trusted online casino malaysia
Fjölmiðlarýni 14/03/2019

Það þarf ekki alltaf falsfréttir

Stundum nægir að segja eitthvað nógu oft og af nógu mikilli sannfæringu, svo að það hljóti eiginlega að vera rétt.

Donald Trump er sérfræðingur í þessari tækni. Að nota sömu lýsingarorðin aftur og aftur, einkum „great“ og svo „tremendous“ þegar hann skortir annað orð. Hugsanlega líka af því að hann kann ekki fleiri.

Ekki vil ég jafna Gunnari Smára Egilssyni við Trump – eða öfugt – en að morgni miðvikudagsins 13. marz birti hann svohljóðandi texta á facebook:

(Og ég tek varla fram að að Gunnar Smári hefur verið ritstjóri fleiri fjölmiðla en nokkur annar núlifandi Íslendingur.)

„Hvað leið langur tími frá því að í ljós kom að Sigríður Andersen hafði leynt þingheimi að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Ben, var einn af stuðningsmönnum barnaníðinga í uppreist-æru-málinu, þar til Bjarni sté loks fram með undarlega ræðu og neitaði svo að svara spurningum blaðamanna? Var það ekki einn og hálfur sólarhringur? Ég spái því að Katrín Jakobsdóttir mun nota sömu forskrift seint í dag og boða blaðamenn á sinn fund svo nálægt fréttum að erfitt sé að leita andsvara fyrir fréttatíma kvöldsins, neita að svara spurningum á fundinum, segjast skilja óróa fólks og vera í raun að verja réttarfarið í landinu með því að styðja Sigríði dómsmálaráðherra til áframhaldandi setu. Það er oft eins og þau Bjarni noti sömu PR-ráðgjafann.“

Jamm, og það er nú svo.

Leiðum endilega hjá okkur spádóminn sjálfan efnislega. Öllum getur orðið á og sérstaklega spámönnum. Það er ótraustur bransi.

Hitt er verra, að í atvikalýsingunni, sem er ætlað að undirbyggja spádóminn, er eiginlega ekki einn sannur stafur.

Ekki ein staðreynd.

Sigríður Andersen leyndi þingheim því aldrei að Benedikt Sveinsson hefði skrifað upp á meðmæli um uppreist æru barnaníðings. Það mál kom aldrei nálægt sölum alþingis og enda bar Sigríði engin skylda til að tilkynna alþingi um hvaða gögn embættismenn hennar höfðu grafið upp (tilneyddir).

Ráðherrann Sigríður hringdi hins vegar í ráðherrann Bjarna Benediktsson snemmsumars 2017 og sagði honum af þessu með pabba hans. Þetta er hægt að gúggla endalaust og er staðfest af báðum ráðherrum.

Leið einn og hálfur sólarhringur þangað til Bjarni Benediktsson sagði eitthvað undarlegt um þetta mál? U – nei. Það er sömuleiðis hreinn uppspuni.

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra fékk þessar upplýsingar frá Sigríði Andersen dómsmálaráðherra þarna snemma um sumarið, en ákvað að segja félögum sínum í ríkisstjórninni ekki frá þeim. Þetta voru Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé.

Það var ekki fyrr en um haustið, nánar tiltekið í september 2017,  sem Bjarni neyddist til þess að ámálga þetta við þá Benedikt og Óttar, en sagði þeim samt ekki hreinskilnislega hvernig í málinu lá. Ekki einu sinni þá. Þess vegna féll ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar.

Allt er þetta skjalfest og staðfest á alla kanta.

Atvikalýsing Gunnars Smára er semsagt röng frá fyrsta staf til hins síðasta.

En hún hljómar þokkalega, af því að hún er flutt af þrótti og flestir hafa gleymt því sem gerðist raunverulega.

Það er einn vandi okkar samtíma.

Það eru innan við tvö ár frá atburðarásinni sem Gunnar Smári „lýsti“ svo ævintýralega ranglega. Samt virðist fjöldi fólks vera tilbúinn að trúa þessu rugli sem sannleika.

Eflaust þykir mörgum Wintris og Panama-skjölin líka vera partur af gamalli Íslandssögu. Frá þeim eru samt ekki liðin fjögur ár. Ekki eitt kjörtímabil alþingis. Sigmundur Davíð gæti líklega óáreittur spunnið upp enn ein ósannindin í því máli og margir myndu kinka kolli. „Já, auðvitað var þetta svona.“

Við nefnum varla Klaustur, sem átti sér mjög sennilega stað í hitteðfyrra í huga sumra.

Það þarf ekki upplognar fréttir fjölmiðla til þess að grafa undan lýðræðinu með staðleysum. Í okkar litla tilviki þarf bara nokkra kalla á facebook, með reiknivél uppi við og algert skeytingarleysi fyrir staðreyndum, til þess að gera þvælu að staðreyndum – og öfugt.

Þar eru Gunnar Smári og nokkrir andlegir bræður hans háværustu hanarnir, hver á sínum haug.

Svo klöppum við fyrir galinu eins og það sé ekki galið.

Það er í alvörunni vandamál.

Karl Th. Birgisson

Flokkun : Pistlar
1,824