trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 25/03/2018

Göldróttur, já göldróttur: Söknuðurinn í brjósti mínu: svöl tjörn á fjallinu

Eftir Eirík Guðmundsson

Þorsteinn frá Hamri, skáld heiða og vinda, skáld veðra og sálarháska, skáld álfa og skóga og sverða og skáld þess sem maður segir engum, en er þarna samt, skáld villunnar, sársaukans, beygsins, samviskunnar, skáld sem vissi, að við neyðumst til að horfa ,,um stund inn í myrkrið”, viljum við ,,eiga ljósan dag“.

Hversu lengi get ég haldið áfram? Lengi. Mjög lengi. Ég hef undanfarnar vikur velt því fyrir mér hvernig stendur á því að ég hef síðasta aldarfjórðung eða svo varla farið á milli byggðarlaga, nú eða landa, án þess að vera vopnaður að minnsta kosti einni ljóðabók eftir Þorstein frá Hamri. Ég hef lesið Þorstein á Þingvöllum, í Eyjafirði, á Ísafirði, í Mexíkó, Lissabon, og meira að segja á diskóeyjunni Ibiza. Og ég hef auðvitað spurt mig: hvað var hann að segja við mig? Hvers vegna passa ég ævinlega uppá að það séu helst aldrei fleiri en sex metrar í næstu ljóðabók eftir Þorstein frá Hamri?

Stutta svarið er þetta: ljóðabækur Þorsteins þola nær þrotlausan endurlestur, ævinlega skal eitthvað opnast, maður nemur galdurinn alltaf betur og betur, án þess endilega að skilja hann, og, stutta svarið er líka þetta: sá sem les ljóð Þorsteins frá Hamri heyrir ekki aðeins þessa mjög svo dýrmætu rödd, sem var röddin hans, og er röddin hans, því hún varðveitist í verkum hans, sá sem les ljóð Þorsteins frá Hamri heyrir ekki aðeins þessa lágstemmdu rödd, sem var, og er, svo sterk að hún gat, og getur, mér liggur við að segja, hreyft fjöll, og magnað vinda, sá sem les heyrir ekki aðeins í Þorsteini, heldur heyrir hann í sjálfum sér, og það vita allir, að þeim sem hættir að heyra í sjálfum sér er voðinn vís, meir en það, hann er glataður.

,,Söknuðurinn í brjósti mínu:
svöl tjörn á fjallinu.”

Og svo framvegis.

Höfundarverk Þorsteins frá Hamri einkennist af einhverjum óútskýranlegum heilindum. Hann var höfundur sem tók skáldskapinn alvarlega, þetta skipti einfaldlega öllu máli, öllu máli, hann trúði á mátt skáldskaparins eins og kraftaskáldin forðum. Það finnur maður í öllum hans bókum, allt frá þeirri fyrstu, til þeirrar síðustu, og það fann maður í nærveru við manninn sjálfan.

Ég tók ófá viðtöl við Þorstein frá Hamri fyrir Ríkisútvarpið, og nýtti raunar hvert einasta tækifæri sem gafst til að sníkja viðtal og komast niður á Smáragötu, ég leit á það sem hlutverk mitt. Það hafa fleiri orðið, og munu verða, til þess að lýsa nærveru Þorsteins, en ég segi, hún var einstök, og þegar maður hafði kvatt hann eftir gott spjall, fylgdi hún manni út í daginn, þessi nærvera, og maður var einhvern veginn ríkari, en maður var fyrir fundinn við Þorstein, maður heyrði betur í sjálfum sér.

,,Söknuðurinn í brjósti mínu:
svöl tjörn á fjallinu.”

Hvað er hægt að segja um ljóðlist Þorsteins frá Hamri? Reyni maður að svara, er hætt við að maður villist í skógi. Það er villugjarnt í skógum.

Skáld samviskunnar, samvisku manns, og þjóðar, og samviskubitsins. Skáld okkar tíma, skáld allra tíma. En aðferðir hans, myndmál, heilindi, alvara, og já mér liggur við að segja, hugrekki til að fara ævinlega alla leið, inn í sjálfan kjarnann, kjarna mennskunnar, já og um leið, og auðvitað, inn í kjarna lesandans, gera það að verkum að ljóð hans tilheyra öllum tímum, – og galdurinn var, og er líka sá, að í mörgum ljóða Þorsteins, æði mörgum, segir hann manni eitthvað um mann sjálfan, sem maður vissi jafnvel ekki fyrir.

Ég hef legið flatur á sæng, og lesið splúnkunýja ljóðabók eftir Þorstein frá Hamri, það er ekkert svo langt síðan, ég lá flatur og eftir að hafa farið í gegnum ríflega hálfa bók, fleygði ég henni frá mér, stökk óður fram úr rúminu, og hrópaði, hann er búinn að ná mér, hann sér mig, hann sér í gegnum mig. Samt var hann auðvitað ekki að yrkja um mig, hann var að yrkja um alla menn. Og það er galdurinn. Ég ætla ekki að segja að Þorsteinn frá Hamri hafi verið göldróttur, og þó, ég er eiginlega sannfærður um að hann gat breytt heimum, og sálum, með orðum sínum – ,,… horfðu um stund inní myrkrið viljirðu eiga ljósan dag.” Jú, auðvitað var hann göldróttur.

Ég hef að undanförnu verið að endurlesa ljóðabækur Þorsteins, af ákveðnu tilefni, allt frá þeirri fyrstu, Í svörtum kufli, frá árinu 1958, þar sem orðið berst og álfarnir dansa, til þeirrar síðustu, Núna, sem kom út árið 2016, þar sem hann yrkir um undrið í höfðinu og dansar við kvíðann. Og það er meir en lítið gjöfult ferðalag. Ljóðin eru enn að breytast, og þau eru enn að breyta mér. Ég lýk við bók sem ég las fyrir þrjátíu árum og hélt að ég væri fyrir löngu búinn að afgreiða, súmma niður í tvær eða þrjár gáfulegar setningar, en viti menn, bókin er ný, ég þarf að byrja upp á nýtt.

Ég byrjaði sjálfur að lesa ljóð Þorsteins einhvern tímann á níunda áratugnum, þegar út komu bækur á borð við Urðargaldur, Vatns götur og blóðs, og síðar Sæfarinn sofandi, Það talar í trjánum, Meðan þú vaktir og þannig má áfram telja. Allt framúrskarandi bækur sem gáfu fyrri verkum Þorsteins ekkert eftir, þeim verkum sem höfðu þá þegar skipað honum á bekk með fremstu ljóðskáldum þjóðarinnar, höfðu þá þegar breytt honum sem höfundi í fjall sem maður varð að klífa, ekki bara horfa á, ganga umhverfis, og dást að, heldur beinlínis klífa, og helst kanna hvert drag, hvern dýjakrók, hverja skriðu, og, algerlega vitandi þess að ólíklegt yrði að maður myndi binda ,,mesta tryggð við þá staði þar sem uppgangan er auðveldust og ferðalángar leita helzt útsýnis,” eins og segir í Fiðrinu úr sæng Daladrottningar, göldróttri, já göldróttri bók frá árinu 1977. Þessar bækur – og þær sem á eftir komu – sýndu skáld sem var enn að nema ný lönd, finna nýja fjársjóði, og færa okkur.

Fátt leiddist Þorsteini meir en þegar gagnrýnendur settu á nánast vélrænt tal um hið þjóðlega í hans samhengi, skáld sem orti myrkt, og helst bara uppúr einhverjum gömlum sögum, kvæðum og þjóðháttum. Og ég man, það gladdi hann mjög þegar ég viðraði þá skoðun mína við hann, að með Sæfaranum sofandi, frá árinu 1992, hefðu orðið ákveðin hvörf, þá hafi hafist nýtt skeið, sem var ekki endilega betra en þau sem voru liðin, bara öðruvísi, þá brosti Þorsteinn sínu hlýja brosi.

Og svo hélt þetta bara áfram, ný bók á um það bil tveggja ára fresti, og ævinlega tilefni til að kaupa heilan kassa af búsjúlei núvó í hvert einasta sinn. Og mér segir svo hugur að við séum enn og eigum enn eftir að orða betur þann galdur sem er í ljóðabókum Þorsteins á 21. öldinni. Í þeim gengur hann held ég á hólm við okkur öll, angist okkar og eftirsjá, samvisku, með einstökum hætti og sem aldrei fyrr. Um þetta eigum við eftir að skrifa betur, en það er ekkert endilega alltaf auðvelt að skrifa um Þorstein, það er villugjarnt í skógum, og Þorsteinn var ekki síst skáld skóga.

Innskot: ég spurði eitt sinn Þorstein hvaða bók hann myndi vilja færa Agli Skallagrímssyni, ef hann hefði tök á, og hann svaraði, Ætli það yrði ekki Fiðrið úr sæng daladrottningar, hún er svoldið borgfirsk eins og við, og hann kímdi, og þeir sem þekktu Þorstein vita nákvæmlega hvernig hann kímdi. Maður gat spurt Þorstein svona spurningar, svo nákominn var hann íslenskum bókmenntum á öllum tímum, en engan annan.

Ég hef auðvitað engan tíma hér, blindaður af ljóðlist, til að tala um sagnaþætti Þorsteins, og skáldsögur, geri það síðar. Engan tíma til að tala um setninguna ,,Og svo fór eitthvað að koma fyrir hann, sem enginn veit hvað var.” Nú eða þessa: ,,Ég hugsa um ekkert og óska einskis, nema að verði frí við það sem ásækir mig, því meðan það er, kemur mér allt að engu.“

Mér hlotnaðist eitt sinn sá heiður að lesa upp með Þorsteini frá Hamri, og fleiri góðum skáldum, það var fyrir fjórum eða fimm árum, það var í bókasafninu uppi á Akranesi, ásamt góðu fólki, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Vigdísi Grímsdóttur og Jóni Kalman Stefánssyni, dýrmætt fólk. Á Skaga stendur nýleg bygging í anda tímanna, þar eru víðir salir, líklega getur hún ekki talist neitt sérlega ljóðræn, þessi bygging, prýðilegt hús eigi að síður. Ég las, og las hratt, eins og ævinlega, og það gerðist svosem ekki neitt, en Þorsteinn var næstur á eftir mér, og ég get svo svarið það að þegar ljóðin hans tóku að óma um þessa víðu sali og alla heima um leið, þá fór bókstaflega að braka í höllinni, ég hélt um stund að burðarvirkið myndi bugast. Og ég er enn þann dag í dag, sannfærður um að rödd Þorsteins barst alla leið upp á Snæfellsnes, það kvöld, ef ekki enn norðar. Ég þakkaði guði fyrir það að ég las á undan honum, en ekki á eftir. Þegar hann var búinn að lesa, var einfaldlega ekkert meir að segja. Hann var, og er, þannig skáld.

Ég sagðist áðan hafa spurt sjálfan mig hvers vegna ég fari varla á milli byggðarlaga, nú eða landa, eða jafnvel og hreinlega á milli húsa, og það er eiginlega engin lygi, án þess að vera vopnaður að minnsta kosti einni ljóðabók eftir Þorstein frá Hamri. Þið hafið nú heyrt stutta svarið. Langa svarið er þetta:

,,Söknuðurinn í brjósti mínu:
svöl tjörn á fjallinu.

Í tærri lygnunni
titrar mynd þín,
þegar blærinn andar
hvísla bárurnar orð þín,
söknuður í brjósti mínu,
segðu það eingum.

Svöl og djúp
tjörn á fjallinu.”

Þakkykkur fyrir.

Eiríkur Guðmundsson

(Flutt á samkomu í minningu Þorsteins frá Hamri í Iðnó 18. mars 2018.)

1,471