trusted online casino malaysia
Margrét Tryggvadóttir 27/11/2014

Fjárlagapönk – bókarkafli

Í tilefni af fréttum af fjárlagafrumvarpinu og breytingatillögum sem alla vega sumar eru til bóta langar mig að birta örlítið brot úr bók minni Útistöðum um fjárlögin og þá undarlegu vinnu sem tíðkaðist í kringum afgreiðslu þeirra.

. . . . . . . . . .

Hryggjarstykkið í hverju haustþingi eru fjárlögin og það var ekki bara fróðlegt að taka þátt í því öllu saman heldur líka umhugsunarvert. Fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, lagði fram frumvarp til fjárlaga við þingsetninguna þann 1. október þar sem stóru línurnar voru lagðar í útgjaldahliðinni. Eftir það var þingið önnum kafið við að færa til smotterí hér og þar eftir þörfum en mestur tími fór þó í svokallaða safnliði sem voru smærri upphæðir sem fóru hingað og þangað eftir áhugamálum og (einkum) kjördæmum þingmanna í fjárlaganefnd hverju sinni. Fólk gat sent inn umsóknir til fjárlaganefndar sem útdeildi þeim svo á fagnefndir þingsins sem fóru yfir þær og tóku umsækjendur í viðtöl. Eftir þá miklu vinnu skiluðu fagnefndirnar umsögnum með tillögum til fjárlaganefndar sem hún tók oft lítið tillit til og gerði svo bara það sem henni sýndist.

Safnliðirnir og útdeiling þeirra heim í hérað var það sem margir landsbyggðarþingmenn nánast lifðu fyrir. Með því að veita styrki í verkefni í sinni heimabyggð gátu þeir orðið allsherjarreddarar sem margir hafa talið þingmennskuna byggja á. Hefð var fyrir því að stjórnarandstöðuþingmenn fengju einhverju ráðið líka þegar þessum bitlingum var deilt út og þannig var þeim haldið góðum. Skipti þá minnstu þótt úthlutunin væri kannski ekki sérlega fagleg.

framhlid

Margir þingmenn fyrirlitu þó þetta fyrirkomulag og vildu gjarnan breyta því. Ef litið er á álit menntamálanefndar til fjárlaganefndar nokkur ár aftur í tímann má sjá hvatningu þess efnis að verklaginu verði breytt, enda blasti við hversu ófaglegt og í raun skaðlegt það var. Engu að síður mátti þingið búa við óbreytt ástand ár eftir ár, auk þess sem verkefnunum fjölgaði og upphæðirnar bólgnuðu í góðærisþenslunni.

Þór var okkar fulltrúi í fjárlaganefndinni sem fundar venjulega stíft þar til vinnu við fjárlögin er lokið. Í þetta skiptið var enn meira álag á nefndinni því Bretar og Hollendingar samþykktu ekki fyrirvara þingsins við Svavars-samninginn um Icesave. Nýr samningur leit því dagsins ljós, litlu skárri en sá fyrri, og um hann þurfti nefndin að fjalla. Á milli þess sem fjárlaganefnd fjallaði um Icesave og óbærilega stöðu ríkissjóðs tók hún á móti alls konar fólki sem vildi peninga í hin ýmsu verkefni.

Í ljósi stöðunnar á ríkissjóði – sem hefði átt að vera öllum landsmönnum kunn – var ótrúlegt að sjá hvað fólki datt í hug að biðja nefndina um og kannski enn ótrúlegra að sjá að mörgum þingmanninum fannst ekkert sjálfsagðara en að afgreiða beiðnirnar. Ein þeirra beiðna sem við fjölluðum um í iðnaðarnefnd var frá fólki sem rak kaffihús á landsbyggðinni. Það vildi gjarnan fá peninga fyrir svölum á húsið svo hægt væri að sitja úti þegar veður væri gott. Þeirri beiðni var reyndar hafnað en margar sambærilegar beiðnir hlutu náð fagnefnda eða fjárlaganefndar. Á fund fjárlaganefndar mætti t.d. spákona sem vildi peninga í spákonusetur og fékk þá, auk þess sem hellingspeningur var sendur norður í Mývatnssveit svo menn gætu klæðst þar jólasveinabúningum. Þetta fannst okkur fullkomlega klikkað og margir þingmenn úr öllum flokkum voru okkur sammála. Meirihluti fjárlaganefndar var það hins vegar ekki og í þessum fyrstu fjárlögum, sem reyndar voru mildari þegar kom að niðurskurði en árin þar á eftir, hélt þingið áfram að spreða peningum í þessa svokölluðu safnliði. Rétt er að taka fram að mörg þeirra verkefna sem styrkt voru með þessum hætti eru ágæt. Fyrirkomulagið var hins vegar galið og byggir í raun algjörlega á geðþótta þingmanna. Ríkisendurskoðun var ætlað að hafa eftirlit með því að fjármagnið væri nýtt eins og til stæði en allir vissu að það var bara plat. Þetta var spillingargildra.

Þór lagðist í mikla vinnu með aðstoð starfsmanna fjárlaganefndar við að gera breytingartillögur við fjárlögin sem gerðu það að verkum að við afgreiðslu fjárlaganna þurfti að greiða sérstaklega atkvæði um ýmislegt sem okkur fannst lykta af kjördæmapoti, bruðli eða hreinlega spillingu. Þór hélt svo stutta ræðu um hverja einstaka atkvæðagreiðslu þannig að öllum mátti ljóst vera hvað greitt væri atkvæði um í hvert sinn. Þessar skýringar hans höfðu töluvert skemmtanagildi en við sáum að mörgum stjórnarliðanum leið illa, enda mun auðveldara að greiða atkvæði með einhverjum heildarpakka en einstökum, umdeildum verkefnum, auk þess sem þetta tók óratíma.

Þarna lögðum við einnig til gistináttagjald á ferðaþjónustuna sem var í stórsókn og afgjald af auðlindanotkun, minna fé til kirkjunnar og nokkurra frjálsra félagasamtaka. Eins lögðum við til að ríkið hætti að innheimta iðnaðarmálagjald fyrir Samtök iðnaðarins og reyndar úrskurðaði Mannréttindadómstóll Evrópu nokkrum mánuðum síðar að sú gjaldtaka væri andstæð félagafrelsi og var gjaldið aflagt í kjölfarið. Síðast en ekki síst lögðum við til mun lægri framlög til stjórnmálaflokka. Þá lögðum við til aukna fjármuni á móti til velferðar-, mennta- og heilbrigðismála.

Allar breytingartillögur okkar þriggja voru auðvitað kolfelldar þótt margir væru okkur í raun sammála. Hinir flokkarnir í minnihluta sáu enga ástæðu til að styðja okkur í þessu enda höfðu þeir báðir útdeilt fé með þessum hætti áratugum saman. Þótt við værum í raun á móti mörgum verkefnunum var það þó aðallega fyrirkomulagið sem við deildum á.

Atkvæðagreiðslan tók ríflega tvær klukkustundir og greindu fjölmiðlar frá henni með hefðbundnum hætti. Enginn þeirra sagði frá breytingartillögunum okkar, þótt við hefðum sent frá okkur fréttatilkynningu sem skýrði þær og borðleggjandi hefði verið að gera úr þessu stórskemmtilega frétt og benda á margt vafasamt í afgreiðslunni. Formaður fjárlaganefndar var aldrei spurður hvers vegna honum þætti viðeigandi að skattborgarar bæru kostnað af því að menn færu í jólasveinabúninga í Mývatnssveit og nánast enginn utan þingsins frétti af þessu andófi okkar eða botnaði í því. En okkur fannst þetta gott pönk og það hafði áhrif því safnliðirnir voru lagðir af á kjörtímabilinu og okkar þáttur í því var verulegur.

Þrátt fyrir að mörgum stjórnarliðum þætti augljóslega óþægilegt að greiða atkvæði gegn breytingartillögum okkar og hefðu gjarna viljað að smotterísgreiðslur í hefðbundið kjördæmapot væru afgreiddar í kyrrþey fundum við fyrir miklum vilja til breytinga. Ég lagði fram fyrirspurn í þinginu um styrki á safnliðum til útgáfumála síðustu tíu árin þar á undan. Tvær ástæður voru einkum fyrir því að ég valdi þann málaflokk. Önnur var sú að ég hafði starfað árum saman við bókaútgáfu. Þetta var minn bransi og ég vissi nokkurn veginn hvað hlutirnir kostuðu. Hin var sú að auðvelt átti að vera að finna út hvort fjármunirnir hefðu verið nýttir í það sem þeir áttu að fara í – t.d. með því að athuga hvort bækurnar kæmu einhvern tímann út. Í fullkomnum heimi hefði átt að vera lítið mál að finna út úr þessu – t.d. með því að velja einhverja skipun í bókhaldskerfi ríkisins og prenta út lista.

Ráðherra ber að svara skriflegri fyrirspurn frá þingmönnum innan tíu daga og yfirleitt gengur það upp. Það tók hins vegar þrjá mánuði fyrir Menntamálaráðuneytið, með aðstoð Ríkisendurskoðunar, að komast að því hvað hafði orðið um styrki þingsins síðustu tíu árin til hinna ýmsu útgáfuverkefna og hvar í vinnsluferlinu bækurnar væru staddar.

Í ljós kom að fjárframlög höfðu aukist gríðarlega á árunum fyrir hrun og árið 2008, þegar styrkirnir náðu hámarki í 55,6 milljónum króna, var sú upphæð sem þingið varði til útgáfumála án alvöru eftirlits eða faglegra sjónarmiða umtalsvert hærri en Bókmenntasjóður hafði til umráða, en sjóðnum bar að styrkja útgáfur, þýðingar og sjá um kynningu á íslenskum bókmenntum erlendis, auk þess sem hann þurfti bæði skrifstofu og starfsmann.

Þá var einnig ljóst að mörg verkanna sem höfðu hlotið styrk, jafnvel ár eftir ár, höfðu aldrei komið út og ólíklegt var að það breyttist. Styrkir til einstakra verkefna voru líka gríðarlega háir í samanburði við þá sem Bókmenntasjóður veitti og fóru oft ekki til forlaga þar sem menn kunnu vel til verka. Sum ritin sem komu út reyndust svo mun þynnri en maður hefði trúað en auðvitað voru þarna inn á milli verðug og flott verkefni. Á heildina litið var þessi úthlutun hins vegar til skammar fyrir alla sem að henni komu.

Ástandið reyndist ekki betra þegar kom að fornleifavernd og húsafriðun. Til voru faglegar en fjársveltar stofnanir sem áttu að hafa með þessi mál að gera; úthluta fé, forgangsraða verkefnum og sinna eftirliti. Það var hins vegar orðið að venju að menn sóttu um styrki beint til fjárlaganefndar og fengu úthlutun. Þingmenn tóku þannig ákvarðanir um vernd og endurgerð húsa og fornleifauppgrefti, án nokkurra faglegra sjónarmiða en gjarnan í eigin kjördæmi. Þegar kom að fornleifunum var þetta sérlega varhugavert því alla eftirfylgni skorti. Það var ekkert sem tryggði að þeir sem hlutu styrkina skiluðu t.d. alltaf mununum eða sæju um að forverja þá eins og vera bar. Gripirnir lágu því stundum hreinlega undir skemmdum.

Þegar Oddný Harðardóttir tók við sem formaður fjárlaganefndar einhenti hún sér í að breyta þessu fyrirkomulagi og safnliðunum var öllum komið fyrir hjá fagaðilum sem bar að úthluta þeim á jafnréttisgrundvelli og hafa eftirlit með verkefnunum. Slíkir aðilar falla undir stjórnsýslulög, en það gerir Alþingi ekki.

Oddný vann þrekvirki með þessum breytingum. Hún varð fyrir harðri gagnrýni margra þingmanna en hélt sínu striki. Safnliðirnir liðu undir lok eins og þeir hefðu átt að gera fyrir löngu og hverri krónu var fundinn staður í faglegum sjóði.

. . . . . . . . . . . .

Bókin Útistöður fæst í flestum bókabúðum, stærri verslunum Hagkaupa og árituð á www.hansenogsynir.is.

Flokkun : Pistlar
1,475