trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 09/04/2014

Fyrirtækið Ísland ehf.

Stjórnarþingmenn kvarta sárum yfir því hvað þjóðin sé fúl og leiðinleg. Þeir vilja að hún gleðjist yfir því að það séu „stórkostlegir hlutir raunverulega að gerast […]á Alþingi“. Þeir skilja ekki af hverju við skiljum þetta ekki.Þórður Snær

En það er klárt að þjóðin skilur þetta ekki. Henni finnst ekkert af þessu sem fyrir hana er borið vera stórkostlegt. Mat fólks á stórkostlegheitum er enda misjafnt. Það sem einum finnst dásemd, til dæmis áburðarverksmiðja upp á 120 milljarða af skattfé, finnst næsta manni holdgerving ömulegrar framtíðarsýnar.

Vondar pólitískar vörur niðurgreiddar

Ýmis þjóðþrifamál sem ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á, sérstaklega tengd kvótakerfinu og gjaldtöku fyrir afnot að auðlindum og ríkisstyrktu landbúnaðarkerfi, hafa aldrei skorað hátt hjá þjóðinni. Kannanir í gegnum tíðina sýna allt að 70 prósent andstöðu við fyrirkomulag fiskveiða og hvernig auðmyndun vegna þeirra dreifist. Því var alltaf ljóst að ríkisstjórnin þyrfti að ganga ansi mikið á pólitíska inneign sína til að halda hlífðarskildi yfir þeim sérhagsmunum sem eru undir við að halda þessum tveimur kerfum eins niðurnjörvuðum og mögulegt er. Þ.e. fyrir utan lækkun veiðigjalda.

Til að niðurgreiða þessar pólitísku vörur sem þjóðin er nauðbeygð til að neyta í krafti niðurstöðu síðustu kosninga, átti maður von á því að ríkisstjórnin myndi leggja ofuráherslu á að búa til pólitískan ágóða með öðrum vörum. Það hefur sannarlega ekki gengið eftir.

Fimmti hver vill hætta aðildarviðræðum

Nú um stundir birtist hvert matið á fætur öðru á frammistöðu ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt könnun Capacent sem birt var um miðjan marsmánuð kom til að mynda fram að 72 prósent aðspurðra vildi að framhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið yrði borið undir þjóðaratkvæði. 21 prósent var á móti því. Í höfuðborginni Reykjavík og hjá landsmönnum sem eru með háskólapróf er meira að segja meirihluti fyrir því að ganga inn í sambandið núna, án þess að samningur liggi fyrir.

Þessi könnun var gerð nokkrum dögum eftir að Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu um að draga umsókn um aðild til baka. Þessi vörulína utanríkisráðherrans féll því ekki í kramið. Augljóst var að markaðsdeildin vann ekki heimavinnuna sína því það er ekki oft sem neytendur flykkjast vikulega fyrir utan verksmiðjuna til að mótmæla óbragðinu af einni tiltekinni vöru.  Hún þótti einfaldlega alls ekki stórkostleg. Og þjóðin gladdist ekki yfir henni.

Um fjórðungur ánægður með heimsmetið

Hvað gerir fyrirtæki sem hefur sett vonda vöru á markað? Það reynir að laga skaðan með því að koma með aðra betri. Jafnvel vöru sem neytendum hefur verið lofað að sé á leiðinni og hefur verið í leynilegri þróun mánuðum saman. Vara sem er best í heimi. Setur meira að segja heimsmet í að vera best í heimi. Vara sem snýst um að gefa peninga úr ríkissjóði til fullt af fólki sem þarf margt hvert ekkert á þeim að halda.

Í mars var hulunni loks svipt af skuldaniðurfellingunum. Nú miðuðu þær ekki lengur við neins konar forsendubrest heldur einvörðungu því að uppfylla leifarnar af kosningaloforði Framsóknar. Nýjustu mælingar sýna hins vegar að þjóðin er ekkert sérstaklega ánægð með afraksturinn. Þvert á móti.

Í síðustu viku birti MMR niðurstöður könnunar sinnar um hvaða áhrif almenningur telji að skuldaniðurfellingarfrumvörpin muni hafa á íslenskt efnahagslíf. Niðurstaðan var sú að 55,5 prósent töldu þær ekki hafa nein eða neikvæð áhrif. Einungis 44,5 prósent töldu að þau yrðu jákvæð.

En hvað veit þjóðin um efnahagsmál? Þessi meirihluti tilheyrir örugglega bara hópnum sem forsætisráðherra segir að tali markvisst niður Ísland. Sem má ekki heyra á það minnst að hér séu tækfæri og að við séum að gera eitthvað rétt. Hann sér aldrei hið stórkostlega í valdboðinu.

MMR kannaði líka ánægju almennings með skuldalækkanirnar sjálfrar. Þar var niðurstaðan enn meira afgerandi. Einungis 27,5 prósent svarenda voru ánægðir með heimsmetið. 72,5 prósent voru annað hvort óánægðir (47,3 prósent) eða einfaldlega skítsama (25,2 prósent).

Þegar minnihluti þjóðarinnar telur að aðgerð geri efnahagslegt gagn og tæplega ¾ hlutar hennar er ekki ánægt með hana þá er vart hægt að draga aðra ályktun en þá en að vörunni hafi verið rækilega hafnað.

Tveir af hverjum þremur ósáttir með Sigmund Davíð

Og hvernig hefur þetta bras allt saman farið með ásýnd ríkisstjórnarinnar? Hver er skoðun almennings á vörumerkinu ríkisstjórn Íslands? Þegar hvor stjórnarflokkurinn er skoðaður fyrir sig þá eru þeir klárlega í veseni. Sjálfstæðisflokkurinn virðist rótfastur í um 24 prósent fylgi, sem þýðir að meira að segja ekki allir lesendur Morgunblaðsins eru til í að kjósa hann. Framsóknarflokkurinn er kominn aftur niður í það fylgi sem hann var í áður en hann stal Icesave-sigrinum og lofaði peningagjöfum, eða rétt rúmlega 13 prósent. Stuðningur við ríkisstjórnina í heild mælist um 37 prósent.

Ánægja með ráðherranna sjálfa er einnig á hröðu undanhaldi. Stöð 2 mældi hana í febrúarbyrjun. Þá voru 38 prósent aðspurðra ánægðir með Sigmund Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra en 31 prósent þeirra ósáttir. Nú eru 25 prósent sátt með hann en 63 prósent, tveir af hverjum þremur, ósáttir. Óánægðir hafa rúmlega tvöfaldast á tveimur mánuðum.

Staða Sigmundar Davíðs er meira að segja verri en sú sem Jóhanna Sigurðardóttir stóð frammi fyrir um ári eftir að hún tók við embætti forsætisráðherra. Þá voru 27 prósent Íslendinga sáttir með hana en 56 prósent ósáttir. Og forsetinn var nýbúinn að hafna Icesave með allri þeirri dramatík sem því fylgdi.

Verst er þó staða utanríkisráðherra. Einungis 18 prósent eru ánægðir með hann en 65 prósent alls ekki. Færri en tveir af hverjum tíu sjá stórkostlegheitin í honum.

Fyrirtækið Ísland ehf.

Ímyndum okkur að Ísland sé fyrirtæki. Ímyndum okkur að ríkisstjórnin sé framkvæmdastjórn þess fyrirtækis og að stefnumál hennar séu vörurnar sem fyrirtækið framleiði. Væri búið að gefa út afkomuviðvörun? Væri ekki búið að innkalla allar þessar vörur sem markaðurinn hefur hafnað? Væri það fyrirtæki enn í rekstri, og ef svo væri, myndu hluthafar ekki vera að fara á taugum yfir stöðu þess? Myndu þeir, í ljósi þess afleitta frammistöðumats sem þjóðin hefur gefið stjórninni, ekki grípa til einhverra aðgerða þótt að aðalfundur væri ekki fyrirhugaður fyrr en eftir einhver ár? Maður spyr sig.

Þórður Snær Júlíusson, 8. apríl 2014

1,304