trusted online casino malaysia
Ritstjóri Herðubreiðar 07/12/2014

Ekki eyðileggja Ríkisútvarpið, froðusauðir

Snæbjörn RagnarssonEftir Snæbjörn Ragnarsson

Ég heiti Snæbjörn og ég er bassaleikari í hljómsveitinni Skálmöld. Sem stendur erum við á tónleikaferðalagi um Evrópu, búnir að eyða rúmum fimm vikum nú þegar og eigum eina viku eftir. Hlutirnir ganga betur en nokkru sinni fyrr, meðbyrinn er ofboðslegur og Skálmöld vex og dafnar.

Það er að mörgu leyti táknrænt að ég skuli sitja við þessar skriftir hér í Geiselwind í Þýskalandi því nákvæmlega hér spilaði Skálmöld sína fyrstu tónleika á fyrstu tónleikareisunni árið 2011. Hér byrjaði þetta því allt saman. Eða nei. Alls ekki.

Þetta hófst nefnilega heima á Íslandi.

2009 stofnuðum við þungarokkshljómsveit, sex vinirnir. Bara svona venjulega þungarokkshljómsveit. Eftir fyrstu vikurnar og mánuðina fundum við að þetta var verkefni sem við vildum leggja okkur fram við að gera sýnilegt, allt einhvern veginn small saman og okkur fannst að við hefðum eitthvað fram að færa. En hvað gerir maður þá? Þungarokk er ekki eitthvað sem á greiða leið að eyrum hins „venjulega“ hlustanda og fyrst og fremst fyrir þær sakir að fólk afskrifar oft og tíðum þessa tegund tónlistar fyrirfram, ákveður að þetta sé ekki þeirra kaffibolli. Og það er ekkert rangt við það, við förum öll á mis við stórkostlega hluti daglega vegna þess að við vitum ekki um hvað ræðir í raun og veru. Það er mannlegt. En já, hvað gerir maður þá?

Við fórum þessar venjulegu leiðir, höfðum samband við þá sem gætu haft áhuga innan kreðsunnar sem gekk upp og ofan, og reyndar meira ofan. Einn daginn fékk ég svo símtal. Á hinum endanum var dagskrárgerðarmaður á Rás 1 sem bauð mér að koma í þáttinn Víðsjá til að spjalla um þetta uppátæki. Útgangspunkturinn var textagerðin, þessi kannski óvenjulega nálgun að splæsa gamaldags kveðskap saman við þungarokk.

Frábært. Ég mætti í þáttinn og átti gott spjall en grunaði ekki að maðurinn ætlaði að virkilega að spila nema þá mögulega lítið brot. En nei, heilt lag skyldi það vera. Viti menn, þarna hljómaði Skálmöld fyrst í útvarpi og það á Rás 1! Síðan þá höfum við haft þá venju að frumflytja fyrsta lag af hverri Skálmaldar-plötu í Víðsjá. Þau hafa alltaf tekið okkur vel og þess óska ég að verði áfram.

Þetta varð vendipunktur og þarna fóru hjólin að snúast, en ekki endilega þau hjól sem við höfðum búist við. Í stað þess að hinir hefðbundnu rokkmiðlar tækju okkur upp á sína arma var það RÚV sem gerði það. Við fengum umfjöllun í Kastljósi sem reyndist afskaplega dýrmæt og síðan kom Rás 2 sterkust inn. Enn í dag er það þannig að Skálmöld hefur hvergi fengið meiri spilun en á Rás 2 og ég sé það ekki breytast.

Við höfum vissulega aldrei farið í daglega öfgaspilun en það er heldur ekkert undarlegt. Við erum ekki dægurlagahljómsveit og áreitið passar kannski ekki endilega inn í dagskrá fyrir alla landsmenn alla daga. Eða jú, í passlegum skömmtum. Þetta er sanngirni og fyrir það erum við afskaplega þakklátir.

Skálmöld byggir á þessum grunni, svo einfalt er það. Þarna tók okkur áhugasamt og sjálfstætt hugsandi fólk sem hefur það eitt að markmiði að miðla því sem gott er og áhugavert, jafnvel þótt efnið sé fljótt á litið allt annað en aðgengilegt eða líklegt til vinsælda. Og nú er ég ekki bara að tala um tónlist heldur alla menningar- og þjóðarflóruna. Þetta er vettvangurinn fyrir alla til að koma sínu að og fyrir hina að meðtaka. Metnaðarfull dagskrárgerð um alla kima mannlífsins, ekki bara froðusnakk um fríar flatbökur og vinsældalista erlendis, um það hverfist RÚV.

Mér þótti afskaplega gaman að opna tölvuna mína nývaknaður í gær og sjá mér til undrunar að Skálmöld fær 9 tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna. Mér fannst þetta hálfóraunverulegt, staddur utan landssteinanna hvar við vinnum að því alla daga að stækka drauminn, og finna svo þennan ofboðslega kraft að heiman.

Ég sat þarna hálfþunnur og meyr í óþægilegum leðursófa og rakti með sjálfum mér leiðina hingað. Sama hvar ég drap niður fæti í sögu Skálmaldar áttaði ég mig á því að RÚV var aldrei langt undan. Í hverjum einasta kafla höfum við á einhvern hátt unnið með þeim snillingum sem þar vinna. Nálgunin hefur verið misjöfn og hlutirnir farið mishátt en þegar við höfum haft eitthvað fram að færa höfum við mætt ótrúlegu viðmóti þar á bæ. Og hvernig snýr þetta þá allt saman?

Hvert eitt og einasta okkar á sína Skálmöld, Skálmöldina sem við félagar áttum fyrir rúmum fimm árum og enginn þekkti. Þín Skálmöld getur verið í formi tónlistar, myndlistar, ræðumennsku, stjórnmála, útsaums, kaffigerðar, eldflaugavísinda, snuddubandahekls eða sjóstangarveiði. Mín Skálmöld hlaut athygli vegna þess að við eigum stofnun sem sinnir því sem vel er gert, svo einfalt er það. Ég sæti ekki hér með bestu vinum mínum, skælbrosandi að lifa þennan litla draum ef þessi grunnur hefði ekki verið lagður. Já, ég fullyrði að Skálmöld væri ekki hér ef ekki væri RÚV.

Og helvítis, helvíti! Ætla nú einhverjir froðusauðir að leggja þessa grunnstofnun okkar allra í rúst? Af hverju? Hvaða haldbær rök gætu mögulega verið fyrir því? Þetta er það sem við erum, þetta er loftið sem við öndum að okkur og þetta er það sem gerir okkur að þjóð. Ég veit lítið sem ekkert um stjórnmál eða peninga, en ég er ágætlega að mér þegar kemur að rökhugsun. Ef við kippum fótunum undan RÚV kippum við líka fótunum undan öllum Skálmöldum landsins, stórum og smáum. Og þá er þetta búið. Þá sæti ég ekki hér nákvæmlega núna, orðinn of seinn í sándtékk, á tónleikastaðnum þar sem landvinningarnir hófust. Þá væru nefnilega engir landvinningar.

Kjaftfor og loðinn maður með þann draum að geta sinnt þungarokkshljómsveitinni sinni, það er ég. Uppskriftin hljómar ekki vænleg til árangurs, en hingað er ég samt kominn. Ég er óendanlega þakklátur fyrir það og þetta hef ég gert á mínum forsendum. RÚV tók mér og hljómsveitinni minni eins og við erum, þau reyndu engu að breyta en hjálpuðu til með öllum leiðum og hvöttu okkur til dáða.

Orðatiltækið segir að maður uppskeri eins og maður sáir. Við höfum sáð grimmt og uppskorið eftir því. En við hefðum ekki uppskorið ef við hefum ekki haft frjóan jarðveg til að sá í.

Þetta má ekki fara svona.

Virðingarfyllst og fyrir hönd Skálmaldar,

Snæbjörn Ragnarsson

1,724