trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 29/03/2015

Gefið mér kol

Ég var greinilega orðinn allt of upptekinn af þessari einföldu mynd, hætti að horfa á hana og fór á bakvið til þess að kanna hvort einhver væri í húsinu. Hvað með hljóðkerfi? Hvað um tölvukerfi, borð fyrir fundarstjóra (sem var ég) kaffi fyrir fundarmenn, myndvarpa? Mín reynsla er að allt klikki sem klikkað getur, nánast hversu vel sem maður býr sig undir fundinn. En Valaskjálf klikkaði ekki þó að hún væri ekki traustvekjandi að sjá þegar maður skáskaut sér  framhjá skurðum framan við anddyrið og klósettin minntu á gamla félagsheimilið miklu fremur en menningarmiðstöð.

Fólk tíndist inn og settist, fundurinn byrjaði tæplega hálftíma of seint, en ræðurnar voru stuttar og hnitmiðaðar. Svo var kosið um stjórn og mitt hlutverk var að brýna menn að kjósa sex en ekki fleiri eða færri. Það eru eflaust til fjölmargir sex brandarar, en þeir eru ekki mín sterkasta hlið, þannig að ég sagði engan þeirra. Svo var kosið um ályktun stjórnar og fjölmargar breytingar- og viðaukatillögur bættust við. Eftir langa mæðu tókst að greiða úr öllu og ég reyndi að stýra atkvæðagreiðslu með taktík uppboðshaldarans, fyrsta, annað og slegið. Enginn kvartaði enda kaffi í vændum ef atkvæðagreiðslunni lyki.

Eftir kaffi var settur hátíðarfundur. Þá kom ferðamálaráðherrann og tók Sigmund á fundinn, sem kallað er, sagði fundarmönnum hvað þeir væru vitlausir og sjálfum sér ósamkvæmir. Það virkaði jafn vel og hjá Sigmundi, ráðherrarnir kunna sitt fag. Svo afhenti hún verðlaun í lokin, ég ruglaðist í kynningunni og hún sagði góðan brandara sem átti vel við. „There is always someone who doesn‘t get it“, var pönsið.

Um kvöldið var svo hátíðarkvöldverður þar sem Einar Bárðarson fór á kostum. Engum fleiri sögum fer af þessu balli, nema vatnskanna splundraðist við borðið okkar, yfir fínu jakkafötin mín. Ekki veit ég hvernig allir aðrir sluppu þó að skálmarnar blotnuðu hjá mér bæði að framan og aftan, rétt eins og ég hefði stigið í kaldan bala.

Þarna hitti ég Sævar gikk, son Hákarla-Guðjóns frá Karlsskála. Sævar er hreindýraveiðimaður milli þess sem hann tekur á móti gestum á Mjóeyrinni. Sævar er alltaf með fingurinn á gikknum er mér sagt, en þetta kvöld var hann óvopnaður, en sagði mér frá veiði í Sandvíkinni. Auk þess að vera veiðimaður er hann rafvirki og vann um árabil hjá Tómasi frænda mínum Zoega á Norðfirði. Sævar sagði að Tómas væri mikill snillingur og gæti fundið lyktina af bilun. Einu sinni fóru þeir saman um borð í rússneskt skip þar sem vélin var „kapútt“ að sögn rússneska vélstjórans, allt brunnið yfir. Tommi sagði „við reddum þessu“ og meðan Sævar reyndi að þýða það á ensku gekk frændi minn beint að einhverjum stálkassa og spurði hvað væri í honum. Í honum reyndist vera brunnin spóla og sá rússneski veinaði aftur „kapút, kapút“. Tommi var hinn rólegasti, klappaði honum á kollinn og sagði: „Þetta verður allt í lagi.“ Klukkutíma seinna var vélin aftur farin að mala eins og nýkomin úr verksmiðjunni. „Ég sagði þér þetta“, sagði Tommi þegar sá rússneski faðmaði hann að sér.

Daginn eftir fórum við í skoðunarferð um Fjarðabyggð og byrjuðum á Stöðvarfirði. Þar er sköpunarsetur rekið af tveimur ungum konum sem fengu gamalt frystihús gefið og hafa unnið kauplítið við það í nokkur ár að koma því í notkun. Rósa sagði okkur að markmiðið væri að fjölga börnum á Stöðvarfirði, en svo þagnaði hún því einhver stóð fyrir framan hana með myndavél, en hún sagðist ekki geta talað og látið taka mynd af sér samtímis. Ljósmyndarinn gaf sig og við urðum margs vísari.

Margir koma á þetta setur til lengri eða skemmri dvalar, en mér leið eins og maður væri kominn inn í leikmynd þar sem leikritið gerðist 1965. Húsgögnin eru væntanlega gefin og þarna eru líka hljóðfæri, hefilbekkir, rennibekkir, þvottavélar, ljóskastarar og annað sem þarf í sköpunarsetur. Una var farin að tala en hætti líka þegar einhver mundaði myndavélina. Hún sagði okkur að þær væru að reyna að taka þetta á næsta level. Svo fórum við um húsið og kíktum á stúdíóið sem er á efri hæðinni, hannað af mesta hljóðverasnillingi heims, búsettum í Texas. Það er vel hljóðeinangrað, þannig að þeir sem eru annars staðar í húsinu eru óhultir fyrir hljómlistamönnum.

Það var kalt í húsinu þótt úti væri sólskin. Ég sá ekki betur en sultardropi drypi úr nefinu á leiðsögumanninum og ætlaði að bjóða fram servéttu, en gerði það sem betur fer ekki því að við nánari skoðun reyndist þetta vera lítill hringur í miðsnesinu.

Við heyrðum að peningar væru af skornum skammti og við mættum dóneita einhverju því þau væru alltaf að afla fjár. Ég hugsaði með mér að hér væri greinilega alþjóðlegt andrúmsloft. Þá var um leið sagt frá því að aðstandendur vildu gjarnan gera eitthvað sem kostar 10 milljónir. „Þannig að ef þið eigið tíu milljónir sem þið vitið ekki hvað þið eigið að gera við, þá gefið mér kol.“ Ég var smástund að átta mig á því hvert samhengið væri, en áttaði mig svo á því að í alþjóðlegt sköpunarsetur hringja menn ekki, heldur gefa stjórnendum kol.

Einhver spurði hvernig gengi að fjölga börnum, en litlum sögum fór af því. Vonandi gengur þetta samt allt vel, því að það er alltaf gaman þegar fólk reynir eitthvað sem virðist svo fráleitt að það gæti verið skynsamlegt.

Á Fáskrúðsfirði er búið að endurbyggja franska spítalann sem lengi var að hruni kominn lengst úti í firði. Nú er hann inni í bænum en ég efast um að margar fjalir séu upprunalegar. Það er bara betra, húsið er glæsilegt og safnið sem er í næsta húsi ekki síðra. Allir verða að stoppa í þessu safni, fá sér kaffi eða súpu og skoða sýninguna. Sumir ferðafélaga minna fengur sér reyndar bjór eða hvítvín, enda hermdu sögur að einhverjir hefðu verið nýhættir veisluhöldum þegar rútuferðin byrjaði. En allir voru prúðir.

Á Reyðarfirði var sýning þar sem básar voru frá mörgum ferðafrömuðum á Austurlandi. Kaðall á gólfinu táknaði strandlengjuna og allir voru á réttum stað. Mér fannst þetta frábær hugmynd, vel útfærð og gaman að hitta fólkið. Hafi einhver verið í vafa um að hér væri upplagt að eyða viku í sumar hvarf sá vafi eins og dögg fyrir sólu. Þetta fannst mér punkturinn yfir i-ið, að míta þe lókals, eins og við segjum á Stöðvarfirði.

Eftir skemmtilega ferð og fund hélt ég áfram yfir á Norðfjörð. Þar býr Reynir föðurbróðir minn, skemmtilegasti maður á Íslandi. Hann býr núna í íbúð fyrir aldraða, sem ég veit ekki hvernig hann hefur komist inn í því hann er enn ekki genginn í Félag eldri borgara á staðnum, enda ekki nema 94 ára gamall.

Reynir er hafsjór af sögum. Nú sagði hann mér sögur af Tómasi afa, sem kom ungur austur á Eskifjörð, en „áttaði sig fljótt á því að Norðfjörður var miklu vænlegra pláss.“ Á þrítugsaldri var hann farinn að vinna hjá Konráð Hjálmarssyni í búðinni og fljótlega farinn að færa bókhald líka. Einhver vinur afa hafði farið suður og orðið ríkur maður og afi gat vel hugsað sér að gera það líka, en vildi ekki hætta fyrirvaralaust og ákvað að fara til Konráðs og biðja um kauphækkun. Mánaðarlaunin voru þá 100 krónur og afi taldi rétt að vera ófyrirleitinn og biðja um 125 krónur á mánuði. Ekki leist Konráði á það og sendi afa aftur í búðina.

Eftir nokkra stund kemur maður af skrifstofunni fram í búð og biður afa að koma að hitta Konráð. „Nú rekur hann mig fyrir ósvífnina“, hugsaði afi, en fylgdi sendiboðanum. Á skrifstofunni segir Konráð: „Heyrðu Tómas, ég var að hugsa um launin þín. Það gengur ekki að þú fáir 125 krónur á mánuði. Þú verður að fá 150 krónur.“

Afi varð harla glaður og fór aftur inn í búð, en nokkru seinna var aftur sent eftir honum. „Nú ætlar hann að segja að hann hafi mismælt sig og meint 105 krónur en ekki 150“ hugsaði afi og gekk með hálfum huga inn á skrifstofuna til Konráðs, sem þá var einn af ríkustu mönnum Íslands.

„Heyrðu Tómas“, sagði Konráð. „Mér varð það á áðan að bjóða þér 150 krónur í mánaðarlaun, en nú er ég búinn að hugsa málið betur.“ Hann þagnaði.

„Þú átt auðvitað að fá 200 krónur á mánuði.“ Við það sat og afi flutti aldrei aftur suður, þó að hann hætti reyndar hjá Konráði nokkrum árum seinna og færi að stýra sparisjóðnum, en það er önnur saga.

Um kvöldið fengum við okkur mat á Hildibrand hótelinu, Það er glæsilegur staður, rekinn í gamla kaupfélaginu. Það hét Kaupfélagið Fram, en var stundum kallaðKaupfélagið fram og aftur, því einhvern tíma hringdi einhver starfsmaður á ótilgreindan stað og sagði: „Þetta er í Kaupfélaginu Fram,“ og bar fram erindið. Skömmu seinna hringdi hann á sama stað og hóf samtalið: „Þetta er í kaupfélaginu aftur.“ Þannig var uppnefnið til komið.

Það vildi svo vel til að við hittum fjóra af afkomendum Reynis á staðnum og hann sagði réttilega að það hefðu verið sex af Sæbólsfólkinu á staðnum, en afi og amma bjuggu á Sæbóli. (Gangi einhverjum illa að telja, þá vorum við Reynir meðtaldir).

Hákon hótelstjóri kom og spjallaði við okkur og sagði að það væri heiður að Reynir væri mættur. Svo fékk ég að vita að ég hefði fengið íbúð með þremur herbergjum á hótelinu. Það reyndist ekki vera svefnherbergi, eldhús og stofa eins og ég hélt, heldur þrjú svefnherbergi og ég mátti hafa mig allan við að fullnýta þau um nóttina, en gætti þess auðvitað að skipta um rúm á þriggja tíma fresti. Betra hótel finnst varla.

Daginn eftir fórum við út að göngunum nýju, sem ég tel mig eiga, því að ég mætti á fund á Eskifirði og taldi að þau væru alveg nauðsynleg, þótt erfiðlega gæti gengið að reikna í þau arðsemi. Pabbi væri austan frá Norðfirði og þess vegna áttaði ég mig vel á þörfinni fyrir göng austur. Hins vegar væri mamma frá Reykjavík og þess vegna væri ég alveg klár á því að leiðin suður þyrfti að vera greið. Samgönguráðherrann var á staðnum og ég er ekki í vafa um að þessi lógik reið baggamuninn.

Gatið er reyndar ekki enn komið í gegn, en það styttist í þau. Á sínum tíma var talað um að gera göng í norður en ekki í suður. Fyrst í Mjóafjörð og þaðan yfir á Seyðisfjörð, en það var áfengisútsala. En svo var opnuð vínbúð á Norðfirði, þannig að þau göng voru óþörf.

Í hádeginu fékk ég mér göngutúr út í Páskahelli, sem er utarlega í firðinum. Ég var einn á gangi, í frakka og lakkskóm. Þetta fannst mér vel viðeigandi því að það er til mynd af Tómasi afa við veiðar með flibba og hálstau. Verst var að enginn gat tekið mynd af mér svona prúðbúnum í fjörugrjótinu, en þarna var ég. Því til sannindamerkis nefni ég að ég hitti fólk með barn í vagni, bláklætt með gleraugu og vettlinga í stíl. Þau fóru að vísu ekki í hellinn, en mættu mér á stígnum.

Heim komst ég um kvöldið með flugfélaginu, ánægður með skemmtilega för. Ef einhver fyrir austan les þetta bið ég þann hinn sama að skila því til Reynis að ég hafi komist á leiðarenda. Ég er nefnilega ekki enn búinn að gefa honum kol.

Benedikt Jóhannesson, heimur.is, 29. mars 2015

 

1,255