trusted online casino malaysia
Úlfar Þormóðsson 12/01/2015

Fréttafrelsi

 

Það kom í ljós um um helgina að Sigmundur Davíð gat ekki verið í París á sunnudaginn var vegna þess að hann fékk ekki að vita af því fyrr en á föstudag að honum hafði verið boðið þangað og vissi ekki hvernig hann ætti að komast svona langtá svo stuttum tíma.

Bátur

Ólafur Ragnar komst ekki heldur til Parísar. Hann var upptekinn við að skýra fyrir Guðna Ágústssyni gildi snjallsíma og spjalla við hann um „hinn góða íslenska mat“ á lokuðum fundi þeirra tveggja á Bessastöðum samkvæmt því sem dregið var upp úr Guðna í netmiðli.

Það varð ljóst einhvern þessara daga, að óvíst er að atvinnuleysi hafi minnkað eins mikið og af er látið því að öryrkum hefur því miður fjölgað. Þeir eru margir hverjir atvinnulausir og teljast ekki með fullfrískum atvinnuleysingjum.

Ríkisstjórnin var komin mun nær því, en haldið var fyrir helgi, að leggja heilbrigðiskerfið í rúst þegar hún hundskaðist loks til þess að semja við lækna með því að lofa upp í ermina á sér og þröngvaði inn í samningana ákvæðum um aukna einkavæðingu kerfisins.

Hinn mikli hagvöxtur síðasta árs, sem ráðherrar grobba af, er ef til vill allur annar en þeir geipa um. Reiknimeistarar spyrja nú hver annan og sjálfa sig: Var hann 2,7 – 2,8% þegar hann er ekki nema 0,5% miðað við sama tímabil 2013? Hvort er hann þá 1,5 eða 2%?  Óx vöxturinn eða dró úr honum? Þrátt fyrir efasemdir sjálfra sín segist hver þeirra standa við sinn útreikning og bæta svo við sameiginlegum huggunarorðum til okkar sem rétt svo kunnum litlu margföldunartöfluna: „Við höfum ekki stórar áhyggjur af þessu“.

Loks má svo geta þess að hrískotabyssurnar, sem yfirvöld sníktu í Noregi og ætluðu að lauma í hendurnar á lögreglunni án það almenningur vissi af því fyrr en hann stæði frammi fyrir kjöftunum á þeim, eru enn á landinu. Þær eru í nú vörslu Landhelgisgæslunnar, tveimur mánuðum eftir að yfirlýsing var gefin út um að þeim yrði skilað af því að þær fengust ekki ókeypis þegar allt kom til alls.

Í tilefni atburðanna í Frakklandi og umræðunnar síðustu viku er rétt að geta þess að vafasamt má telja að þessar upplýsingar hefðu ratað fram úr skúmaskotum stjórnsýslunnar ef kristileg „samstaða“ hefði náðst um að halda ekki uppi „neikvæðri gagnrýni“, eins og almenn upplýsing heitir úr munni forseta lýðveldisins.

Latest posts by Úlfar Þormóðsson (see all)
Flokkun : Pistlar
1,548