trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 15/05/2014

Glyðrugildran í Álfabakkanum

Eftir Sif SigmarsdótturSif Sigmarsdóttir

Kalda stríðið var í algleymingi. Heimsbyggðin bjó sig undir þriðju heimsstyrjöld. Sumir undir heimsendi.

Hún var aðeins þekkt undir nafninu Anna. Það eina sem vitað var um hana var að hún var föngulegur og kænn kvenmaður sem hafði aldrei látið í minni pokann þegar hún stóð frammi fyrir áskoruninni sem var listin að draga erlenda mektarmenn á tálar fyrir þjóðaröryggið. Anna var atvinnu tálkvendi og starfaði fyrir bresku leyniþjónustuna MI6. Það var hins vegar í Svíþjóð sem óflekkuð afrekaskrá Önnu beið hnekki.

Diplómatar á náttfötunum

„Hvað felst í nafni?“ velti Andrei Brezhnev, barnabarn Leoníd Brezhnev, fyrrum leiðtoga Sovétríkjanna, fyrir sér í blaðagrein í sovéska vikuritinu Moskvu-fréttir í ágúst árið 1988. „Ég er tuttugu og sjö ára að aldri,“ skrifði Andrei. „Líf mitt sem fullorðin manneskja er rétt að hefjast. Mér er hins vegar að verða það óþyrmilega ljóst að nafn mitt er mér fjötur um fót.“

Brezhnev fjölskyldunni hafði löngum verið legið á hálsi fyrir að hafa lifað í vellystingum í valdatíð Leoníd meðan efnahagur landsins fór í vaskinn og almenningur svalt. Andrei þvertók hins vegar fyrir að hafa notið nokkurra forréttinda og kvað Brezhnev, afa sinn, hafa haft andúð á hvers konar frændhygli og spillingu. „Afa mínum líkaði það illa þegar fólk reyndi að kría út hjá honum greiða í gegnum fjölskyldutengsl.“

Hvað sem söguskýringum Andrei Brezhnev líður vildi það svo til að pabbi hans, Júríj Brezhnev, sonur sovétleiðtogans, starfaði í valdatíð föður síns sem háttsettur viðskiptaerindreki í rússneska viðskiptaráðinu í Stokkhólmi. Í splunkunýrri bók sem heitir Njósnaraveiðarinn eftir Svíann Olof Frånstedt, sem stýrði sænsku leyniþjónustunni, Säpo, á árunum 1966 til 1978, er ljóstrað upp um hin ýmsu leyndarmál leyniþjónustunnar. Þar segir meðal annars frá því þegar Júríj mætti í borgina snemma á áttunda áratugnum.

Á þessum árum voru svo kölluð „náttfatapartí“ vinsæl dægrastytting hjá erlendum diplómötum í Stokkhólmi. Um var að ræða veigum hlaðnar veislur heldra fólks sem einkenndust af ofgnótt af áfengi og kynlífssvalli.

Olof upplýsir í bókinni um að sænska leyniþjónustan hafi í samstarfi við þá bresku og útsendara hennar, Önnu, ætlað að leggja fyrir einkason Leoníd Brezhnev, sovétleiðtoga, gildru. Gildran sem um ræddi var svo kölluð „honey-trap“ eða glyðrugildra. Föngulegar stúlkur með hina óbrigðulu Önnu fremsta í flokki áttu að plata Júríj og tvo aðra rússneska erindreka í náttfatapartí í íbúð í hinu virta Ostermalm hverfi Stokkhólms. Í íbúðinni yrði búið að koma fyrir földum myndavélum og upptökubúnaði. „Bæði Svíar og diplómatar frá Vestur-Evrópu voru opnir fyrir tilboðum um kynlíf,“ segir Olof. „Við áttum von á að það sama myndi gilda um Rússana.“

Upptökurnar úr svallpartíinu hugðist leyniþjónustan nota til að kúga út úr Rússunum greiða eða upplýsingar. Myndir af einkasyni sovétleiðtogans yrðu beitt vopn í hinu kalda stríði.

En í Stokkhólmi beið Anna sinn fyrsta ósigur. Rússarnir yfirgáfu óvænt Svíþjóð án nokkurrar viðvörunar. „Enn þann dag í dag fyllist ég reiði þegar ég hugsa um það,“ segir Olof í bók sinni.

Það reyndist leki innan sænsku leyniþjónustunnar. Einn starfsmannanna var handbendi Rússa og hann greindi embættismönnunum frá ráðagerðinni. Glyðrugildran fór út um þúfur.

Júríj Brezhnev átti farsælan feril í heimalandi sínu sem embættismaður svo lengi sem pabbi hans var við völd. Enginn veit hvað varð um hina leyndardómsfullu Önnu.

Poppið selur sig ekki sjálft

Júríj, náttfatapartíin, Anna og glyðrurnar. Tæpum aldarfjórðungi eftir að kaldastríðinu lauk hljómar þetta eins og hálfgerður brandari, atburðarás í lélegri Bond mynd. En vinnuaðferðir kaldastríðsins eru langt frá því að vera úr sér gengnar. Glyðrugildrurnar eru enn í hávegum hafðar. Og þær eru nær okkur en maður hefði haldið.

Aðstæður eru svipaðar. Í bakgrunninum eru njósnarar, einræðisherrar, heimsendaspár, sprengingar og bílaeltingaleikir. Sögusviðið er hins vegar Reykjavík. Nánar tiltekið, Álfabakkinn.

Nýverið komst í fréttirnar að tveimur ungum konum hefði verið sagt upp störfum í Sambíóunum í Álfabakka eftir að þær gerðu athugasemd við að verkskipting á vinnustaðnum væri kynbundin, að þar sinntu konur oftast afgreiðslu, en karlar oftast dyravörslu. Þær sögðu yfirmennina bera því meðal annars við að „konur seldu meira“ í sjoppum kvikmyndahússins.

Fyrirkomulagið lagðist skiljanlega illa í fólk. Sem sagnfræðingur ræð ég mér hins vegar ekki af gleði. Okkur sagnfræðingum er gjarnan brigslað um tilgangsleysi. Við gerum ekkert gagn. Það að grúska í skjölum og grafast fyrir um liðna atburði hefur lítið áþreifanlegt gildi. En nú hafa stjórnendur Sambíósins við Álfabakka sýnt fram á að slíkum röddum skjátlast. Með því að leita svona á náðir sögunnar í stjórnarháttum sínum sýna þeir og sanna að sagan á fullt erindi við nútímann, meira að segja við nútímalegt viðskiptaveldi eins og bíóhúsakeðju.

Yfirmennirnir eru eins og félagar í leyniþjónustunni. Þeir eru eins og James Bond, treysta engum og taka engu sem gefnu. Þetta popp selur sig varla sjálft. Þeir grípa til rótgróinnar aðferðar njósnaheimsins, glyðru gildrunnar. Tálbeiturnar eru, eins og Anna, föngulegir og kænir kvenmenn sem tryggja að enginn kemst popplaus inn í salinn. En lífið er hart í leyniþjónustunni. Fullkominnar hollustu er krafist. Þeir sem tala, fjúka. Þannig er það bara.

Spurning hvort næsta Bond mynd gerist ekki í Álfabakkanum.

Sif Sigmarsdóttir, 14. maí 2014

1,455