trusted online casino malaysia
Fjölmiðlarýni 23/07/2017

Fréttin inni í fréttinni

Fyrir nokkrum áratugum birtust fréttir um að miðaldra lögmaður sæti í gæzluvarðhaldi vegna einhvers svindls.

Nafn mannsins var náttúrlega ekki birt samkvæmt þess tíma siðprýðisreglum um nafnbirtingar.

Afleiðingin var fyrirsjáanlega sú, að miðbærinn fylltist af miðaldra, jakkafataklæddum lögmönnum sem spásseruðu þar um þótt þeir ættu þangað ekkert erindi, annað en það að allur bærinn gæti séð að það væru ekki þeir sem sætu í steininum.

Þeir voru að bjarga mannorði sínu frá afleiðingum furðulegra nafnbirtingarreglna íslenzkra fjölmiðla.

Álíka dæmi eru legíó og rifjast upp nú þegar Fréttablaðið, Stöð 2 og fleiri flytja fréttir af yfirmanni hjá Icelandair, sem er til rannsóknar vegna einhverra meintra lögbrota. Það er hann nefnilega kallaður í öllum fréttum – yfirmaður hjá Icelandair – og ekkert annað.

Hvað eru yfirmenn hjá stórfyrirtækinu Icelandair annars margir? Tólf? Fjörutíu? Jafnvel fleiri, eftir því hvernig hugtakið er skilgreint?

Að óbreyttu er ekkert sem hindrar okkur í að halda um hvern og einn, að hann sé til rannsóknar vegna þessa meinta svindls.

Nema hugsanlega konurnar. Í fréttum er alltaf talað um hann og manninn, og sú kyngreining virðist ekki vísa til yfirmennskunnar.

Hvað eigum við nú að halda eftir þennan fréttaflutning Fréttablaðsins og fleiri? Er Guðjón Arngrímsson til rannsóknar? Það þykir mér afar ólíklegt eftir undantekningalaus ánægjuleg kynni af honum til margra áratuga.

Hvað með þennan Svala þarna, sem talar svo skemmtilega um körfubolta á Stöð 2? Sömuleiðis fremur ósennilegt, en hvað veit maður svosem?

Það er morgunljóst af fréttum að Fréttablaðið/Stöð 2 veit hver maðurinn er. Hvers vegna er nafn hans ekki birt, þótt ekki væri nema til að losa alla hina við kjaftasögurnar um þá?

Hvaða reglur gilda um nafnbirtingar hjá 365? Er ekki nafngreint fyrr en ákæra er gefin út? Ekki fyrr en dómur fellur, svo vísað sé í hlálegar reglur sem sumir settu sér einhvern tímann?

Hvorugt stenzt skoðun og nægir þá að vísa til umfjöllunar um hrunmál og tugafjölda annarra.

Hvers vegna í himninum birta miðlanir ekki nafn mannsins? Hvernig sem ég grufla í hausnum finn ég enga sennilega skýringu, ef þeir vilja á annað borð vera samkvæmir sjálfum sér um nafnbirtingar.

Það er afar dularfull frétt inni í fréttinni.

Karl Th. Birgisson

Flokkun : Pistlar
1,995