trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 27/06/2019

Gamla kerfið er meðvituð pólitík

Karl Th. Birgisson skrifar

Þá eru liðnir tveir þingvetur af lífi þessarar ríkisstjórnar.

Hér skulum við aðeins stikla á fáeinum málum.

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur staðið sig mjög vel í jafnréttis- og mannréttindamálum, ágætlega í loftslagsmálum og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur oft verið mjög flott í embætti.

Ríkisstjórnin stóð líka sig að mörgu leyti mjög vel í tengslum við nýgerða kjarasamninga.

Þá óttast ég að upp sé talið það sem kalla má góð verk, sem orð er á gerandi frá ríkisstjórn Vinstri grænna. En ég gleymi áreiðanlega einhverju.

Gamla kerfið

Í hinum hefðbundnu atvinnugreinum er allt við hið sama, en raunar versnandi að sumu leyti.

Ríkisstjórnin þarf að fá ítrekuð skammarhöfuðhögg frá dómstólum til þess að fylgja alþjóðasamningum um innflutning á fersku kjöti. Hún hlýðir þó ekki nema með hangandi haus og kunnuglegum tilraunum til undanbragða.

Þetta gerist á sama tíma og kaupmenn segja Íslendinga ekki munu fá lambahrygg lungann úr sumrinu. Skýringin? Jú, það er svo mikið flutt af honum til útlanda á niðurgreiddu verði. Mættum við þá kannske flytja inn slíkt kjöt í staðinn? Ne-ei, segir ríkisstjórnin. Duga ykkur ekki lærissneiðar eða skankar?

Þetta er bæði arfavitlaus pólitík og mjög slæm hagfræði, og er sannarlega ekki sauðfjárbændum til hagsbóta, en það má ekki á milli sjá hver ríkisstjórnarflokkanna styður þessa stefnu mest. Keppnin er hörð á milli Framsóknarflokksins og Vinstri grænna, sem segjast þó stundum vera talsmenn launafólks og neytenda.

Þetta er aðeins eitt dæmi, þar sem hagsmunir bænda og neytenda fara saman, en gamla kerfið segir nei.

Ríkisstjórn Vinstri grænna neitar að hækka greiðslur frá útgerðinni fyrir aðgang að auðlindinni okkar, fiskinum. En það sem verra er – hún vill bæta nýrri fisktegund, makrílnum, inn í kvótakerfið. Sumsé úthluta þeim, sem hafa veitt makríl að ráði undanfarin ár, kvóta í samræmi við „veiðireynslu“ svona nokkurn veginn.

Hin leiðin væri að bjóða þessar veiðiheimildir upp á markaði og láta útgerðarfyrirtækin keppa um þær. Það hafa aðrir gert og með góðum árangri. Slíkt er kallað markaðslausn.

Nú þarf ekki að koma á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn hafni markaðslausnum ef þær ógna hagsmunum umbjóðenda hans, en mig minnir að ég hafi einhvern tímann heyrt Vinstri græn tala um nauðsyn þess að þjóðin nyti sem mests arðs af auðlindum sínum.

Leiðin til þess er að láta kapítalistana keppa sín á milli um þessi verðmæti, en ekki afhenda þau til viðvarandi afnota á verði sem alþingismenn ákveða. Og gefa þar með kapítalistunum færi á að selja kvótann – óveiddan fiskinn í sjónum – við miklu hærra verði eins og dæmin sanna.

Það kallast að gefa fyrirtækjum verðmæti í eigu þjóðarinnar og einu sinni, hugsanlega tvisvar, heyrði ég Vinstri græn segja að það væri almennt frekar slæm hugmynd.

Gamla kerfið

Nú þegar blæs ögn á móti í efnahagsmálum þarf ríkisstjórnin vitaskuld að endurskoða fjármálaáætlun ríkisins. Skiljanlega. Og hún segist þurfa að rifa seglin.

Þau eru sannarlega rifuð. Þar er sárast að horfa upp á svikin loforð við lífeyrisþega, hvort heldur er óvinnufæra eða aldraða.

Á Íslandi er nefnilega – þið afsakið orðbragðið, en þetta er svona – á Íslandi er til skítnóg af peningum, en samt eru þúsundir fátækar og fátæk börn skipta líka þúsundum. Það er nóg til þess að græta sæmilega normalt fólk.

Og hvað gerir svo ríkisstjórn Vinstri grænna þegar gefur örlítið á bátinn? Hún hættir við útgjöld í mikilvægustu málaflokkum. Jú, ég veit að það er samt aukning víða, en hún er fjarri því að nálgast það einu sinni að vera nægileg. Hvað þá skynsamleg eða mannsæmandi.

En það var þetta með skítnóg af peningum. Í dag fengu eigendur Bláa lónsins sirka 4,3 milljarða í arð frá fyrirtæki sínu. Það græddi að vísu bara 3,7 milljarða á síðasta ári, en þessar eru arðgreiðslurnar. Við hin reynum bara að hlæja ekki.

Sjálfsagt er að fagna því að útisundlaug með viðbyggðu hóteli og annarri þjónustu græði svona temmilega, sem bendir ótvírætt til þess að samkeppnin sé mikil og verðlagningin hófleg. Gáum þó að öðru.

Katrín Jakobsdóttir stærði sig af því í ræðu í vetur að ríkisstjórnin hefði hækkað fjármagnstekjuskatt um tíu prósent. Það er tæknilega rétt, en blekking samt. Skatturinn hækkaði nefnilega úr 20% í 22%. Það er tæknilega típrósent, en samt bara tvö prósentustig.

Fjármagnstekjuskattur leggst einmitt á arðgreiðslur eins og þessar frá Bláa lóninu. Og aðrar slíkar.

Nú er ég ekki eins lipur með reiknivél og Gunnar Smári, en þetta get ég reiknað:

Ef fjármagnseigendur greiddu sama skatt af tekjum sínum og launþegar – sirka 37 prósent – væru tekjur ríkissjóðs af arðgreiðslum Bláa lónsins ekki tæpur milljarður, heldur 1,6 milljarðar. Eigendur Bláa lónsins fengju samt 2,7 milljarða í sinn hlut, en þau væru svosum ekki ofhaldin af því.

Þetta er aðeins eitt fyrirtæki, og eru þá ótaldir útgerðarrisarnir og öll hin. Lauslegir máladeildarútreikningar mínir sýna að ef kapítalistarnir borguðu sama skatt af tekjum sínum og venjulegt launafólk fengi ríkissjóður sirka 30 milljarða aukalega í sinn hlut. Mjög sennilega meira. Á ári.

Og hver var aftur fjárhæðin sem ríkisstjórn Vinstri grænna telur sig nú tilneydda að svíkja öryrkja um? Samkvæmt nýjustu tölum er það tæpur milljarður á ári. Vonandi er það bara ömurlega ófyndin tilviljun að þetta er einmitt sama talan og bara arðgreiðslur Bláa lónsins skila til samfélagsins.

Ég veit hver röksemd sjálfstæðismanna er í þessu máli: Ef við skattleggjum fjármagnstekjur svona hátt, þá fer fólk með peningana sína úr landi.  (Í tilviki Bláa lónsins liggur þetta í orðum eigendanna: Okkur duga ekki 2,7 milljarðar. Við þurfum miklu meira. Annars fer allt í voða.)

Einmitt og jájá. Þegar fjármagnstekjuskattur var hér lægstur á bóluárunum settu íslenzkir kapítalistar heimsmet í því að flytja peningana sína í skattaskjól, líka Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Þar var ekki skattaánauð um að kenna.

Sú hegðun kallast græðgi og alger skortur á þeirri hugsun, að maður sjálfur eða fyrirtæki manns sé hluti af samfélagi. Og eins og til þess að reka endanlega framan í okkur löngutöng hélt borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Júlíus Vífill Ingvarsson, enn áfram að skjóta peningum undan til útlanda löngu eftir Hrun. Og hann átti ekki einu sinni þá peninga.

Ég veit ekki margt, en ég vissi ekki að það væri erindi Vinstri grænna að viðhalda hinu gamla kerfi Sjálfstæðisflokksins, um að launþegar borgi og fátækt fólk blæði, á meðan kapítalistarnir sleppa alltaf.

Gamla kerfið

Ég þykist líka þekkja andmæli Vinstri grænna: Við erum í ríkisstjórnarsamstarfi, við þurfum að gera málamiðlanir og náum ekki öllu okkar fram.

Jájá, og með fullri virðingu: Ble. Annarra kosta er nefnilega völ en að láta Sjálfstæðisflokkinn stjórna landinu.

Þessi grein er þegar orðin of löng til þess að rekja fleiri dæmi og við erum ekki einu sinni byrjuð á nýrri stjórnarskrá, sem er sennilega í traustum höndum Birgis Ármannssonar, fulltrúa ógreiddra.

Eitt öðruvísi er þó eftir:

Vinstri græn hafa látið það átölulaust að þingmaður Sjálfstæðisflokksins geri ríkissjóð að einkabanka sínum í gegnum kostnaðargreiðslur alþingis. Um Ásmund Friðriksson þarf ekki að fjölyrða, en forsætisnefnd alþingis undir stjórn Steingríms Joð Sigfússonar hefur staðfest að þingmaður Pírata hafi broti siðareglur með því að benda á hið augljósa, að þetta ítrekaða athæfi (þar sem þingmaðurinn skammaðist nauðugur til þess að endurgreiða hluta þýfisins) þurfi rannsóknar við.

Einhvern tímann, en mjög hugsanlega misminnir mig, einhvern tímann heyrði ég mögulegan frambjóðanda Vinstri grænna nefna, að slíkt og þvíumlíkt væri ekki í lagi. Gott ef hann minntist ekki eitthvað á virðingu alþingis í forbifarten.

Þetta var – ef mig er þá ekki að misminna – reyndar ekki Steingrímur Joð Sigfússon.

Kannske Katrín Jakobsdóttir, en þó varla.

Hún hefur nefnilega ákveðið að sitja keik yfir gamla kerfinu. Jú, hún hefur náð fram ýmsum umbótum í jafnrétti og mannréttindum, en kapítalistunum er svo ósköp slétt sama um þetta kynja-þarna-eitthvað. Nema þegar það kostar þá peninga.

Það þýðir ekkert fyrir Katrínu eða Vinstri græn að skýla sér á bak við ríkisstjórnarsamstarf og málamiðlanir.

Það var og er meðvituð ákvörðun að velja gamla kerfið og verja gamla kerfið.

Og það er ákaflega vond og mannskemmandi pólitík.

Karl Th. Birgisson

1,966