trusted online casino malaysia
Davíð Þór Jónsson 16/10/2017

Gróðafíknin og Guðsríkið

Guðspjall: Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: „Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf?“ Jesús sagði við hann: „Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn. Þú kannt boðorðin: Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, þú skalt ekki pretta, heiðra föður þinn og móður.“ Hinn svaraði honum: „Meistari, alls þessa hef ég gætt frá æsku.“ Jesús horfði á hann með ástúð og sagði við hann: „Eins er þér vant. Far þú, sel allt sem þú átt og gef fátækum og munt þú fjársjóð eiga á himni. Kom síðan og fylg mér.“ En hann varð dapur í bragði við þessi orð og fór burt hryggur enda átti hann miklar eignir. Þá leit Jesús í kring og sagði við lærisveina sína: „Hve torvelt verður þeim sem auðinn hafa að ganga inn í Guðs ríki.“ Lærisveinunum brá mjög við orð Jesú en hann sagði aftur við þá: „Börn, hve torvelt er að komast inn í Guðs ríki. Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki.“ En þeir urðu steini lostnir og sögðu sín á milli: „Hver getur þá orðið hólpinn?“ Jesús horfði á þá og sagði: „Menn hafa engin ráð til þessa en Guði er ekkert um megn.“ (Mrk 10.17-27)

Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í viðtalsbók Matthíasar Johannessen við Þórberg Þórðarson, Í kompaníi við allífið, segir meistari Þórbergur þessi merkilegu orð:

„Ég hef aldrei skilið hvað menn geta lagt mikið á sig af heimskulegu erfiði til þess að ávinna sér veraldarupphefðir sem þeim virðist ekki vera nein lífsnauðsyn að ná. […] (Þá fer) að langa eftir að safna auðæfum. Og þeir halda áfram að safna og safna og aldrei hafa þeir safnað svo miklu að þeim finnist þeir hafa efni á að segja: Nú er ég búinn að fá nóg. Þetta er eins og helgar bækur lýsa þorstanum í Helvíti.“

Þetta eru ansi mögnuð orð. Sérstaklega í ljósi þess að það er ekki ýkja langt síðan íslenskur athafnamaður, sem auðgast hafði mjög, var spurður í viðtali hvað væri nóg – og hann skildi ekki spurninguna. Orðið „nóg“ var ekki til fyrir honum. Það var ekkert til sem hét „nóg“. Og á honum mátti skilja að það væri lykillinn að velgengninni – að geta ekki fengið nóg.

Gróðafíkn

Það er til orð sem lýsir þeim ágalla … því andlega meini … að geta ekki fengið nóg af því sem veitir manni vellíðan, hvort sem það er venjulegt fíkniefni eða annað sem veitir sæluvímu, svo sem matur, fjárhættuspil eða upphefðin, virðingin og samfélagsstaðan sem því fylgir að vera vellauðugur.

Orðið er „fíkn“.

Þetta orð er allt of oft notað af ábyrgðarleysi og léttuð. Fólk segist jafnvel í gamni vera haldið fíkn í eitt og annað sem því finnst gott og gengisfellir þannig hugtakið – sjúkdóm sem eyðileggur líf og heilsu milljóna manna um heim allan. Fíkn er alltaf eyðileggjandi afl. Fíknin heltekur fíkilinn svo allt annað situr á hakanum. Hún leggur líf hans og ástvina hans undir sig og er svakalegt samfélagsmein.

Það gerir engan að súrefnisfíkli að geta ekki án súrefnis verið. Það gerir engan að súkkulaðifíkli að finnast gott að fá sér konfektmola. Þegar önnur næring er sniðgengin og fíkillinn á birgðir af súkkulaði á leyndum stöðum, þá er ástandið orðið sjúkt.

Þórbergur segir þetta vera eins og helgar bækur lýsi þorstanum í Helvíti. Ég vil leyfa mér að taka dýpra í árinni: Þetta er helvíti.

Eilífðin er núna

Guðs ríki er nefnilega ekki einhver verðlaun sem bíða okkar á himnum að jarðlífinu loknu ef við erum nógu þæg og hlýðin hérna megin grafarinnar og því ömurlegri sem jarðnesk tilvera okkar er, þeim mun meiri verði lúxusinn í himnaríki að henni yfirstaðinni. Guðs ríki er vissulega í eilífðinni. En okkur má ekki yfirsjást að eilífðin er hér og nú. Ef eilífiðin er allur tími er núið hluti hennar, annars væri gloppa í eilífðinni og hún ekki eilíf. Þegar við segjum „þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu“ í Faðirvorinu erum við því að segja „þitt er ríkið mátturinn og dýrðin hér og nú.“

En hvernig er þetta Guðs ríki?

Jesú er tíðrætt um Guðsríkið. Það er mun vinsælla umræðuefni hjá honum en andstæða þess: Helvíti.

„Guðs ríki er hið innra með yður,“ segir Jesús (Lúk 17.21). Þessa setningu er snúið að þýða á íslensku, enda væri jafn rétt að þýða hana „Guðs ríki er mitt á meðal ykkar,“ eins og stundum er gert. Hvort er rétt? Af hverju er þetta orðað svona óljóst; þannig að bæði megi skilja setninguna þannig að Guðs ríki sé eitthvað ástand í hjartanu á okkur og þannig að það sé eitthvað ástand í samfélagi okkar?

Sennilega af því að hann átti við hvort tveggja. Sennilega af því að annað getur ekki án hins verið, annað leiðir óhjákvæmilega af hinu og um leið til hins.

Ætli þekktustu orð Jesú um Guðs ríkið séu þó ekki í Faðirvorinu, svo aftur sé vitnað í það: „Til komi þitt ríki.“ Hvað á hann við? Þegar Jesús segir eitthvað sem erfitt er að skilja er ágætt ráð að lesa áfram. Oftar en ekki útskýrir hann það í næstu setningu á eftir. Og næsta setning á eftir er: „Verði þinn vilji.“ Guðs ríki er þannig Guðs vilji og Guðs vilji er að við elskum náunga okkar eins og okkur sjálf. Ekkert annað boðorð er því æðra. (Lúk 10.27 // Matt 22.37-39, Mark 12.30-31) Guðsríkið er kærleikssamfélagið mitt á meðal okkar hér og nú … ef við viljum.

Og inn í þetta Guðs ríki komast auðmenn ekki frekar en úlfaldi í gegnum nálarauga, segir Jesús við okkur í guðspjalli dagsins.

Súrrealískt myndmál

Ýmsar kenningar hafa verið settar fram um þetta furðulega, nánast súrrealíska myndmál. Bent hefur verið á að í nýrri handritum stendur ekki gríska orðið „kamilos“ sem merkir úlfaldi heldur „kamelos“ sem merkir reipi. Og á aremeísku, móðurmáli Jesú, merkir orðið „gamla“ bæði „reipi“ og „úlfaldi“, sennilega vegna þess að reipi voru alla jafna úr úfaldahári. Jesús gæti því hafa verið að tala um að þræða nál með kaðli – sem er ekki alveg eins langsótt.

En hvort það var reipi eða úlfaldi skiptir ekki öllu máli. Hvort tveggja er jafnómögulegt. Hvorugu kemur maður í gegnum nálarauga.

Hvað þýðir þetta? Er Guðs ríki þá alræði öreiganna þar sem allar veraldlegar eignir kalla yfir mann útskúfun? Þar sem hverjum þeim, sem leyfir sér að hafa eitthvað meira umleikis en brýnustu lífsnauðsyn ber til, er samstundis varpað út í ystu myrkur þar sem er grátur og gnístran tanna?

Það er að mínum dómi fullharkaleg túlkun þessara orða. Takið eftir því að lesturinn endar á orðunum „Guði er ekkert um megn.“ Hann getur því þrætt nál með kaðli … eða úlfalda ef því er að skipta.

Jesús talar ekki mikið um peninga. „Gjaldið keisaranum það sem keisarans er“ (Mark 12.17 // Matt 22.21, Lúk 20.25) segir hann og þekkt er einnig sagan um eyri ekkjunnar þar sem framlag fátækrar ekkju er sögð stærri gjöf en fjáraustur auðmannanna því eyririnn var öll lífsbjörg hennar en hinir gáfu lítinn hluta allsnægta sinna (Mark 12.41-44 // Lúk 21.1-4), saga sem auðvitað er lítið annað en bíblíuleg röksemdafærsla fyrir hátekjuskatti.

Maður og Mammon

En Jesús segir sögu um mann nokkurn sem fer úr landi og felur þjónum sínum eigur sínar, einum fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, „hverjum eftir hæfni“ segir þar (Matt 25.15). Sagan er ekki um peninga heldur um Guðs gjafir, sem enn í dag eru kenndar við þennan forna gjaldmiðil á mörgum þjóðtungum og kallaðar „talent“. En til að dæmisagan gangi upp þurfum við samt að sætta okkur við að eðilegt sé að fólki sé skammtað „eftir hæfni“ – upp að því marki að ójöfnuðurinn verði ekki slíkur að einn líði skort á meðan annar lendir í helgreipum Mammons.

Þetta snýst nefnilega miklu frekar um samband okkar við Mammon. Þeir sem gert hafa Mammon að húsbónda sínum og hlýða aðeins boðum hans, þeir eru ekki í Guðsríkinu og eiga enga leið þangað inn. Enginn getur þjónað tveimur herrum, Guði og Mammon. Hví skyldi einhver sem tilheyrir vellauðugasta hundraðshluta þjóðarinnar vilja samfélag jöfnuðar og samhjálpar? Hvað er í því fyrir hann? Það er hreint guðlast fyrir þeim sem aðeins hlýða æðsta boðorði Mammons: „Græðgi er góð.“

Hlutverk Mammons

Til hvers eru peningar? Eru þeir hreyfiafl til góðs? Eru þeir til að tryggja velferð samfélagsins, byggja upp grunnstoðir þess, efla heilbrigðiskerfi, menntun, mannúð? Eru þeir til að við getum tekið á móti fólki sem hættir lífi sínu til að flýja ómennskar kringumstæður í von um að búa börnum sínum betra líf eða sjáum við ofsjónum yfir að nota þá í slíkt? Eru þeir til að hjálpa þeim meðal okkar sem örlögin hafa leikið þannig að þeir þurfa framfærslu samfélagsins til að líða ekki neyð eða erum við, sem verðum þess vör að slíkt er rauveruleiki í samfélagi okkar, bara geðveik eins og áhrifamenn hafa fullyrt? Eiga peningar að auka á  jöfnuð og samkennd í samfélaginu eða eiga þeir að skapa hér tvær þjóðir sem búa við sitt hvorn raunveruleikann? Einn fyrir almenning og annan þar sem tíföld árslaun meðalíslendingsins eru fjárhæð sem „engu máli skiptir“?

Við ættum að velta þessu alvarlega, fyrir okkur því senn tökum við afdrifaríka ákvörðun um það hvernig samfélag við viljum byggja hér á þessari eyju, hvaða gildi við viljum að ráði ferðinni. Þá ákvörðun tökum við þegar við veljum fólk til að stýra þessari uppbyggingu.

Þeir Mammon og Bakkus eiga það nefnilega sameiginlegt að vera góðir þjónar en afleitir húsbændur. Þeir sem fela sjóði á aflandseyjum og í skattaskjólum – eins og alkóhólisti vodkaflösku í sokkaskúffunni eða vatnskassanum á salerninu – eru á vondum stað, þaðan sem leiðin til kærleikssamfélagsins liggur í gegnum nálarauga.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.

Prédikun flutt í Laugarneskirkju 15. október 2017

Davíð Þór Jónsson
Latest posts by Davíð Þór Jónsson (see all)
Flokkun : Pistlar
5,954