trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 25/04/2016

Glugginn er galopinn

Í kvöld heldur Kastljósið áfram að fjalla um Panama-skjölin. Mig langar að deila með ykkur hvernig mér leið fyrir rétt um þremur vikum þegar Kastljós sýndi wintris-þáttinn. Við vorum sennilega öll að horfa.

Mér leið illa

Ég var sorgmædd. Sjokkeruð, reið og ég trúði þessu varla. Mér var óglatt. En skömmin yfir þessu öllu saman var þó sennilega vest. Gamalkunnar tilfinningar frá hruninu og frá því þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis var kynnt gerðu vart við sig eins og flass bakk. Við vorum aftur í pakkanum. Vandræðaþjóð. Syndir Sigmundar Davíðs voru syndir okkar. Við vorum tekin!

Ég fór í gegnum þetta allt aftur, heilt sorgarferli, en í þetta skiptið lauk því um tíu leytið um kvöldið. Þá uppgötvaði ég, að í þessu hruni – hruni trúnaðar, siðferðis og trausts – felast stórkostleg tækifæri. Þetta er í rauninni dásamlegt hrun, ef hrun skyldi kalla. Það gerðist jú ekki neitt í raun og veru. Siðleysið hófst fyrir löngu síðan. Nú sjáum við það hins vegar og það er svo miklu betra.

Við mannfólkið erum í eðli okkar flest öryggisfíklar og við leitum í það kunnuglega. Sum okkar – og hér játa ég að ég sæki í eigin reynsluheim – þekkja það að stíga inn í bílinn okkar, ætla í Skeifuna eða til tannlæknis en enda svo fyrir utan vinnuna af því að þangað keyrum við oftast. Líf okkar líður á auto-pilot og það þarf eitthvað mikið að gerast svo við skiptum um stefnu.

Og svo gerðist einmitt það. Núna. Síðustu vikurnar hefur opnast einstakur gluggi – kannski bara annar af tveimur á þessari öld – til að gera alvöru breytingar. Hrista fólk. Fá það til að fara aðra leið, sjá hlutina í nýju ljósi, ekki gera bara það sama og venjulega heldur virkilega hugsa, hugsa sig vel um, hvað það vilji í raun og veru.

Og einmitt núna er þessi gluggi galopinn. Allt er mögulegt! Og þar er skylda okkar sem viljum alvöru breytingar á íslensku þjóðfélagi svo við þurfum ekki að upplifa fleiri hrun, fleiri skammarleg móment í alþjóðapressunni, að nota þennan glugga því hann mun lokast aftur, fyrr en síðar.

Alveg síðan Sigmundur Davíð „stóð sig illa í viðtali“ hefur verið vor. Og þvílíkt vor!

Síðustu þrjú árin hef ég oft verið spurð út í pólitíkina. Í þrjú ár hef ég sagt að það eina sem ég viti er að í næstu kosningum, sem koma nú sennilega fyrr en við ætluðum, verður staðan gjörbreytt. En ég veit ekki hvernig hún verður. En kannski … getum við mótað stöðuna.

Ég held að mörg okkar sem hófum stjórnmálaþátttöku eftir hrun – ekki þó Sigmundur Davíð af skiljanlegum ástæðum – eigum oft meira sameiginlegt, þvert á flokka en samflokksfólk gömlu flokkanna (sem eru þar stundum á auto-pilot og ástunda margir hverjir sína gömlu pólitík, detta í sömu hjólförin). Og ég held að við getum gert stórkostlega hluti saman ef við bara ákveðum að gera það. Það er nefnilega ákvörðun að vinna saman.

Og hvað þýðir það?

Þurfum við að sameina alla flokka sem telja sig umbótaöfl?

  • Nei, ég held ekki. Ég held að áfram sé eftirspurn eftir ákveðnu litrófi umbótaafla.

Þurfum við að vera sammála um allt?

  • Nei, ég held að það sé bæði gott og heilbrigt að takast stöku sinnum á um hlutina.

Þurfum við að hætta að tala um Icesave?

  • Uh … Já. Þótt fyrr hefði verið.

Eigum við að sameinast um nýju stjórnarskrána, jöfnuð, réttlæti, sanngirni og lýðræði?

  • Já, ég held að það sé einmitt lykillinn að samstarfinu. En þá þurfa allir að vera heilir. Og við verðum að hætta að líta á stjórnmálaflokka eins og trúflokka eða fótboltalið sem maður heldur með alla æfi, sama á hverju gengur.

Við þurfum líka að slaka aðeins á í því hver sé aðal og hver ekki. Þetta snýst ekki um okkur eða persónur og leikendur. Þetta snýst um framtíð íslensku þjóðarinnar. Klúðrum því ekki.

Byggt á stuttri tölu frá fundinum Eigum við að vinna saman? sem haldinn var í Iðnó 16. apríl 2016.

 

 

Flokkun : Efst á baugi
1,465