trusted online casino malaysia
Jón Daníelsson 06/06/2014

Étt’ann sjálf, Guðfinna!

pollaponk_for_brochure-688x451Manni lærist ýmislegt á langri ævi. Til dæmis að það getur virkað ágætlega að draga kanínu upp úr hatti örskömmu fyrir kosningar. Mér hefur alltaf fundist trixið sjálft óheiðarlegt og kanínurnar hafa vissulega verið misfagrar ásýndum. En framsóknarkanínan, sem birtist viku fyrir borgarstjórnarkosningarnar, er sú ljótasta sem ég hef séð.

Útlendingahatur og tortryggni milli kynþátta eða trúarhópa er einmitt það sem mannkynið þarf einna helst að útrýma. Það er svo mikilsvert, að mér liggur við að raða því heldur ofar í forgangsröð en baráttunni gegn loftslagsbreytingum og er þá fjandi langt til jafnað.

En frá fulltrúum Framsóknarflokksins borgarstjórn Reykjavíkur er ekki svo mikið sem eitt lítið lóð lagt á þá vogarskálina. Þvert á móti leyfir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir sér að gefa í skyn, að eitthvað sé að í höfðinu á Hallgrími Helgasyni. Þetta gerði hún í útvarpsviðtali og ástæðan sú að Hallgrímur hafði birt ljóð.

„Mér er algerlega misboðið. Ég átta mig ekki á því hvað á sér stað í höfðinu á fólki sem lætur svona.“

… segir Guðfinna.

Étt‘ann sjálf, Guðfinna! segi ég.

Hún má segja orðið „skipulagsmál“ eins oft, eins hratt og eins lengi og hún vill og getur. Í mínum huga breytir það engu. Moskuútspilið var vandlega hugsuð kosningakanína og hún var fullsköpuð þegar henni var kippt upp úr hattinum. Grein Guðrúnar Bryndísar Karlsdóttur í Kvennablaðinu (28. maí) dugar ágætlega til að sannfæra mig um það.

Og það breytir vel að merkja engu í mínum huga hversu oft, hratt og lengi hún er sögð ljúga.

Sá möguleiki að þetta plott hafi verið úthugsað og skipulagt með vitund og samþykki formanns flokksins, léttir mér ekki lundina. En ummæli gamalgróinna Framsóknarmanna á borð við Jón Sigurðsson og Ómar Stefánsson styrkja því miður þá tilgátu.

Það þarf ekki að koma á óvart að útlendingahatrið skyldi skila atkvæðum. Rasistar eru til á Íslandi eins og annars staðar. Ég gerði mér þó vonir um að þeir væru ívið færri.

En eftir atvikum held ég að það færi vel á því að sá meirihluti, sem nú er verið að stofna í borgarstjórn Reykjavíkur, komi sér saman um að hefja hvern borgarstjórnarfund á kjörtímabilinu öllu á flutningi Eurovisionframlags Íslendinga í vor, Pollapönkslaginu Enga fordóma.

Og að sjálfsögðu rísa borgarfulltrúar úr sætum á meðan. Allavega þeir sem samsvara sig boðskapnum.

Flokkun : Pistlar
1,243