Falsspámenn
Bankarnir eru með spádeildir. Þar starfa lærðir viðskipta- og hagfræðingar. Þeir hafa takmarkalítinn aðgang að blöðum, útvarpi og sjónvarpi þegar þeir flytja spádóma sína, sem undantekningarlaust er hvatning til bankasviðskipta af einhverri sort. Eitt af því sem þeir fást við er að gera þjóðhagsspár eitt, tvö, þrjú ár fram í tímann. Því er haldið að þjóðinni að það sé full ástæða til þess að taka mark á þessum mönnum.
Framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka hefur átt í baxi við að verja það að nokkrir valdir bankavinir fengu að kaupa hjá bankanum hlutabréf í Símanum áður en þau voru sett á almennan markað. Hans fyrsta ráð var að segja eins og er; hann lýst spámenn bankans vanhæfa með eftirfarandi yfirlýsingu: Það sem „lá ljóst fyrir í dag að loknu útboði lá ekki ljóst fyrir nokkrum vikum og mánuðum áður en útboðið fór fram.“ Síðan bendir hann á að eftirspurn í hlutafjárútboðum sé misjöfn og að ekki hafi verið hægt að gefa sér niðurstöðuna fyrirfram.
Og þetta sáu hámenntaðir reiknimeistarar og spámenn ekki fyrir; þó átt að selja landsþekkt fyrirtæki nokkrum dögum eftir að vildarvinirnir fengu bréf sem hækkuðu um 30% þegar almenna útboðið var haldið. Þetta eru sömu menn og hikstalaust segja okkur fáfróðum hvaða áhrif launahækkanir muni hafa á verðbólguna, hversu mikið íbúðahúsnæði muni hækka á komandi mánuðum, hversu há vísitala kauplags og verðlags verði eftir þrjú ár með tilliti til fjölda ferðamanna, áætlaðs inn- og útflutnings, aflabragða, veðurfars og fjölmargra annarra þátta sem í skýrslum heita „óvissuþættir.“
Og annar stjóri í viðskiptum, sá sem seldi afgangsbréfin í Símanum að loknu vinavalinu, birtist Moggaþjóðinni til að verja sitt lén; forstjóri Kauphallar Íslands. Það veður á honum í blaðinu; segir að það hafi „orðið vatnaskil á markaði eftir tilkynningu stjórnvalda um afnám hafta. Hlutabréf hafa hækkað mikið og viðskipti aukist gríðarlega.“ Hann bendir og á að úrvalsvísitalan hafi hækkað um 21% frá 8. júní, þegar áætlunin var kynnt og segir veltu á hlutabréfamarkaði hafa tvöfaldast eftir 8. júní, miðað við sama tímabil árið áður, og velta á skuldabréfamarkaði aukist um 70%. Hann áætlar að bein eign heimila í hlutabréfum sé nú um 60 milljarðar, 15 milljörðum meiri en í aprílbyrjun.
Takið eftir þessu: Hann áætlar að bein eign heimila í hlutabréfum sé nú um 60 milljarðar, 15 milljörðum meiri en í aprílbyrjun. Hvernig veit hann þetta maðurinn? Er hann að grúska í bókhaldi landsmanna og framtölum? Og veit hann þá hvaða heimili um er að ræða? Eða er hann giska, eða bara að slá um sig og skrökva öllu þessu eins og spámenn bankanna gera þegar þeir birtast okkur í útvarpi, sjónvarpi og blöðum?
- Sálumessa - 02/07/2020
- Umhverfisvændi - 21/04/2020
- Er brennivínið besti kostur? - 26/03/2020