trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 29/12/2020

Fjárhúsið að sumri til og fleiri þankar

Eyþór Árnason skrifar

Kaffærð öll í kóvídmekki,
knúsið góða fyrir bí.
Koma jólin kannski ekki
hverjir geta svarað því?

En jólagrautinn maður mallar,
því merkilegt ég heyrði tíst.
Þórólfur minn þreyttur kallar:
þrettándinn hann kemur víst!

Þetta er auðvitað rafmagnaður tími og ótrúlegur, líka rólegur og merkilegur og alveg fordæmalaus og svo ég segi það nú bara alveg fordómalaust: alveg grenjandi vitlaus og bara engin leið að halda reglu á neinu. Nema auðvitað tveggja metra reglunni og allir með meistarapróf á tommustokk. Hér frá þessu heimili voru margar útlandareisur á stefnuskránni og það átti að gera svo mikið af hinu og þessu og flest var tilhlökkunarefni og hitt ætlaði maður að láta yfir sig ganga. En hvað hefur þá á daga manns drifið og hvernig hafa þessir dagar farið með skepnuna mig? Ja, ég reyni að bera mig vel, en það er svo skrítið að ég man vart hvernig hinn venjulegi hversdagur var fyrir pest með öllu sínu æði og knúsi og lendi í því sama og gamla skáldið sagði forðum við kónginn: Nú kem eg eigi lengur fyrir mig því kvæði, reima grímuna á fésið og haltra burt, reyni að forðast fólk og finn tölvuna sem spriklar af spenningi og syngur til mín Er ekki tími til kominn að tengja? 

Og þó að öll samskipti hafi færst í netheima hef ég reynt að sporna við nútímanum og sett metnað minn í að lesa allar Íslendingasögurnar. Þær hafa hvílt óáreittar uppi í hillu, safnið sem ég keypti ungur, fékk sendar í póstkröfu, skellti í hansahilluna fyrir ofan Tarsanbækurnar og hafa elt mig ólesnar gegnum tíðina. Ég byrjaði á fyrsta bindinu og núna hálfnaður með það þriðja og er búinn að finna út hvaðan það er komið að launa einhverjum lambið gráa og þykist góður, slæ um mig með spakmælum sem ég hef hripað niður á litla miða og geymi í brjóstvasanum til öryggis. En eitt er nokkuð víst; hetjurnar í Gerplu þeirri sem baráttan við pestina er ættu skilið gott kvæði, eins konar pestarlausn.

Bóluefnið bugar gest
brosa allar stéttir.
Landinn ærist, laus við pest
löngu fyrir réttir.

Annars hringdi vinur minn í mig um daginn (ég á einn vin sem hringir) og spurði hvort það væri ekki eitthvað sem hvíldi á mér eins og mara og sagði svo: „Hefði ekki mamma þín orðið hissa ef þú hefðir komið fram í einhverju hlaðvarpinu eða hjá Sölva og sagt eitthvað mergjað um þig, opnað þig um einhvern myllustein sem þú hefur þagað yfir.“ Mér varð svarafátt við þetta en taldi það nú bara gott fyrir fólk að opna sig og kasta af sér okinu. 

Annars er ég í því núna að mæla götur, er í átaki sem felst í því að ganga sem flestar götur hér í Reykjavík. Það voru hressarar í vinnunni sem fundu upp á þessu rugli og er Reynir Pétur sjálfur verndari göngukeppninnar svo maður verður að standa sig þegar þjóðhetjan hvetur mann. Annars heldur Sigga að elding hafi lostið mig í höfuðið, því hún hefur alltaf reynt að drusla mér út í göngutúra en ég hef oft móast við og verið tregur í taumi eins og gamall baggahestur og talið notalegra að kúra mig yfir skjánum, ekki síst núna þar eð við skelltum okkur á stærri skjá þegar sá gamli gaf upp öndina, en það get ég svarið að ég reyndi að halda í honum lífinu með fyrirbænum og handayfirlagningu því ég er ekki fyrir að henda hlutum og nota gjarnan sterkt límband ef eitthvað dettur í sundur og dugar það oft lengi. Til dæmis dugði gamla ryksugan mjög lengi en hún fékk að fara þegar öll hjól voru horfin og þurfti að líma niður pokastæðið og slökkvarann og upprunalegi liturinn var horfinn undir límband, en hún saug ryk eins og vindurinn og er eftirsjá að henni. En Sigga keypti nýja um leið og Siggi Hlö og ef „veistu hver ég var“ kaupir sömu tegund hlýtur hún að vera góð! Svo var ég að æfa fluguköst í stofunni núna rétt fyrir jólin og bakkastið fór aðeins of langt og braut bita úr rándýru IKEA-ljósi yfir borðstofuborðinu svo það leit út eins og illa markað lamb en sá ekki á stönginni. Þá kom uhu-lím til bjargar. 

Já, það er gott að mæla göturnar í desemberblíðunni og huga að jólaskreytingum hjá fólki og það vantar ekki seríurnar maður minn sem lýsa upp Sólvallagötuna. Við reynum samt að vera í okkar jólakúlu eða hvernig var gamla vísan: Geng nú inn göngin hér / rek mig þá á kvörnina. / Ég er eins og jólatré, / ég er í hreppsnefndinni … Ég er að vísu ekki í hreppsnefndinni en kannski er maður eins og jólatré á öllum þessum fjarfundum sem skella á manni og þeir sem hafa fundað með mér hafa stytt sér stundir við að lesa á bókartitla bak við mig því að bókahilla hefur verið bakgrunnurinn. Mun ég nú fara aðeins nánar yfir fundabakgrunn minn. 

Þar verður fyrst fyrir áberandi 45 snúninga plata með ICY-tríóinu í Dóru Einars-dressinu og þar er Gleðibankinn sjálfur á hlið a og Bank of Fun á b-hliðinni fyrir Evrópu. Og það kemur eitthvert mikið fönn yfir mann. Ég man kuldann við Bláa lónið þegar myndbandið var gert og papparassar fylgdust skjálfandi með úr fjarlægð og maður var við öllu búinn og mun ég monta mig við barnabörnin þegar þau hafa aldur til og spila plötuna, báðar hliðar, og fara svo í Trump-gírinn og kvarta yfir þessu svindli og svínaríi í Bergen. Og nú skoða ég áfram í hillurnar sem vinnufélagar mínir hafa reynt að sálgreina mig út frá. Þarna fyllir Gyrðir minn nærri eina hillu og ef ég ferðast frá Gyrði til vinstri er mjó hilla með alls konar samtíningi, meðal annars eru þar ýmsar vasasöngbækur. Hver notar þær lengur? Enginn. En á tímabili varð ég að eignast allar söngbækur sem prentaðar voru til að vera klár í rútubílasönginn en einhvern veginn fór það svo að engin eftirspurn hefur orðið eftir forsöng mínum í langferðabílum eða við tjaldskörina. 

Þarna hangir svo júróvisjónpassi frá 2018, símaskrá frá Landsmóti hestamanna 2012 og miðinn sem mamma sendi með lopasokkunum forðum daga. Aðeins neðar og lenda utan myndar, kúra með öðrum lágvöxnum bókum; Undir vorhimni, bréf Konráðs frænda og bréf Jóhanns Sigurjónssonar til bróður síns. Já þeir heilla mig þessir gömlu, enda segja sumir að ég sé fæddur á vitlausri öld! Ég er þó allavega fæddur á klikkaðri öld. Ef við höldum til hægri er Indriði með Land og syni við hliðina á Grámosanum og ef við förum aftur upp í mjóu hilluna með söngbókunum er þar fremst sálmabókin sem amma Elín gaf mér þegar ég fermdist 2. júní 1968 og er skrifað inn í: „Trú þú og vak.“ Hún var góð kona hún amma Elín. Neðarlega hægra megin er svo fjarstýring í fullkomu lagi af gömlu vídeótæki af vhs-tegundinni því hver man ekki eftir hvað það var gott að fá sér göngutúr út í Gerplusjoppu sem var alltaf með hæstu vinningana í lottóinu og koma heim með popp og skella Rocky í tækið. 

Síðan er hilla sem aldrei sést í mynd en þar er skagfirski fróðleikurinn. Þar get ég sökkt mér í ýmislegt og sumt ansi krumfengið … „og urðu þá manndrápin“ og svo framvegis. Heilmikið gúmmelaði. En nú finnst mér jólabréf þetta farið að líkjast örlítið skemmtilegri og angurværri bók eftir Ragnar Helga Ólafsson sem heitir Bókasafn föður míns en áfram með smérið. Í fyrra afrekaði ég það að raða flestum ljóðabókunum í stafrófsröð eftir höfundum og fann við það nokkrar bækur sem ég vissi ekki að ég ætti! Margur er ljóðríkari en hann hyggur. Já, ýmislegt góss er svo utan myndar; gítar sem ég stilli stundum og æfi vinnukonugripin og gef söngbókunum hornauga. Síðan er allt möppuruslið sem er neðst með ættfræði og gömlum reikningum, nótum, leikskrám og rissblöðum og öllum fjandanum. Þarna er full mappa með hálfortum ljóðum eða kannski vondum ljóðum eða ljóðum sem fallið hafa á tíma, en standa samt þarna í möppunni og minna á sig öðru hvoru en ég lem þau frá mér eins og kýr sem stuggar við flugum með halanum. 

Þarna eru myndir í römmum sem ekki er veggpláss fyrir. Mér hefur ekki tekist hér á þessu heimili að hafa sama hátt á og karl faðir minn hefur í litla húsinu sínu fyrir norðan. Hann leggur metnað sinn í að allar myndir sem hann eignast fari upp á vegg og er það vel og enn er pláss. „Ekki eru enn full bæjardyrnar og göngin,“ sagði móðir mín heitin, og hafði eftir gömlum frænda úr Þingeyjarsýslu, þegar húsið fylltist af fólki. Mamma var gestrisnasta manneskja sem ég hef þekkt. Ég held að henni hafi fundist mest gaman þegar allir lágu í flatsæng úti um allt og varla hægt að drepa niður fæti í húsinu. En aftur að hillunum. Nú sný ég mér leiftursnöggt frá skjánum og það brakar í mér öllum: Ég sé gömlu landabréfabókina bláu með heiminn á forsíðunni, kort af Austurdal og Blönduhlíðarfjöllum, svo er þarna segulbandsspóla sem ég hef ekki hugmynd um hvað í fjandanum er að gera þarna! 

Uppi á skápnum eru kassar af ýmsum stærðum og gerðum því ég kann að nota plássið. Þar er blár kassi undan adidasskóm nr. 43, fullur af tómum patrónum frá því ég var tófuskytta sveitar minnar og í jafnmiklum metum og presturinn, hreppstjórinn og gangnaforinginn, kassi með vídeóspólum af ýmsum gerðum sem geyma myndir af fjölskyldunni þegar hún var ung. Og þá man ég að ég verð að koma þessu á form fyrir framtíðina sem kemur eins og hjalandi lækur meðan útilegumenn bíða í næsta gili. Og svo eru allir geisladiskarnir. Nú er ég nefnilega kominn á spottið og þar er allt í heiminum; Karlakórinn Heimir, Klaus Nomi og Kærastan kemur til mín. 

Nú lendir enginn í því sem ég lenti í ungur maður. Var að leysa hey í hlöðunni heima á dimmu síðdegi (með grisju fyrir vitunum til að verjast vegarykinu) og heyrði lag með Moody Blues sem fangaði mig úr litla philipstækinu, en á hvaða plötu var þetta lag? Nokkrum árum seinna, þegar ég var búinn að kaupa fimm plötur með þessari ágætu hljómsveit, kom loks lagið Nights in White Satin undir nálina og þá varð ég hamingjusamur. Móðir mín blessuð komst ekki hjá því að hlusta á tónlistina sem uppáhaldssonur hennar bauð heimilinu upp á og einhvern veginn fór vel í hana hinn melódíski tónn í Múdíblúsinu og þegar hún á sínum efri árum fór í skemmtiferð til Barselóna með kvenfélagi Akrahrepps fréttu þær af tónleikum með hljómsveitinni Queen. Þarna var Freddie blessaður að vísu burtkallaður en ungu kvenfélagspíurnar létu það ekki á sig fá og var nú tilhlökkunarstund í hótellobbíinu og spurðu þær mömmu hvort hún vildi ekki koma með. Nei, hún sagðist aldrei hafa verið sérlega hrifin af Queen, en ef það hefði verið Moody Blues hefði hún drifið sig! 

Já, þetta er alveg stórundarlegt ár. Mér dettur ýmislegt í hug, en mér datt aldrei í hug að það yrði flogið á Tvíburaturnana og mér datt hrunið aldrei í hug og svo kom pestin sem slökkti á heiminum og minn vinnustaður Harpa lagðist nánast í eyði. Við skröltum þó um gangana og nokkur verkefni hafa slæðst inn. Harpa minnir mig á fjárhús að sumri til. Oftast alveg þögn og ró. Bara einstöku fugl sem hefur gert sér hreiður uppi á bita eða á texplötu sem hangir niður og það liggur mild kindalykt í loftinu og það er eins hjá okkur í Hörpu; við lifum á minningunum sem dansa í loftinu og við hlökkum til að opna, lömbin mín. Það er nóg hey í hlöðunni og nóg pláss fyrir Jósef, Maríu og barnið. 

Og svo er árið bara að verða búið, fjörugasti Skagfirðingurinn hún elsku Valla Jóna mágkona mín kvaddi þennan heim og nú er horfinn hlátur og söngur. En árið bar líka á öldu sinni ýmislegt fallegt. Við hjónin fórum í rigningu austur í Öræfi, en það stytti upp augnabik og Hvannadalshnjúkur heilsaði okkur. Sólveig Vaka spilaði einleik með Sinfó. Árni Gunnar og María eignuðust stúlku og Óliver litla systur og það er stuð á Nesinu hjá Ragnheiði Völu og Unnsteini með þær skríplur Elísabetu Míu og Matthildi Heru. Sigga vinnur heima og sér engan nema mig. Ég veit ekki hversu hollt það er fyrir hana, en annars erum við bærileg.

Gleðileg jól!

Eyþór Árnason (með Sigríði H. Gunnarsdóttur og slektinu af Sólvallagötu)

1,355