Fólk með engar verðtryggðar skuldir fær tæpa sex milljarða úr ríkissjóði. Í reiðufé. Óþarfa neikvæðni, segja álitsgjafar
Fólk með engar verðtryggðar húsnæðisskuldir fékk 5,8 milljarða úr ríkissjóði með „skuldaleiðréttingu“ ríkisstjórnarinnar, óháð eignum og tekjum.
Þetta kemur fram í grein Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, í gær. Formið á þessari tilteknu leiðréttingu er „sérstakur persónuafsláttur“, með öðrum orðum afsláttur af tekjuskatti, í stað lækkunar höfuðstóls húsnæðislána.
Ritstjórinn sækir upplýsingar sínar í skýrslu Bjarna Benediktssonar til Katrínar Jakobsdóttur um framkvæmd „leiðréttingar“ á húsnæðisskuldum landsmanna.
Þar kemur einnig fram að heimili sem eiga yfir hundrað milljónir skuldlaust hafi fengið hálfan annan milljarð úr ríkissjóði í formi skuldalækkunar. Svo og, að tekjuhæstu hóparnir hafa fengið mesta niðurfærslu skulda.
Sumir eru ósáttir við þessa ráðstöfun fjármuna, svo sem Björn Valur Gíslason varaformaður Vinstri grænna, sem skrifar í Herðubreið:
„Hægriflokkarnir færðu skatttekjur úr ríkissjóði frá tekjulægsta hópi skattgreiðenda til tekjuhæsta hóps skuldara.“
Aðrir eru jákvæðari, svo sem ritstjóri Herðubreiðar, sem telur ærið tilefni til að fagna:
„Nú loks eftir markvissar aðgerðir hægri stjórnarinnar hefur aðþrengd millistéttin efni á því sem sárast var að geta ekki veitt sér. Nú þarf hún ekki lengur að lita á sér hárið sjálf.
Til hamingju, við öll.
Einkum þó… – ég ætlaði að skrifa krabbameinssjúklingar, hjúkrunarfræðingar og annað minni háttar fólk.
En það er of mikið af neikvæðni í samfélaginu.
Nú er tími til að gleðjast.“
- Nú ertu (endanlega) búinn að missa það, Brynjar - 20/02/2022
- Þegar streðinu lýkur – Guðni Már (og mamma) - 03/01/2022
- Afplánunin - 02/12/2021