trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 16/02/2018

Frá Ísafirði suður að Reynivöllum – Kveðja til þjóðskálds frá vini

Guðjón Friðriksson skrifar

Mér er tregt tungu að hræra þegar ég stend hér við kistu vinar míns og vinar okkar, Þorsteins skálds frá Hamri.

Hann er horfinn, dáinn, þessi heiti og umfaðmandi maður sem var okkur svo mikið. „Málsvari mannlegrar reisnar“, eins og eitt sinn var skrifað um hann. Djúp og hlý rödd Þorsteins er þögnuð.

Samt mun hún hljóma áfram og fylgja okkur.

Ég leyfi mér að vitna í orð Vésteins Ólasonar prófessors sem hann lét falla við andlát skáldsins. Hann sagði að rödd Þorsteins hefði verið mikilvægur tónn í sinfóníu lífsins, ekki sá sem hæst lét en þó var hann þarna og snart mann eins og sellóstrengur væri strokinn, ástríðufullur með mjúku og öguðu yfirbragði.

Þorsteinn var fæddur 15. mars 1938 á Hamri í Þverárhlíð í Borgarfirði, sonur hjónanna þar, Jóns Leví Þorsteinssonar og Guðrúnar Sveinrúnar Þorleifsdóttur en hún var ættuð frá Norðfirði. Hann var þannig borgfirskrar og austfirskrar ættar. Þeir voru tveir bræðurnir frá Hamri. Fjórum árum yngri en Þorsteinn er Þórarinn, fyrrverandi bóndi á Hamri, nú búsettur í Borgarnesi.

Þó að foreldrar Þorsteins fengjust ekkert við skáldskap, hann vissi aldrei til þess að þau settu saman stöku, hneigðist hugur hans þegar á barnsaldri til bókmennta. Hann fór að fást við vísnagerð 7-8 ára gamall og um fermingu hafði hann lesið öll fornritin, þjóðsögur og sagnir og hvaðeina sem hann komst í. Þannig rann menning Íslands, forn og ný, honum í blóð og merg. Og skáldin vitjuðu hans. Jónas og Kristján Fjallaskáld og líkt og hjá Ólafi Kárasyni í Heimsljósi.kom Sigurður Breiðfjörð til hans í gullinni reið ofan af himnum. Þorsteinn galt Sigurði með kvæði í fyrstu ljóðabók sinni.

Úr því er þetta erindi:

Sem svanafjöður ósnert ein í væng
í utanflugi datt úr blámans geimi
og hrakinn smala hreif á mosasæng.

Þannig kom mjöður Óðins til smalans Þorsteins.

Sem unglingur orti Þorsteinn rímur af miklu kappi, feiknin öll að eigin sögn, og fjölluðu þær um bændurna í sveitinni og voru í þeim voru mikil hjaðningavíg að því er hann sagði síðar en sem betur fór komust bændurnir aldrei aldrei í rímurnar, sagði hann. Þær hurfu að lokum undir græna torfu.

Einhverjar spurnir fóru þó af skáldskap Þorsteins út í sveitir því að stórskáldið Guðmundur Böðvarsson á Kirkjubóli í Hvítársíðu hafði látið svo ummælt um strákinn frá Hamri að hann vildi verða skáld en vissi ekki að hann væri skáld.

Þrettán ára gamall hleypti Þorsteinn heimdraganum og stundaði nám í Héraðsskólanum í Reykholti næstu þrjá vetur. Þaðan lauk hann landsprófi og hélt að því búnu til Reykjavíkur þar sem hann innritaðist í Kennaraskólann. Ekki ætlaði hann samt að verða kennari og entist ekki í skólanum nema á þriðja vetur. Honum fannst lítið til kennslunnar koma, einkum í sögu þar sem nemendur áttu að læra þulur um kónga og herforingja í stað þess að fræðast um líf alþýðu.

Fjótlega eftir að Þorsteinn kom til Reykjavíkur komst hann í kynni við skáld og listamenn sem finna mátti á kaffihúsum bæjarins; Miðgarði, Laugavegi 11, Skálanum og loks Mokka. Meðal annarra náði hann að kynnast Steini Steinarr, áður en hann var allur. Um tvítugt tók Þorsteinn að gefa út bókmenntatímaritið Forspil með Jóhanni Hjálmarssyni, Ara Jósefssyni, Þóru Elfu Björnsson, Atli Heimi Sveinssyni, Degi Sigurðarsyni og Úlfi Hjörvar. Þetta var skáldaklíkan en í henni voru reyndar mörg önnur skáld. Tvö tölublöð komu út af Forspili.

Þorsteinn var ekki orðinn tvítugur þegar fyrsta ljóðabók hans, Í svörtum kufli, kom út hjá Helgafelli, bókaforlagi Ragnars í Smára. Hann var þá strax orðinn óvenjulega þroskað og agað skáld og vakti bókin mikla athygli þó að sumir gagnrýnendur þættust sjá annmarka á sumum kvæðanna. Einar Bragi sagði í ritdómi að margur, sem síðar reyndist liðtækur ljóðamaður, hefði ekki um tvítugt komist með tærnar þangað sem Þorsteinn hafði þá hælana.

Þorsteinn var orðinn uppreisnarmaður sem vildi storka og hneyksla. Á einum stað í fyrstu ljóðabókinni segir: „Ég væri því ekki frábitinn að storka lýðnum í kvöld“ og á öðrum „Ég hneykslið í svörtum kufli fer um sviðið auða“.

Fáum sem kynntust Þorsteini dettur þó í hug brjálaður uppreisnarseggur. Yfirlætislausari, orðvarari og umtalsbetri manni hef ég ekki kynnst. Hann talaði ekki illa um nokkurn mann. En undir hljóðlátu yfirborðinu ólgaði sterk réttlætiskennd.

Í annarri ljóðabók sinni, sem kom út 1960, skipaði Þorsteinn sér á fremsta skáldabekk. Og nú var hann að mestu búinn að kasta stuðlum og rími, sem nokkuð hafði borið á í fyrstu bókinni, og orðinn nútímaskáld eins og nafn hennar ber með sér, Tannfé handa nýjum heimi.

Síðan rak hverja ljóðabókin aðra uns þær urðu 26 að lokum. Ég fer að dæmi Þorsteins sjálfs þegar hann mælti eftir vin sinn, Sigfús Daðason, að fara hér sem fæstum orðum þann stóra galdur sem liggur í orðknöppum ljóðum hans. Þau koma ekki alltaf strax á móti manni en eru því auðugri að visku og íþrótt sem maður les betur og oftar.

Þorsteinn var róttækur maður í skoðunum. Hann var þó íhaldssamur maður að því leyti að hann leit á menningararfinn sem skilyrði fyrir því að við gætum haldið áfram sem íslensk þjóð og það var honum ofar flestu. Strax í elstu ljóðum hans kemur einnig fram sterk meðlíðan með náttúru landsins sem græðgi mannsins veður yfir með skurðgröfum sínum og fyrirhyggjuleysi. Þannig var hann umhverfissinni, kannski langt á undan sinni samtíð. Hann fyrirleit allt hernaðarbrölt og tók virkan þátt í baráttu hernámsandstæðinga.

Ljóð hans voru og eru sem samviska þjóðarinnar.

Auk ljóðabókanna komu út eftir hann þrjár nýstárlegar skáldsögur en einnig samdi hann sagnaþætti um alþýðufólk sem hann flutti í útvarpi, birti í blöðum og tímaritum og á bók. Hann þýddi fjölmargar bækur, ekki síst fyrir börn, og fékkst við prófarkalestur. Eina fasta starfið sem hann hafði um ævina var á Bókasafni Kópavogs þar sem hann var aðstoðarbókavörður hjá skáldinu Jóni úr Vör á árunum 1961-1967.

Þorsteinn var módernisti í ljóða-og sagnagerð en hann sótti list sína og visku langt aftan úr djúpi tímans. Þó að hann viki frá gamla skáldskaparforminu eru í kvæðum hans fjölmargar tilvísanir til fornra sagna og skáldskaparmála. Brageyra hans var óskeikult og hann átti það til að láta vísur fljúga. Einhverju sinni lét hann mig hafa fjölrit af rímum sem hann og Sveinbjörn Beinteinsson höfðu verið að skemmta sér við að yrkja í sameiningu um þá skáldfélaga Jón frá Pálmholti og Jónas Svafár, Jóns rímur og Jónasar. Þær eru dýrt kveðnar en hafa aldrei verið birtar.

Fljótlega eftir að Þorsteinn kom til Reykjavíkur kornungur maður hitti hann fyrir skáldkonuna og myndlistarmanninn Ástu Sigurðardóttur sem var átta árum eldri en hann og þá löngu orðin kunn í bæjarlífinu. Sveitapilturinn uppreisnargjarni varð strax ástfanginn af þessari tigulegu konu og bóhem sem fór ekki alfaraleiðir. Þau Ásta slógu saman reytum og börnin fæddust eitt af öðru. Elst er Dagný kennari, fædd 1958, þá Þórir Jökull prestur í Noregi, fæddur 1959, Böðvar Bjarki stýrimaður og kennari, fæddur 1960, Kolbeinn blaðamaður, fæddur 1962 en yngst Guðný Ása meinatæknir, fædd 1964. Fjölskyldan bjó fyrst við Nesveg en síðan í Kópavogi. Hamingja var í húsi en svo seig á ógæfuhliðina. Að lokum varð Ásta veik og ófær um að annast börn sín. Þeim Þorsteini var ekki skapað nema að skilja.

Þorsteinn sagði mér seinna að hann hefði viljað taka að sér börnin að einhverju eða öllu leyti en fékk engu um það ráðið. Það hefði verið sér afar þungbært að sjá á eftir þeim. Réttur feðra var ekki upp á marga fiska á þeim árum. Hann var þó þakklátur fyrir að börnin fengu að alast upp saman á góðu heimili, á Ökrum á Mýrum. Öll komust þau vel til manns og héldu góðu sambandi við föður sinn.

Þorsteinn giftist eftir þetta Guðrúnu Svövu Svavarsdóttur myndlistarkonu og bjuggu þau lengst af á Baldursgötu í Reykjavík og síðar á Hverfisgötu. Saman eignuðust þau Egil kírópraktor, fæddan 1968, en Þorsteinn ól einnig upp dóttur hennar, Védísi Leifsdóttur, sem lést ung kona.

Ég kynntist Þorsteini fyrst að ráði 1974. Ég bjó þá á Ísafirði en Þorsteinn dvaldi ásamt fjölskyldu sinni tvö sumur í röð í sumarbústað í Dagverðardal í Skutulsfirði og síðan á Seljalandi fyrir innan bæ. Kjartan Ólafsson ritstjóri kynnti okkur og skipti engum togum að upphófst mikill samgangur og sterk vináttubönd mynduðust. Við Þorsteinn rerum út á lognkyrran fjörðinn, reikuðum upp í hlíðar og um móa og grundir og ræddum um skáldskap og gamla örlagaþræði. Okkur féll mætavel saman. Oft var þó Bakkus með í för og stundum fyrirferðarmikill. Við höfðum í ýmsum heitsstrengingum þegar sá gállinn var á okkur, hugðumst m.a. ríða á Arnarvatnsheiði með alvæpni að hætti fornkappa.

Seinna sumarið fórum við öll norður á Hornstrandir í boði Jóhanns Péturssonar vitavarðar og skálds í Hornbjargsvita, fengum far með varðskipinu Tý og áttum þar vikudvöl í dýrlegum fögnuði. Við Þorsteinn vorum saman í uppvaskinu á hverju kvöldi en ekki langt undan voru þeir Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld..

Eitthvað var farið að bresta í hjónaböndum okkar beggja um þær mundir. Guðrún Svava málaði seinna mynd af okkur tveimur þar sem við stóðum á brún Hornbjargs og horfðum út í þokuna.

Eftir að ég flutti til Reykjavíkur var ég heimagangur hjá Þorsteini. Heimilið var stundum eins og járnbrautarstöð, sístreymi af fólki að hitta skáldið. Öllum var vel tekið. Stundum fórum við Þorsteinn á reik. Ég man eftirminnilega heimsókn til Stefáns Harðar Grímssonar skálds og einnig til Ragnars í Smára og Bjargar sem tóku á móti okkur sem stórhöfðingjum. Við ferðuðumst saman um Borgarfjörð, um slóðir Sturlunga og Egilssögu og fórum heim að Hamri. Eitt sinn gengum við Surtshelli endilangan með logandi blys. Þar fóru þeir hönd í hönd feðgarnir, Þorsteinn og Egill.

Gott var að leita til Þorsteins í raunum. Hann hafði ekki mörg orð en hljóðlát nærvera hans og orð, sem báru epli í sér, voru betri en nokkur sálfræðimeðferð. Hann tók mann í fang sér og hélt fast. Gott var að eiga slíkan vin.

Árið 1982 hófst sambúð mín og Hildar konu minnar nær samtímis og þeirra Þorsteins og Laufeyjar Sigurðardóttur fiðluleikara. Vinátta okkar fjögurra var innsigluð með göngu um Leggjarbrjót frá Hvalfirði yfir á Þingvöll sem við fórum í ausandi rigningu og roki á hvítasunnu það ár. Við gistum í Valhöll og daginn eftir gengum við inn allar gjár í sagnagaldri Þorsteins. Ári seinna giftum við Hildur okkur í kyrrþey að Reynivöllum í Kjós. Þorsteinn og Laufey voru svaramenn okkar. Hann las ljóð eftir Jóhannes úr Kötlum en hún spilaði Bach á fiðluna sína. Hvort tveggja ásamt suði flugna sem voru að vakna í gluggakistum fyllti litlu sveitakirkjuna himneskum friði og var gott veganesti á framtíðarveginum.

Æ síðan hafa verið gagnvegir milli fjölskyldnanna og snemma var Bakkusi vísað út sem hverjum öðrum hvimleiðum gesti sem hafði setið of lengi á fleti fyrir. Þau Laufey eignuðust dótturina, Guðrúnu, sem fæddist 1993 og hafa þau átt heimili á Smáragötu en jafnan dvalið á á dýrðarstaðnum Höfða í Mývatnssveit á sumrin. Laufey var ávallt vakin og sofin yfir velferð Þorsteins síns og viðmót hennar bar vott um elsku og umhyggju í hans garð. Guðrún nemur nú spænsku og frönsku við Háskóla Íslands.

Þorsteinn frá Hamri er fyrir löngu orðinn höfuðskáld íslensku þjóðarinnar. Hann hefur hlotið flestar viðurkenningar sem hægt er að veita skáldum hér á landi, notið heiðurslauna frá Alþingi og kvæði hans hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál.

Ljós vinar míns og vinar okkar, Þorsteins skálds frá Hamri, er nú slokknað og hann liggur kaldur nár í kistu. Hann tók síðasta andvarpið í faðmi Laufeyjar og Guðrúnar við sólarupprás sunnudaginn 28, janúar. En þó að jarðvist hans sé lokið mun ljós hans lýsa okkur fram um langan veg.

Hugur minn á þessarri stundu er hjá Laufeyju og öllum börnunum.

Megir þú hvíla í friði, Þorsteinn minn.

———-

Minningarorð í dómkirkjunni í Reykjavík um Þorstein frá Hamri, 13. febrúar 1918

1,612