trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/11/2015

Gleymið Sulti eftir Hamsun: Sá sem lýsir Weetabix-máltíð svona hefur verið mjöööög svangur

Ritdómur – Jón Knútur ÁsmundssonEgill Ólafsson

Egils sögur – Á meðan ég man

Páll Valsson og Egill Ólafsson

(Forlagið, 2015)

Fyrir að minnsta kosti tvær kynslóðir ungmenna voru Stuðmenn einfaldlega málið og hlutlægt mat þessum árum síðar skilar manni þeirri niðurstöðu að þeir voru auðvitað hin fullkomna hljómsveit. Svona þegar maður pælir í því. Og þá á ég við tónlistina að mjög takmörkuðu leyti – ég á fyrst og fremst við konseptið.

Ég held að þetta sé síðasta „Hljómsveit allra landsmanna“ því ég á erfitt með að sjá hvernig svona fyrirbæri gæti orðið til í dag. Þeir voru týndi hlekkurinn á milli höfuðborgar og landsbyggðar, sameinuðu okkur í tvo áratugi í einum brjálæðislega góðum brandara. Hipsterar sem voru samt ekkert of góðir fyrir sveitaböllin á Reyðarfirði. Höfðu djúpan skilning á tilveru okkar Íslendinga og vissu að við sitjum öll í sömu naglasúpunni og á endanum sigra framsóknarmenn.

Nú eru liðin öll þessi ár og þótt Framsóknarflokkurinn sitji við völd eru flestir Íslendingar orðnir Píratar og þá er rétt að líta til baka og segja frá with the benefit of hindsight. Fyrir tveimur árum skrifaði Þórunn Jarla Valdimarsdóttir frábæra endurminningabók með Jakobi Frímanni, Með sumt á hreinu, og núna skrifa Páll Valsson (verðlaunahöfundur ævisögu Jónasar Hallgrímssonar og Vigdísar Finnbogadóttur) og Egill Ólafsson bókina Egils sögur – Á meðan ég man.

Egill er, eins og PR-deild Forlagsins bendir okkur samviskusamlega á, lykilmaður í íslensku menningarlífi og ásamt JFM sá Stuðmaður sem komið hefur hvað víðast við. Svo víða að stuðmennskan er aðeins einn kafli af mörgum á vegferð hans. Alls ekki sá merkilegasti en síður en svo sá ómerkilegasti. Hér er farið samviskusamlega í gegnum Spilverkið, Þursana, kvikmyndirnar, leikhúsið og fleira. Svo samviskusamlega að stundum jaðra efnistökin við upptalningu á afrekum söguhetjunnar þannig að ég átti hálfpartinn von á nokkrum málsgreinum um samstarf Egils og Toyota einhversstaðar í seinni hlutanum.

Þessir mörgu kaflar ævisögu Egils Ólafssonar birtast manni í bókinni svona: Páll skrifar í þriðju persónu um söguhetjuna sína, skilgreinir stöðuna fyrir lesanda og heldur framvindunni gangandi og síðan segir Egill frá í fyrstu persónu, frásögn sem virkar stundum eins og svona inside info og maður fær á tilfinninguna að maður sitji með honum á Mokka og fái öll díteilin beint í æð. Allt þó innan skynsmlegra marka. Hér fríkar enginn út þótt úti geisi vetur játninganna.

Jón Knútur ÁsmundssonStíllinn á texta Egils er oft mjög fallegur og ljóðrænn, reyndar svo mjög á köflum að það jaðrar við tilgerð en maður fyrirgefur honum það enda innihalda Egils sögur líka stórkostlega stuðmennskar og galgopalegar lýsingar á hljómsveitarharki þar sem hann kemur sér beint að efninu án nokkurra stæla. Þannig er hraktri dvöl Stuðmanna sumarið ´76 í London við upptökur á meistaraverkinu Tívolí gerð nokkuð rækileg skil og það er sannkallaður yndislestur. Maður sem getur lýst Weetabix-máltíð jafn vel og raun ber vitni, öllum þessum árum síðar, hefur verið mjöööög svangur (samanborið hljómar Sultur Hamsuns næstum því eins og hvert annað garnagaul).

Ég heyrði höfundana á spjalli í Víðsjá um daginn þar sem Egill lýsti því að skemmtilegast hefði verið að fást við æsku- og uppvaxtarárin og það finnst mér skila sér. Þetta eru vönduð skrif og lýsa tíðaranda lands og þjóðar á tímamótum, haldið saman af söguþræði sem einkennir margar ævisögur manna af þessari kynslóð, um bítlið og síða hárið og hvernig það færði okkur endanlega inní nútímann. Gullið finnst síðan í smáatriðunum, lýsingum á samferðafólki og frá allskyns uppákomum í lífi manns sem upplifði sokkabandsár íslenskrar rokktónlistar og íslenska kvikmyndavorið. Öll sú ófagmennska sem þar er lýst, jafn erfið og hún hefur eflaust verið fyrir persónur og leikendur, er núna efniviður í sögur, stundum óborganlega fyndnar (sannast enn einu sinni að húmor er ekkert annað en tragedy plus time) sem Egill og Páll segja listilega frá.

Egils sögur er engin harmsaga og í henni er voða lítið sex, drugs and rock and roll. Eflaust sakna þess einhverjir en það er ekki – og hefur aldrei verið – stíllinn hans Egils að slengja hjarta sínu á stofuborðið okkar með tilheyrandi látum.

Á þessum vetri játninganna eru Egils sögur því kærkomin tilbreyting sem óhætt er að mæla með.

Jón Knútur Ásmundsson

Flokkun : Menning
1,431