trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 26/02/2017

Endurflutningur og innleiðingar: Ný ríkisstjórn fer hægt og hljótt af stað

Fréttaskýring

Af eitt hundrað og einu máli á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eiga aðeins örfá uppruna sinn hjá ríkisstjórninni sjálfri. Þar af geta sex talist stefnumarkandi.Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar

Hin eru endurflutt eða eru innleiðingar á löggjöf Evrópusambandsins, sem Íslendingum er skylt að taka upp.

Í forsætisráðuneytinu er það aðeins breyting á stjórnarráðinu – fjölgun ráðherra – sem kalla má eigið stefnumál og verðskuldar þó varla slíkan titil.

Af tíu málum dómsmálaráðherra eru öll nema eitt endurflutt, lögð fram til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar eða svo tæknilegs eðlis, að ekki er hægt að kalla stefnumarkandi. Þetta eina er breyting á lögum um útlendinga þess efnis, að sé kærð ákvörðun Útlendingastofnunar um að vísa einstaklingi úr landi, þá fresti kæran ekki réttaráhrifum hafi umsókn viðkomandi verið metin bersýnilega tilhæfulaus og hann komi frá svokölluðu öruggu landi.

Félagsmálaráðherra virðist marka skýrustu spor nýrra ráðherra. Af þrettán málum hans eru þrjú stefnumarkandi, þ.e. um jafnlaunavottun, breytingar á almannatryggingakerfinu og greiðslu fæðingarorlofs. Hin eru ýmist endurflutt, innleiðingar á ESB-tilskipunum eða flutt í samræmi við lög og alþjóðasáttmála.

Á sautján mála lista fjármálaráðherra eru tíu innleiðingar og þrjú mál endurflutt. Eitt er um smávægilegar skattabreytingar, eitt um sameiningu tveggja lífeyrissjóða og tvö flutt í samræmi við lagaskyldur.

Af níu málum ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra eru tvö endurflutt og sex tæknilegs eðlis. Eitt má kalla stefnumarkandi, stofnun Flugþróunarsjóðs til að styðja við millilandaflug um Akureyri og Egilsstaði.

Af fimm málum heilbrigðisráðherra eru tvö endurflutt og eitt innleiðing að hluta (rafsígarettur). Ekki verður ráðið af textanum hver er uppruni þeirra tveggja sem eftir standa.

Mennta- og menningarmálaráðherra boðar þrjú mál. Eitt er endurflutt, annað innleiðing og hið þriðja tæknilegs efnis.

Fjögur af níu málum samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra eru vegna ESB eða annarra alþjóðasamninga. Eitt er talið tvisvar og fjallar um skaðabætur til handa sveitarfélögum í kjölfar tekjumissis vegna hinnar svonefndu leiðréttingar. Eitt er tæknilegt, annað fjallar um bílastæði og sektir, og hið þriðja afnemur skyldu sem nú hvílir á Reykjavíkurborg um að fjölga borgarfulltrúum.

Sex af sjö málum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eru ýmist tæknileg eða endurflutt. Hið sjöunda snýr að ýmsu sem snertir landbúnaðarvörur og framkvæmd búvörusamninga og má telja stefnumarkandi.

Öll þrettán mál umhverfis- og auðlindaráðherra eru endurflutt, innleiðingar, byggð á eldri vinnu eða lögbundin skýrslugjöf til alþingis.

Utanríkisráðherra flytur tólf mál, langflest vegna ákvarðana Evrópusambandsins. Ekkert þingmála hans getur kallast stefnumótandi.

1,650