Ekkert djók
Það er auðvitað freistandi að afgreiða það sem brandara, að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa fengið Hannes Hólmstein til að rannsaka Hrunið. Það er svo hollt og gott að hlæja.
En þetta er ekkert djók. Ekki einu sinni dómgreindarleysi. Miklu fremur eins konar blinda. Eða ósvífni sprottin af forherðingu.
Spurningarnar, sem leita á svara við, eru ágætar þótt þær séu óneitanlega soldið skringilega orðaðar. Og einnig er fróðlegt um hvað er ekki spurt, til dæmis samskipti seðlabankans við Englandsbanka. En látum það vera í bili.
Núnú. Hvers ætti ekki að ráða prófessor Hannes til að leita svaranna?
Sko. Það þarf nokkurn rausnarskap til að kalla Hannes fræðimann. Hann er fyrst og fremst málafylgjumaður, áróðursmaður.
Hannes á tvo málstaði: Davíð Oddsson og frjálshyggjuna. Síðustu misseri hefur vörnin fyrir hinn fyrri orðið æ pínlegri upp á að horfa, eins og sjálfsblekkingin sé takmarkalaus.
Um Hrunið hefur Hannes einkum haft þetta að segja: Davíð Oddsson er flekklaus. Hrunið var Jóni Ásgeiri að kenna.
Og af öllu því prýðisfólki, sagnfræðingum og hagfræðingum, sem völ er á, hér heima og í útlöndum, telur formaður Sjálfstæðisflokksins að tíu milljónum af skattpeningum sé best varið í að fá einmitt mann með þennan málstað að verja – og sem sat sjálfur í bankaráði Seðlabankans þann tíma sem til umfjöllunar verður – til að rannsaka atburði þar sem Davíð Oddsson var meðal helztu gerenda.
Og hann er eflaust líka steinhissa á því að heilbrigt fólk skuli nú flýja Sjálfstæðisflokkinn eins og hann beri svartadauða sjálfan í sér.
- Möskvar minninganna (XXI): Gleðimont - 12/08/2019
- Um gamlar kærustur og nýjar - 02/07/2019
- Möskvar minninganna (XX): Með hitamælinn í rassinum - 30/06/2019