trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 08/09/2014

Flaðrandi varðhundar

HestarEftir Svavar Alfreð Jónsson

Fjölmiðlar eiga að veita valdinu aðhald hvort sem það er pólitískt, trúarlegt eða fjárhagslegt.

Margt bendir til þess að þeir hafi um nokkurt skeið sett upp silkihanska við umfjöllun sína þegar auðvaldið á í hlut.

Það er mikið áhyggjuefni.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis (8. bindi) um hrun íslensku bankanna er á það bent að fjármálafyrirtæki telji ,,…sig nær örugglega eiga ríkra hagsmuna að gæta að ekki sé fjallað á gagnrýninn hátt um fjármálamarkaðinn.“

Í skýrslunni er vitnað í álit fjölmiðlanefndar frá árinu 2005 þar sem eftirfarandi dómur er felldur:

Þess eru mörg dæmi að fjölmiðlar fjalli ekki um fyrirtæki eða hagsmunaaðila ef það getur komið sér illa fyrir fjölmiðilinn sjálfan, eigendur hans eða starfsfólk.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur m. a. fram að á árunum fyrir Hrun hafi íslenskir fjölmiðlar haft afar takmarkaðan áhuga á að fjalla á gagnrýninn hátt um efnahagsmál. Þar er tilgreint sláandi dæmi um geðlækni sem blöskraði þetta og ritaði grein um þennan skort á gagnrýninni umræðu um þetta efni.

Grein hans fékkst hvergi birt í íslenskum blöðum.

Í ljósi þessarar sögu er skuggalegt að heyra nýjar fréttir af tilraunum peningavaldsins til að stjórna fjölmiðlunum – jafnvel þótt megnið af þeim hvíli nokkuð örugglega í faðmi þess.

Fyrir nokkrum misserum fékk ég tilboð frá útbreiddasta dagblaði Íslands. Við upphaf páskastarfsins í kirkjunni minni var mér gefinn kostur á að fá umfjöllun um starfið í blaðinu – gegn þóknun.

Ég afþakkaði pent. Fyrir vikið var engin umfjöllun í þessu blaði um hið fjölbreytta safnaðarstarf í Akureyrarkirkju.  Hana fengu að þessu sinni aðeins þeir sem tímdu að taka upp veskin eða höfðu efni á því.

Því miður virðist þetta lýsandi dæmi um það sem er að gerast í heimi fjölmiðlanna. Gróðasjónarmiðin ein ráða ferðinni. Þeir komast í fjölmiðla sem eiga pening eða eru peningaöflunum þóknanlegir. Hinir sjást hvorki né heyrast.

Og dæmi virðast einnig vera um að hægt sé að kaupa sig frá gagnrýninni umfjöllun fjölmiðla.

Í áðurnefndri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir um hlutverk fjölmiðla:

Fjölmiðlar leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning, vera vettvangur þjóðfélagsumræðu og veita aðhald þeim öflum sem vinna gegn almannahag. Íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk í aðdraganda bankahrunsins. Þeir auðsýndu ekki nægilegt sjálfstæði og voru ekki vakandi fyrir hættumerkjum.

Þrátt fyrir þennan þunga áfellisdóm sýnist manni ósköp lítið hafa breyst í vinnubrögðum íslenskra fjölmiðla.

Þeir hafa lítið lært.

Og enn eru þeir að mestu leyti í eigu þeirra sem áttu þá fyrir Hrun. Þessir varðhundar almennings halda áfram flaðra upp um eigendur sína í stað þess að gelta að þeim.

 Myndin: ,,You scratch my back and I´ll scratch yours.“

Svavar Alfreð Jónsson

 

1,536