trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 15/10/2015

Gleðilæti í Svindlhöll Íslands

Í morgun var byrjað að selja hlutabréf í Símanum. Forstjóri Símans fékk að dingla bjöllukólfi í Kauphöllinni í tilefni dagsins. Forstjóri Kauphallarinnar var fullur af hátíðarkæti þegar hann ávarpaði viðstadda:  „Sím­inn er sann­ar­lega góð viðbót við hluta­bréfa­markaðinn og styrk­ir bæði fjar­skipta­geir­ann á hon­um sem og markaðinn í heild sinni. Við hlökk­um til að styðja við fé­lagið með þeim aukna sýni­leika sem fylg­ir skrán­ingu á aðal­markað.“

rich-v-poor-e1422687425883

Það er alkunna að „valinkunnir sæmdarmenn“ fengu að kaupa hluta í fyrirtækinu fyrir góðvild Arion banka á 2,5 krónur. Morgunblaðið sagði frá því í dag að stjórn Símans hafi ekki verið kunnugt um viðskiptin áður en þau fóru fram.

Í grein eftir Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka sem birt var í Morgunblaðinu síðast liðinn þriðjudag, sagði: „Það var mat Arion banka að það myndi styrkja hlutafjárútboðið og Símann til framtíðar að fá að félaginu hóp alþjóðlegra fjárfesta með reynslu af fjárfestingum og fjarskiptum í fjölda landa. Þessi hópur er því ekki einungis að koma með fjármagn í félagið heldur einnig dýrmæta þekkingu og reynslu á sviði fjarskipta sem mun vonandi nýtast félaginu og hluthöfum þess til framtíðar.“

Í dag, fimmtudag segir Mogginn frá því á forsíðu að Arion banki hafi „staðfest að forsvarsmenn hans höfðu ekki fulla yfirsýn yfir það hvaða fjárfestar stóðu að baki kaupum“  sem Halldór Bjarkar lýsir svo fjálglega. Ennfremur segir Moggi: „Meðal skýringa sem gefnar voru stjórnarmönnum í Símanum … var að með sölunni væri verið að tryggja aðkomu erlendra fjárfesta og aðila með sérþekkingu á fjarskiptamarkaði. Síðar hefur komið í ljós að hlutur sem skráður var á nafn Sigurbjörns Þorkelssonar, fjárfestis sem hefur í áratugi starfað á fjármálamörkuðum erlendis, var einnig keyptur af viðskiptafélögum hans, Árna Haukssyni og Hallbirni Karlssyni. Nöfn þeirra tveggja munu ekki hafa komið fram þegar fjárfestahópurinn var ræddur innan stjórnar og spurningar hafa vaknað um hvernig aðkoma þeirra muni styrkja félagið með þeim hætti sem ætlunin var með sölunni til fjárfestahópsins. Ólga er meðal stjórnarmanna í Símanum vegna framkvæmdar útboðsins og sölu bankans á 10% hlut sínum í aðdraganda þess.“

Eftir klukkustundar sölu höfðu hlutir verið seldir fyrir 134 miljónir króna, hver á 3,5. Hagnaður hinna sérvöldu – úr 2,5 í 3,5 á hlut – er 40% á fáum vikum. Þessum íslenskum viðskiptaháttum var fagnað innilega í Kauphöllinni í morgun. Athöfnin fór vel fram og ekki sá vín á nokkrum manni.

Eftirskrift.

Falsspámanna bankanna starfa í svokölluðum greiningardeildum. Spámönnum Íslandsbanka þykir sem þeir hafi fallið í skuggann af sviðljósinu sem kollegar þeirra í Arion hafa staðið í. Sér til viðreisnar sendu þeir frá sér nýja þjóðhagspá rétt í þessu: „Hætta er á því að ofþensla myndist í hagkerfinu á spátímabilinu þar sem ójafnvægi skapast með of miklum vexti innlendrar eftirspurnar og launahækkunum umfram það sem innistæða er fyrir … Fasteignaverð mun hækka um 25 prósent á þessu ári og út árið 2017 … Íbúðarverð muni því hækka um 16 prósent að raunvirði á spátímabilinu.“

(Rétt er að geta þess í framhjáhlaupi að bankarnir eiga mikið af óseldu íbúðarhúsnæði frá því í Hruninu og vilja gjarnan selja það sem fyrst.)

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Efst á baugi
1,211