trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 11/02/2015

Grið

 

Sem betur fer virðist fjármálaráðherra ætla að lyfta af sér farg slúðurs og illmælgi sem hann hefur legið undir vegna sleifarlags við að heimila kaup á gögnum um skattaþjófa. Það er gott. Það sem fylgir sinnaskiptunum er síðra.

Það var haft eftir ráðherranum í Ríkisútvarpinu í dag, 11. febrúar, að von sé á breytingum á skattalögum með vorinu. Þar verði gert ráð fyrir því að hægt sé að veita skattaþjófum grið gegn því að þeir játi svikin og leiðrétt skattaskil sín aftur í tímann. Griðin eiga að gilda um eignir þeirra erlendis. Fyrir þetta greiða þeir sérstakt álag. Í staðinn losna þeir undan þeirri refsingu sem núgildandi lög kveða á um. Atarna er meðal annars rökstutt með því að þetta sé mikilvægt svo hægt sé að koma upp um afbrot og að skattatekjur muni aukast við slíka breytingu. Þetta er röksemd af sama stofni og sú að tekjur ríkissjóðs aukist með því að lækka skatta.

Fyrirætlanir um griðarákvæði minna á gamlar og nýjar sögur af því þegar valdið getur ekki lengur haldið hlífiskildi yfir þrjótum sínum. Þeim er heitið mildum dómum ef þeir játi sök. Þá er þetta ekki með öllu ólíkt sölu kirkjunnar á syndakvittun. Aflátsbréfum. Þau var hægt var að kaupa fyrir land og lausa aura og framvísa í himnaríki sem sönnun fyrir því að handhafi bréfsins hefði þegar goldið fyrir syndir sínar og ætti heimtingu á heiðurssessi þar efra.

Nú er að sjálfsögðu gott að fyrirgefa. Og fallegt. Því neita fáir. En er ekki rétt að staldra við og spyrja hvort hið væntanlega griðarákvæði verði ekki líka að gilda fyrir aðra þjófa? Og lagabrjóta?  Þarf ekki að líta yfir jafnréttislöggjöfina af tilefninu?

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,435