trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 10/10/2012 0 ummæli

Elías Mar: Brot úr lífsbókinni

Eftir Guðmund Andra Thorsson

Elías Mar skrifaði fyrstu nútímalegu Reykjavíkursögurnar um miðja síðustu öld. Hann opnaði reykvískt sögusvið í íslenskum skáldsagnaheimi þar sem baslað var í bröggum, drukkið og hórast, talað með slettum og slangri og erlendir hermenn vermdu bari og ból: sjálft litríkt lífið sem sagt í allri sinni dýrð.

Hann skóp eigin sagnaheim úr því sem fyrir augu hans og eyru bar og kunni að lýsa öllu af fumleysi sagnameistarans sem fundið hefur sinn tón og öðlast eigin sýn á mennina.

Hann náði að lýsa því hvernig mestu umbrot Íslandssögunnar orkuðu á líf alþýðustúlku sem hét Sóley og lenti í ástandinu og alþýðupilts sem kallaður var Bambínó og langaði að verða svalgæi – en lenti í ástandi.

*

Svona skrifaði hann:

„Hvergi nálgast andstæður lífsins í senn hið sorglega og hlálega, hið óskiljanlega og bitra eins og í þeirri snertingu sem er ófullkomin. Hvergi reynist vilji mannsins, ást hans, að ekki sé talað um fegurð hans, jafn tilgangslaus sem frammi fyrir þeirri staðreynd, að athöfn hans er dauð. Veikleiki á þeirri stund, þegar maðurinn vill vera sterkur í ást sinni, er skyldari hinni þyngstu sorg en svo, að nokkur reyni að skýra slíkt með orðum. Öll orð eru máttlaus, gagnslaus“ (Sóleyjar saga I, 70-71).

Þetta er vel skrifað. Á þessu er falleg áferð og mild sýn, þetta er slétt og fágað; þarna er innileiki og innlifun, samlíðan en líka einurð: það er ekki algengt að sjá í verkum karlhöfunda lýsingu á ástarleik þar sem karlmanninum mistekst „að vera sterkur í ást sinni“ eins og það er kallað hér, en hefur líka verið kallað „að gagnast ekki konunni“.

En við sjáum líka hvernig höfundurinn eins og fórnar hálfpartinn höndum í lokin: reynsla og tilfinningar þess unga fólks sem hann vill miðla til okkar er svo yfirþyrmandi, hann lifir sig svo gersamlega inn í þessar erfiðu kringumstæður, að öll „orð eru máttlaus, gagnlaus“.

Það er engu líkara en að höfundinn skorti klínískt miskunnarleysi til að klára lýsinguna eins og hann veit innst inni að hann þyrfti að gera – hann telur sér trú um að orð séu „gagnlaus“ sem er alls ekki heppilegt vegarnesti vaxandi skáldsagnahöfundi: hann hefur ekki komið sér upp þeirri sjálfsmynd að rithöfundurinn sé læknir í hvítum slopp og verk hans sjúrnalar samfélagsins. Í rauninni er þó lagt upp með slíkt. Á þessum orðum hefst Sóleyjar saga:

„Þorpið er borg, stórborg. Og sú stórborg er þorp“ (Sóleyjar saga I bls 7).

Ætli þetta sé ekki með betri upphafssetningum íslenskrar skáldsagnagerðar? Þarna þjappar höfundurinn í eina hnitmiðaða málsgrein þeirri stóru þversögn sem verkið fæst við og Reykvíkingar hafa í rauninni mátt búa við æ síðan.

Sóleyjar saga var fjórða skáldsaga Elíasar og kom út árin 1954 og 1959. Persónur verksins, andrúmsloft þess, er kunnuglegt þeim sem lesið hafa þríleik Ólafs Jóhanns eldra um Pál Jónsson – eða bara Atómstöðina: þarna er gjörspillt yfirstétt sem aðalpersónan Sóley þjónar, sérlega hvimleið fín frú og eiginmaður hennar að sama skapi viðfelldinn – en viðsjáll – og endar uppi í rúmi hjá Sóleyju, þarna er ráðvillt alþýða: drykkjusjúkur faðir í bragganum og trúarringluð móðir; þarna er grandvart skáld, sem kann að vera málpípa höfundar en heitir þó að vísu Eiður Sær, og vex sífellt ásmegin í verkinu uns hann hálfpartinn kæfir það með dómhörku sinni og reiðilestrum; þarna eru líka litríkir listamenn, þarna er menningarpáfi og bókaútgefandi sem virkar annaðhvort litríkur eða hálfgalinn á mann – og þarna er meira að segja Jósefína spákona sem heitir ekki Karólína.

Og þarna er ástand: Kanar. Og allt þrungið táknrænu þar sem þjóðerni, kynlíf og vald blandast saman.

Vögguvísa frá árinu 1950 er styttri en líka afslappaðri, skrifuð af meira öryggi; þar er vitundarmiðjan sjálfur Bambínó á hraðri leið á glapstigu, og ansar ekki mömmu sinni þegar hún kallar Bjössi minn á eftir honum:

„Þegar maður er í habbít, fólkið heima ætlar sér að lesa yfir manni siðalexíur og kenna manni að lifa, verður afleiðingin sú, að maður gengur hröðum skrefum á fund bezta vinarins til þess að fá samúð hans og hluttekningu, ræða við hann um það, hvað hægt sé að gera eða hvort maður eigi yfirleitt nokkuð að gera, – sem reyndar er þó sennilegast, því helgin er í nánd, komið laugardagskvöld og nóg til af peningum, maður, alveg hellingur, aldrei þessu vant.“ (Vögguvísa bls. 88)

Hraður stíllinn sem einkennist af velheppnuðu innra eintali, slangurkennt málfarið sem enn eftir öll þessi ár hefur á sér furðu ferskan svip, og ekki síst innlifun höfundar í sálarlíf barns á tímamótum: allt veldur þetta því að Vögguvísa hefur staðist betur tímans tönn en Sóleyjar saga.

*

Allir rithöfundar hafa í sér eina bók sem þeim er ætlað að skrifa – eina sögu sem þeir þurfa að segja. Það er erfitt að útskýra þetta en látum í bili nægja að segja að þetta sé bókin sem rennur öll um æðar viðkomandi rithöfundi, bókin sem enginn annar gæti nokkurn tímann skrifað; bókin sem viðkomandi er hreinlega ætlað að skrifa: þetta er Hundrað ára einsemd. Ég heiti Ísbjörg ég er ljón, Vængjasláttur í þakrennum, Tómas Jónsson Metsölubók.

Sumir höfundar skrifa þessa bók snemma á ferlinum og endurskrifa hana æ síðan – sumir fálma eftir henni í sífellu en finna hana ekki. Sumir skrifa hana seint eftir hægan en þrotlausan undirbúning. Hjá sumum verður bókin að steinbarni. Og sumir hætta að skrifa þegar þeir skynja að þeim er af einhverjum ástæðum um megn að skrifa þessa bók.

Elíasi Mar auðnaðist sennilega ekki að skrifa þessa bók – bókina sem bjó í honum, en stundum var eins og manni þætti glitta í hana í minningargreinum hans um liðna samferðarmenn eins og til dæmis Málfríði Einarsdóttur: í þeim mannlýsingum hans var fyrir utan stálminnið einhver heiðríkja, öryggi og stílsnilld – einhver lygn léttleiki – sem færði manni heim sanninn um að hér væri Elías staddur í sínum sagnaheimi.

Seint og um síðir fann hann broti úr lífsbók sinni farveg í ljóði sem hann orti árið 1998 og kallaði Bernskujól. Þar lýsir hann í einföldum og óbrotnum línum jólunum sem hann átti með ömmu sinni en hún ól hann upp eftir að hann missti móður sína ársgamall, en af föður sínum hafði hann ekkert að segja.

Hann átti sem sé óvenjulega sögu: alinn upp af gamalli konu í Reykjavík, þekkti manna best gömlu Reykjavík og mundi allt. Hann var líka tíður gestur á Laugavegi ellefu á árunum upp úr stríðinu, sat þar með hinum hommunum en þarna fengu þeir í fyrsta sinn að vera sýnilegir; þótt á hálfgerðu pískurstigi væri enn þá voru þeir að minnsta kosti fólk eins og hitt fólkið um bæinn.

Sjálfur var Elías ekki í felum og hann ræddi lítt um þá erfiðleika sem fylgdu áreiðanlega tvíkynhneigð hans í þessum bæ sem kannski var þegar betur var að gáð hvorki stórborg né þorp, og dómharkan eftir því.

Hins vegar skráði Elías eitt og annað eftir bersöglasta homma landsins, Þórði Sigtryggssyni. Þær frásagnir og hugleiðingar eru til í ýmsum uppskriftum og handritum en hafa aldrei komið út – brot úr því kom að vísu út undir nafninu Saman lagt spott og speki – en þegar til átti að taka var Elías of háttvís til að vilja að gífuryrði Þórðar um menn og málefni kæmu fyrir hvers manns sjónir, en þessi upprunalega fyrirmynd Organistans í Atómstöðinni var enn meiri orðhákur en kverið gefur til kynna.

*

En þótt Elías skrifaði ef til vill ekki sjálfa Bókina sem í honum bjó þá skrifaði hann sem sé fyrstu nútímalegu Reykjavíkursögurnar. Og öllu fleiri urðu kannski ekki teljandi – eða að minnsta kosti nafntoguð – afrek hans í skáldsagnagerð, enda ærið. Vissulega er það ráðgáta hvers vegna hann þagnaði; viðtökurnar við Sóleyjar sögu voru honum áreiðanlega djúp vonbrigði og það verður seint ofmetið hversu fálæti lesenda getur orðið til þess að rithöfundur missir fjaðrirnar.

Ekki fer hjá því að manni finnist stundum sem Halldór Laxness íþyngi ögn Sóleyjar sögu. Inni í miðri bók, löngu eftir að við höfum kynnst vel öllum persónum, byrjar kafli svona:

„Stúlkan Sóley Jónsdóttir, sem ekki bar gæfu til að halda vinnukonustarfi í húsi Guðmundar Þorsteinssonar og Jarþrúðar frúar hans, og hafði því síður hæfileika til að láta frelsast til kristilegs heimatrúboðssafnaðar, nú lifir hún og hrærist í veikri von…“ (Sóleyjar saga I bls. 194)

Einhvern veginn finnst manni þessi tónn vera kominn frá Halldóri. Í bókinni er fullt af svona hálf írónískum ólíkindalátum þar sem rödd sögumanns þykist allt í einu vera farin að tala eins og formfastur kontóristi en er samt að styrkja sambandið við lesandann.

Í Sóleyjar sögu gætir áhrifa Halldórs Laxness nokkuð, formúleringar að hætti hans íþyngja verkinu, einfaldlega vegna þess að Elías var ólíkur Halldóri; írónía Elíasar var ekki jafn stórkarlaleg og hjá Halldóri, húmor hans ekki jafn karnívalískur, hann var lágmæltari. Hann fann ekki leiðina burt frá áhrifum Halldórs eins og til dæmis Guðbergur gerði, með markvissum skopstælingum sínum á klökkva-erótík Halldórs í Tómasi Jónssyni Metsölubók þegar segir frá þeim Unni Ey og skáldinu Tjaffsa Í Vaffs.

Elías var ekki einn um slík vandræði gagnvart yfirþyrmandi nærveru Halldórs: meira að segja sjálfur Halldór þagnaði. Ólafur Jóhann þagði að mestu uns hann gaf út Hreiðrið árið 1972, þar sem módernistar og þeim fylgispakir gagnrýnendur fá það óþvegið. Þar með náði hann vopnum sínum. Elías hafði sennilega ekki skapferli til að standa í slíku.

Og samt er ég ekki viss um að klemman milli Halldórs og Guðbergs hafi orðið til þess að Elías lagði skáldsagnagerð á hilluna: mér er nær að halda að dagarnir hafi bara liðið. Og ég held að hann hafi unað sér vel við prófarkirnar. Ég held meira að segja að prófarkirnar séu í aðra röndina draumastaða fyrir skáldsagnahöfund sem kemur sér ekki að eigin verki.

Hins vegar hætti Elías aldrei að yrkja og hann safnaði nokkrum ljóðum sínum saman á eina bók árið 1999 og gaf út hjá Máli og menningu undir nafninu Mararbárur. Í ljóðunum var hann ólíkindatól: gat brugðið fyrir sig skopstælingum á Vísnabókarstíl 17. aldar og ferskeytlum; orti til dæmis eina fyrstu nútíma-slitruna sem margir þekkja: „anta- jafnan etur  -bus“ o.s.frv. En líka einlægari ljóð, til dæmis eitt fallegasta ástarljóð sinnar kynslóðar:

Mér er í mun að vita

hvort einnig þið

hafið komizt að raun um það

þrátt fyrir allt

hversu jörðin er fögur

hljómur tungunnar nýr

haustið jafnfagurt vori

líf og dauði í sátt

þegar maður elskar.

Þetta höfðu stúlkurnar í setningunni í Blaðaprenti hangandi uppi á vegg hjá sér. Aldrei fór á milli mála að hann var þeirra skáld.

*

Þar og seinna á Þjóðviljanum urðu kynni okkar Elíasar fyrst – ásamt Andreu Jónsdóttur var hann minn lærimeistari í öllu sem að prófarkalestri laut. Hann var prófarkalesara skáldlegastur, langur og mjór og þótt hárið væri orðið hvítt þegar ég kynntist honum var það einhvern veginn „írautt“ eins og hár Ólafs Kárasonar – eiginlega var hann líkastur Ólafi Kárasyni hefði sá fengið að eldast í friði við orðasýsl og textabauk.

En í öllum sínum skáldleika var Elías líka ákaflega formfastur í öllu sínu látæði allt frá því að hann kom á vettvang á sína vakt og hengdi upp frakkann sinn og trefilinn, ævinlega eins, og strauk síðan yfir bringuna sem nú var berskjölduð án trefilsins. Hann sat teinréttur, mjór og ljós á stól sínum, með svarta pennann sinn vísandi beint fram á meðan sígarettan brann sínum hljóða bruna í munnstykkinu góða í öskubakkanum. Þar vann Elías sín hljóðu afrek.

Prófarkalesarinn tekur sér stöðu í texta annars manns og þarf að vera bæði auðmjúkur og stoltur, hógvær en íhlutunarsamur. Hann þarf að kunna skil á óteljandi blæbrigðum íslenskunnar og unna henni heitt; hann þarf að hafa unun af að hugsa um náttúru greinarmerkja og merkingarblæbrigði á borð við muninn á sögnunum að geisa og að geysa; hann þarf að starfa innan ólíkra málsniða og stíltegunda, vera óforbetranlegur viskubetrungur, vita betur en stjarneðlisfræðingur hvernig útskýra skal einhver undur geimsins – hann þarf að vita hvernig viðkomandi „vildi eitthvað sagt hafa“ en ganga líka þannig frá textanum að viðkomandi haldi að hann hafi sjálfur sagt það; afsala sér eigin sjálfi…

Og hann þarf að vera veiðimaður sem sér villuna út undan sér á löngu færi og hremmir hana svo leiftursnöggt.

Elías Mar var afburðagóður prófarkalesari því að hann kunni íslensku flestum öðrum betur og unni henni og hugsaði um hana öllum stundum, vakinn og sofinn. Hann var líka hirðusamur um að tína upp orðarusl kringum hugsun svo að hún fengi notið sín – hann var umhyggjusamur gagnvart texta annars fólks. Og hann var skáld og rithöfundur og nam allt sem á vegi hans varð. Allir þessir eiginleikar gerðu hann að eftirsóknarverðum yfirlesara. Vinir hans og samferðamenn úr skáldahópi leituðu mjög til hans við ritun minninga sinna – bæði Jón Óskar og Hannes Sigfússon – því hann vissi ekki einungis hvar og hvernig orðin skyldu skrifuð heldur vissi hann líka upp á hár hvað hafði gerst.

Það var mikil skemmtun að sitja hjá honum á Birkimelnum og hlusta á hann segja sögur, tala um menn og málefni á sinn vandaða og íhugula hátt og hylja sig svo reyknum af og til úr munnstykkinu góða sem annars fékk að hvíla í öskubakkanum með hljóðum bruna.

*

Þegar gömlu kommarnir voru að kveðja hver annan í minningargreinunum í gamla daga í Þjóðviljanum gat maður alltaf átt von á því að sjá tvennt: annars vegar: þeim fækkar nú óðum gömlu félögunum – og hins vegar: við sem eftir lifum drúpum höfði. Einhvern veginn hafði j-ið, þessi mjói og háttvísi stafur, undarlegt lag á því að smjúga þar inn svo að orðið fór að leka og menn tóku að drjúpa höfði.

Sjálfur minnist ég Elíasar með þakklæti og virðingu.

Ágústhefti 2007

 

 

Flokkun : Menning
1,457