trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 28/05/2014

„Forsætisráðherra er kríp sem fjölmiðlarnir sköpuðu.“ Eiga fjölmiðlar að forðast frásagnir af öfgaskoðunum og mannhatri?

Mjög skiptar skoðanir eru í samfélaginu um að hversu miklu leyti fjölmiðlar eiga að segja frá „öfgaskoðunum“ og sjónarmiðum jaðarhópa. Einkum hefur þessi umræða magnast eftir að Framsóknarflokkurinn í Reykjavík gerði andstöðu við byggingu mosku að málefni sínu í aðdraganda kosninga.GSE og JBG

Sumir telja málefnið upphlaup sem dragi athygli frá öðrum og mikilvægari efnum sem skipti borgarbúa meira máli. Aðrir telja moskumálið snúast um grundvallaratriði og gott sé að tækifæri gefist til að ræða það.

Á facebook er rúmlega tvö þúsund manna hópur sem kallast „Fjölmiðlanördar“ og ræðir mjög mál þeim tengd. Þar fór fram í dag mjög afdráttarlaus umræða um hlutverk fjölmiðla að þessu leyti. Öðrum megin hryggjar var Gunnar Smári Egilsson fjölmiðlamaður til margra ára, en hinum megin Jakob Bjarnar Grétarsson blaðamaður hjá 365, sem mikið hefur skrifað um moskumálið. Fleiri blönduðu sér í umræðuna, en hér verða þeir tveir fulltrúar öndverðra sjónarmiða, þ.e. að hversu miklu leyti fjölmiðlar eiga að spegla umræðuna í landinu eða hvort þeir eiga að reyna að móta hana og beina í tiltekna farvegi.

Spurt var meðal Fjölmiðlanörda:

Hvernig stendur á því að fjölmiðlar hafa leyft Framsókn að hertaka alla umræðu rétt fyrir kosningar með máli sem skiptir engu fyrir heill borgarbúa (og sem er þegar löngu afgreitt)? Eru ekki aðrir og mikilvægari hlutir sem fréttamenn ættu frekar að einbeita sér að og inna pólitíkur um? Þetta moskumál er alger ekki-frétt og hefði aldrei átt að ná þessum hæðum, eða réttara sagt lægðum. Fréttamenn eiga ekki að gefa rasistum svona flott sápubox til að æpa óhróður sinn.

Gunnar Smári:

Ef einhver tilgangur er með hliðvörslu-fjölmiðlum er hann sá að halda svona vitleysu úti. Það sýnir hins vegar að hliðvörslu-miðlarnir hafa gefist upp fyrir Facebook að það eru gömlu hliðvörslu-miðlarnir sem í raun drífa þetta rugl áfram á meðan fólk reynir að rétta við kúrsinn á Facebook.

Gömlu hliðvörslu-miðlarnir eru helstu ruglarar umræðunnar; helsti skítadreifarinn situr á hæsta ritstjórastólnum. Það er því óraunsætt að gömlu miðlarnir nái að afrugla umræðuna. Það er frekar von um að fólki takist að temja ruglið í sínu eigin rými á netinu. Það stafar raunveruleg hætta af gömlu miðlunum í falli þeirra ekkert síður en Framsókn í hennar falli. Þessi fyrirbrigði grípa inn í hverja skítakompu í von um líftaug. Segið því upp öllum áskriftum! Dragið úr valdi gömlu miðlana í umræðunni. Það er fyrsta skrefið í átt að skárra samfélagi. […]

Það er eins og Íslendingar sjái enga ástæðu til að ræða það sem er eða það sem þarf að gera. Allir eru uppteknir af því sem einhver sagði og því sem einhver svaraði honum. Það er eins og íslenskt fréttaumhverfi sé byggt á gaspri og blaðamenn geri ekki þá kröfu til sín að birta mynd af veröldinni fyrir utan höfuðið á þeim sem eru í minnsta jafnvæginu. Ísland virkar á mann sem geðsjúklingur. […]

Það var í boði fjölmiðla sem kosningabaráttan síðasta snérist um stökkbreytingar og forsendubresti svo engin alvörumál komust að. Og það var í boði fjölmiðla sem um 18% fylgissveifla í átt til Framsóknar, Dögunar, Flokks heimilanna og annarra popúlistaframboða var túlkuð sem krafa þjóðarinnar um enn eina millifærsluna í boði Framsóknar. […]

Það að kalla mann í framboði fyrir Framsókn í Reykjavík stjórnmálamann er yfirvarp til að gera þvælu að frétt. Ef þetta snýst um Framsókn er eina fréttin sú að forsætisráðherra Íslands treystir sér ekki að hafna tillögum flokksmanna um skipulögð mannréttindabrot á minnihlutahópum, einn forsætisráðherra í okkar heimshluta. En sá maður varð forsætisráðherra í boði fjölmiðla sem treystu sér ekki til að halda lágmarks viti í umræðunni; hann er kríp sem fjölmiðlarnir sköpuðu.

Jakob Bjarnar:

Skemmtilegar umræður og athyglisverðar og ef ég reyni að súmmera þetta upp þá bera fjölmiðlar ábyrgð á því ófremdarástandi sem nú ríkir – augljóslega. Þeir hafa staðnað og reyndar versnað til muna síðan Gunnar Smári var og hét; en hann sjálfur hefur tekið risastökk framávið í þroska. Og áttað sig á því að hann hefur vaðið villu og svíma en sér nú ljósið. Og því sem slíku hljóta allir almennilegir menn að fagna – og ég vil nota tækifærið og óska honum til hamingju með það.

Gunnar Smári telur að fjölmiðlar eigi að hafa afdráttarlaus mótunaráhrif í samfélaginu, hafa vit fyrir vitleysingunum og teyma þá til góðs (hvernig sem ber að meta það), til dæmis með að þegja yfir því sem óhollt er fyrir fólk að spekúlera í; þó þar liggi greinanlegur áhugi. Fremur en greina frá því sem fyrir augu ber.

Smári er sem sagt að mölbrjóta speglakenninguna og vill hverfa aftur til þeirra hugmynda sem til dæmis bjuggu að baki Prövdu: Almenningur hefur ekki gott af því að vita allt, áhugasvið almennings eiga ekki að hafa mótandi áhrif á umfjöllunarefni fjölmiðla – heldur eiga fjölmiðlar að segja almenningi á hverju hann á að hafa áhuga. Sem er … interesting.

Gunnar Smári:

Jakob telur sig þjóna eftirspurn með því að ýta undir mannhaturssjónarmið minnipokafólks og gera þau þar með gjaldgeng í umræðunni. Og í raun gjaldgengari en venjulegri, hefðbundnari og algengari skoðanir sem eru ekki eins árásargjarnar, hatursfullar og meiðandi og þar af leiðandi ekki eins spennandi í því forarvilpublaðamennskuplani sem Jakob vill draga alla niður á.

En hver er eftirspurnin? Samkvæmt nýrri könnun MMR eykur Framsókn fylgi sitt um einhver 2-3 prósentustig með því að höfða til ótta fólks gagnvart þeim sem eru öðruvísi og vel undirkynnts múslimahaturs. Eins og Jakobi og félögum tókst að snúa síðustu kosningabaráttu upp í þvælu um forsendubresti og stökkbreytingar sem þó aðeins 18% höfðu áhuga á þegar á reyndi; vill hann nú snúa þessari kosningabaráttu upp í múslimahatur vegna þess að 2,5% hafa áhuga á því.

Og með því telur hann sig vera einhvern afhjúpunar-, frelsis- og sannleikspostula á meðan að drullumallar í vilpunni sinni. Og sakar þá sem vilja ekki hoppa út í til hans um að vera skinhelgir hræsnarar og þykjustufólk.

 

Flokkun : Efst á baugi
1,490