trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/12/2019

Gamalt ofbeldi og nýtt

Karl Th. Birgisson skrifar

Reglulega rifjast upp að við lærum ekkert.

Nú höfum við fregnir af því að nokkrir ungir tónlistarmenn hvetji aðdáendur sína til að kasta eggjum og hafa í frammi aðra óboðlega hegðun við heimili ritstjóra DV.

Ástæðan? Jú, DV birti á dögunum myndir af meintum híbýlum allmargra tónlistarmanna, og sitthvað fleira. Sumum þeirra mislíkaði greinin og þetta voru viðbrögðin.

Einmitt. Við erum svona aldeilis frábær. Ennþá.

Hópur fólks tók nefnilega upp á því í kjölfar Hrunsins að sitja um heimili nokkurra stjórnmálamanna, hrópa ókvæðisorð og ógna heimilisfriði. Sérstaklega heimili kvenna.

Ég nefni bara Steinunni Valdísi Óskarsdóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Unga tónlistarfólkið núna hafði sennilega varla lokið grunnskóla þegar það horfði á þessa hegðun í sjónvarpsfréttum án þess að margir gerðu athugasemd við hana, aðrir en þeir sem urðu fyrir henni. Hún var samt ekkert annað en ofbeldi.

Og nú eru viðbrögðin þessi: Rjúfum friðhelgi heimilis ritstjóra DV vegna þess sem birtist í blaði hennar. Reiðin finnur sér aftur farveg í ofbeldi eins og það sé bara alltílæ.

Köstum eggjum í hús alveg óháð því hvort viðkomandi eða einhverjir aðrir eru þar innan dyra. Til dæmis börn.

Þungarokkshátíðin Eistnaflug í Neskaupstað á sér frábært kjörorð: „Ekki vera fáviti.“ Mjög líklega hefur enginn þessara ungu tónlistarmanna komið fram þar.

Svo er nú hitt. Fólk hefur rétt til að tjá sig án þess að verða fyrir ofbeldi. Punktur.

Meiraðsegja banal gægjugrein með myndum af húsum tekur þann rétt ekki af neinum. Ekki einu sinni ritstjóra DV.

Þetta ættu þeir öðrum fremur að vita og skilja sem hafa beinlínis atvinnu af því að tjá sig. Í þessu tilviki ungir tónlistarmenn, sem sumir vilja áreiðanlega rugga bátum eða jafnvel stuða okkur öll með textum sínum.

En nei: Þeir vilja ógna fólki og refsa því þannig fyrir að nota tjáningarfrelsi sitt með því að ráðast að heimilum. Af því að þeir sjálfir eru svona svakalega pissed.

Nú væri freistandi að láta þessa grein heita Ofbeldi fávitanna, en ég ætla að stilla mig um það.

Við ættum ekki að þurfa slíkt orðbragð til að minna okkur á að ofbeldi er ofbeldi, og að það er aldrei í lagi.

Karl Th. Birgisson

1,878