trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 02/02/2018

Fönkað í Himnaranninum: Takk, Tommi

Þegar lagt er í langferð er vísast að velja sér ferðafélaga af kostgæfni. Ferðafélaga sem opnar augu manns fyrir fegurð heimsins, reynist traustur ef á bjátar og kryddar tilveruna skemmtilegheitum.

Sá sem þetta ritar hefur notið þeirra forréttinda að ferðast með Tómasi Magnúsi Tómassyni langa hríð. Horft um öxl blasir við mögnuð ævintýraför, mörkuð ótalmörgum gleðistundum í bland við spennandi áskoranir. Hvernig sem viðraði reyndist sólríkjan í lundarfari Tómasar öðru yfirsterkari. Hann gafst aldrei upp, brást aldrei liðsheildinni og stóð ævinlega við sitt, staðfastur og traustur.

Slíkir ferðafélagar eru einkar dýrmætir en fágætir.

Það skynjar maður alveg sérstaklega þegar þeirra nýtur ekki lengur við. Þess vegna upplifum við vinir Tómasar svo sterka eftirsjá sem raun ber vitni, jafnhliða því djúpa þakklæti, virðingu og kærleika sem speglast hefur í margþættum vitnisburði samferðafólks hans að undanförnu.

Við elskum hann öll, manninn sem setti sjálfan sig aldrei í fyrsta sæti, naut þess að gefa fremur en þiggja og gerði ferðalagið okkar sameiginlega svo óborganlega skemmtilegt.

Um tónlistargáfur og hæfni okkar manns þarf ekki að fjölyrða. Um það hefur nóg verið vitnað og verður áfram. Það var aðeins til einn Tómas Magnús Tómasson. Förunauturinn sá var engum líkur og mun aldrei gleymast.

Nú, þá hafin er förin hans hinsta og að líkindum sú ævintýralegasta, treystum við því að í Sumarlandinu bíði hans góðir og kunnuglegir grannar, þess fullbúnir að telja í með Bassaleikara Íslands. Kátlega mun þá fönkað í Himnaranninum og fyrir hittast glaðbeittir Lávarðar lágtíðninnar og hátíðninnar.

Haf heila þökk fyrir samfylgdina, elsku vinur. Hún var sannarlega einstök og ómetanleg.

Við hittumst svo heilir í nýrri vídd.

Jakob Frímann Magnússon

 

1,686