ár, úff, þau hafa liðið líkt og í móðu. Þetta hafa verið okkar verstu ár. Þetta hafa verið okkar bestu ár. Maður var bara búinn að gleyma þessu, farinn að horfa á hagvísana, sem allir vitna um aukinn hagvöxt, vísitölur og verðbólguvæntingar með þeim hætti að maður er kominn í þetta líka þrusustuð, farinn að íhuga að færa út kvíarnar, herja á túrista, stofna rútufyrirtæki, flytja út norðurljós, komast yfir skurðstofu. Svo, guð hefur þá blessað okkur eftir allt saman, Geir með sína Biblíugreiðslu var bænheyrður, og nú, þegar allt er komið á full, húrrandi sving, getur þjóðin loksins slíðrað sverðin, og þakkað þeim báðum, Geir og guði.

Nú, eða hvað?

Ég veit ekkert hvort guð hefur blessað Ísland, eða ekki. Það hrundu bankar í öðrum löndum og kannski hefur guð þurft að hjálpa þeim líka, kannski var Geir eftir allt saman að ávarpa sjálfan bankaguðinn, þann sem aldrei sefur og aldrei slekkur á sjónvarpinu og hjálpar bönkum þegar þeir eiga reglulega erfitt, sumsé guðinn sem hjálpar bönkum en ekki fólki. Ég veit það ekki. Geir talaði um efnahagslegar hamfarir, ríkisstjórnir sem réru lífróður víða um heim til að bjarga því sem bjargað yrði; og hann talaði um að á árunum fyrir hrun, hefðu vöxtur og velgengni íslensku bankanna verið ævintýri líkust. Ævintýrinu var lokið, en það var líka rétt að byrja, guð var kominn inn í miðja frásögn, en í hvaða ævintýri vorum við stödd, og í hvaða ævintýri erum við nú stödd? Söguhetjan gefst upp, rýnir út í blámann eða sortann eða á næsta tökumann, játar sig sigraða, og ávarpar guð. Vorum við stödd í Þúsund og einni nótt, eða einhverju eftir H. C. Andersen, nú eða var hér einhver séríslensk þjóðsaga á ferð? Skuldbindingar bankanna nema margfaldri þjóðarframleiðslu Íslands, sagði Geir kindarlegur í ávarpinu árið 2008, þannig var staðan, en lítið var og er enn um afsökunarbeiðnir, þær komu hvorki frá honum né öðrum forkólfum, og söguhetjum í því stórkostlega ævintýri sem þjóðin upplifði á árunum fyrir hrun, þær afsökunarbeiðnir hafa raunar varla komið enn. Menn bentu bara til himins, og báðu guð að blessa Ísland, eins og guð væri gamall Sjálfstæðismaður á fokkings feitum eftirlaunum sem myndi koma og bjarga því sem bjargað yrði þegar menn voru búnir að fara með allt til helvítis og höfðu haft til þess drjúga stund, hann myndi blessa okkur, ef menn bæðu bara nógu heitt.

Þrjú orð, síðan eru liðin sjö ár, sjö mögur ár? Og þá væntanlega sjö feit framundan? Sjö spikfeit ár, sem verða til þess að við gleymum öllu, gleymum bönkunum, og bullinu, gleymum ævintýrinu sem Geir kallaði svo, því við verðum svo önnum kafin við að lifa nýtt ævintýri, splúnkunýtt ævintýri sem verður enn betra en það gamla, og því mun ljúka með því að einhver Sjálfstæðismaðurinn birtist á skjánum og biður guð að blessa Ísland, aftur. Svo gerum við hann að sendiherra.

Geir Haarde talaði um ævintýri, og hvar eru söguhetjurnar í því ævintýri niður komnar? Sumir bakvið lás og slá, sumir orðnir ritstjórar, aðrir sendiherrar, gamli flokkurinn still going strong, eins og ekkert hafi í skorist, guð blessi Ísland, flokkurinn stjórnar landinu sem aldrei fyrr, opinberlega, en ekki síður bakvið tjöldin. Eitthvað er fylgið þó á fallandi fæti, enda kýs enginn gömlu flokkana, og allra síst Sjálfstæðisflokkinn, undir sextugu, flokksbundnir Sjálfstæðismenn sem kunnugt er flestir komnir undir græna torfu, og helst að vænta nákvæms yfirlit yfir þá hjá kirkjugörðum Reykjavíkur og í bókaflokknum Merkir Íslendingar sem hóf göngu sína árið 1947, en var endurvakin á árunum árunum 1962-67. ,,Í bókunum eru æviágrip fjölda íslendinga sem voru uppi á síðustu öldum, þar má sjá myndir af nokkrum þeirra, sýnishorn af rithönd og í sumum tilfellum er gerð grein fyrir börnum viðkomandi,“ eins og þar segir. Mikill fróðleikur er þarna saman kominn um alla okkar helstu menn, en þeir eru nú varla kjörgengir lengur, geta varla burstað í sér tennurnar hvað þá meir, og alls ekki beðið guð að blessa okkur því þeir eru dauðir.

En hvar erum við nú, ágætu hlustendur, Where are we now? Tja, skilanefndirnar eru að minnsta kosti í prýðilegum málum, Ásdís Halla, Finnur, og Guðfinna, en ég veit ekki með okkur hin. Einkavæðingarfólk, ráðgjafar og skilanefndarmenn eru í hörkustuði, en ég veit ekki með okkur hin. Hver, ef ég æpti, heyrði þá hróp mitt úr röðum engla? spurði Rilke, guð blessi Íslands, sagði Geir. Heyrði guð í Geir, eða var hann upptekinn við að bjarga bönkum í öðrum löndum? Og ef guð heyrði orðin sem féllu í sjónvarpinu þann 6. október fyrir nákvæmlega sjö árum, og féllst á að blessa okkur, í hverju var blessun hans þá fólgin? Ég veit það ekki. Ég held að guð hafi ekki heyrt í Geir. Ég held hann hafi ekki verið með kveikt á flatskjánum sínum síðdegis þann 6. október árið 2008. Ég held hann hafi verið í golfi eða rúntandi um Vetrarbrautina á splúnkunýja Range Roverninum sínum. Þannig held ég að þetta hafi verið. Jósef dreymdi sjö feitar og sjö magrar kýr, menn sáu það auðvitað í hendi sér að draumurinn boðaði sjö mögur ár og sjö feit ár. Hvað dreymir Jósef nú? Þetta er sveiflan; sjö ár feit, sjö ár mögur, og svo aftur sjö ár feit, förum á flug, fljúgum hærra en nokkru sinni fyrr, tökum svo skellinn og slíðrum sverðin, síðan skulum biðja guð að blessa okkur, aftur. Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur. Um eitt getum við allavega verið sammála, sjö árum eftir hrun, þetta átti bara alls ekki að gerast!

Guð blessi Ísland.

Eiríkur Guðmundsson, Víðsjá, 6. október 2015

1,320