trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 25/04/2014

Excel-skjalið sem gengur ekki upp

Það má segja margt um hrunið. Reyndar hefur verið sagt alveg gífurlega margt um þessa atburði og verður eflaust áfram. Skýrslur rannsóknarnefnda eru til dæmis býsna ítarlegar; skýrslan um sparisjóðina sem kom út á dögunum var hvorki meira né minna en 1.875 blaðsíður og mun væntanlega hafa þá stöðu í töluverðan tíma að fjöldi blaðsíðna verður nokkuð hærri en fjöldi þeirra sem hafa lesið skýrsluna. En allt er þetta dókumenterað og það er ágætt fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa sér til.
Árni Helgason

Þótt nokkuð sé um liðið er fólk enn mjög upptekið af hruninu og það líður varla sá dagur að ekki sé minnst á þessa atburði í fréttum eða tali fólks. Í umræðunni heyrast alls konar skýringar á þessu, til dæmis að stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn hafi ekki gengið nógu langt í „að gera upp við fortíð sína“ eða mynda sér „trúverðuga framtíðarsýn“ eða „raunsæa utanríkisstefnu“. Sennilega eru skýringarnar jafn ólíkar og þær eru margar.

 

Dýrt að lifa

Ég held að stærsta ástæðan fyrir því hvað hrunið situr enn í mörgum sé ekki endilega tengd einhverjum stefnum stjórnmála­flokkanna eða öðru slíku, heldur einfaldlega því hversu erfitt það er fyrir venjulegt fólk að láta enda ná saman.

Ein af beinum afleiðingum hrunsins hefur nefnilega verið sú að allt hefur hækkað. Matur er miklu dýrari en áður og bensín er búið að margfaldast í verði. Það eru ekki ýkja mörg ár frá því að bensínlítrinn kostaði innan við 100 krónur. Í dag kostar hann um 250 krónur. Skattar hafa hækkað frá hruni og það er minna eftir í buddunni um mánaðamótin. Húsnæðisverð hefur hækkað, hvort sem er á leigumarkaði eða fyrir þá sem rembast við að borga af verðtryggðum skuldum.

Húsnæði, skattar og framfærsla

Skoðum aðeins þann sem er með meðallaun í dag. Samkvæmt launakönnunum voru meðallaun á síðasta ári um 425 þúsund krónur. Þegar búið er að taka skatta af þeirri upphæð standa eftir um 298 þúsund krónur, að því gefnu að greitt sé í séreignalífeyrissjóð.

Segjum sem svo að meðallaunamaðurinn leigi íbúð á höfuðborgarsvæðinu fyrir 150 þúsund krónur á mánuði með öllu, sem telst ágætlega sloppið í dag. Hann á þar að auki lítinn bíl til að komast í og úr vinnu og til að sinna erindum. Ég geri ráð fyrir að viðkomandi búi einn og samkvæmt því er framfærsla samkvæmt Umboðsmanni skuldara 134 þúsund krónur á mánuði. Inni í þeirri tölu er matur, heimilisrekstur, samgöngur, til dæmis rekstur bifreiðar (bensín + viðhald), tómstundir, símakostnaður, lyf og þess háttar. Ekkert sældarlíf svo sem en það er hægt að hafa það þokkalegt fyrir þennan pening.

Leiga og framfærsla hjá þessum einstaklingi er því samtals um 284 þúsund krónur á mánuði. Nánast allt ráðstöfunarfé viðkomandi fer í að sinna þessum grunnþörfum. Samkvæmt þessu dæmi væru 14 þúsund krónur upp á að hlaupa þegar þetta hefur verið dregið frá. Og hér er ekki gert ráð fyrir neinu öðru. Ef bíllinn var til dæmis keyptur á bílaláni er ekki ólíklegt að greiða þurfi kannski 15-20 þúsund á mánuði. Ef viðkomandi tók námslán á sínum tíma þarf að borga LÍN um 15-20 þúsund á mánuði að jafnaði yfir árið í afborganir. Bara þessar tvær viðbótargreiðslur gera það að verkum að þessi einstaklingur er kominn niður fyrir núllið og borgar með sér.

(Ég ætla að taka fram að tölurnar hér eru ekkert heilagar eða hárnákvæmar, heldur fyrst og fremst til að reyna að varpa einhverri mynd á þetta. Upplýsingar um meðallaun eru teknar frá Hagstofunni, miðað er við meðallaun 2012 og reiknuð er hækkun sem kom til á síðasta ári. Þannig að ekki senda mér póst um að þið hafið ósamræmi í talnagögnum eða eitthvað slíkt.)

Engin flugeldasýning

Og hér verður að hafa í huga að líf samkvæmt framfærslustuðlinum er engin flugeldasýning. Þar er ekki gert ráð fyrir utanlandsferð, heimilistækjakaupum, út að borða með vinunum eða neitt slíkt. Það er heldur ekki mikið svigrúm fyrir óvænt útgjöld, til dæmis þegar maður þarf að taka óvænta ferð til tannlæknis og reikningurinn fyrir smá lagfæringu er 50 þúsund kall.

Og jafnvel þótt það sé smá afgangur á mánuði upp á 10-20 þúsund gerir enginn mikið fyrir þann pening. Ef stefnan er að kaupa fasteign þarf að safna sér fyrir fyrstu útborguninni. Sá sem er með afgang upp á 20 þúsund á mánuði og ætlar sér að kaupa 25 milljóna króna íbúð þarf að eiga 15 til 20 prósent í útborgun, sem eru um 4 til 5 milljónir. Það tekur þannig um 200 til 250 mánuði að safna þessari fjárhæð, eða 17 til 21 ár. Og þá yrði viðkomandi eigandi að 15 til 20 prósentum eigin fjár í íbúð en með verðtryggt lán á móti og alla áhættuna á sér að verðtryggingin éti upp eigið féð í íbúðinni í næsta verðbólguskoti. Spyrjið bara kynslóðina sem keypti sér árin 2005 til 2008.

Í grunninn skítt en reddast á endanum

Sem betur eru fæstir eins og fólk er flest og auðvitað er ekki hægt að lesa of mikið út úr svona tilbúnu dæmi, settu upp í Excel. Margir geta auðvitað unnið meira þegar þá vantar tekjur, aðrir spara og lifa á minna en sem nemur framfærslunni, sumir fá aðstoð frá foreldrum sínum og enn aðrir eiga smá sjóð eða annað í þeim dúr. En það er óneitanlega umhugsunarefni hvað skattar, húsnæðiskostnaður og hófstillt framfærsla á einum mánuði éta mikið upp af meðallaununum.

Þetta má ef til vill taka saman á þann hátt að fjárhagsstaðan hjá manni með íslensk meðallaun er þannig að í grunninn hefurðu það frekar skítt en á endanum geturðu haft það ágætt; eftir að hafa tekið nokkrar aukavaktir, fengið lán hjá foreldrunum, tæmt séreignarsparnaðinn og tekið smálán til að borga tannlækninum.

Svo er bara spurningin hversu lengi þetta kerfi gengur upp?

 Árni Helgason, 24, apríl 2014

1,368