trusted online casino malaysia
Ritstjórn 04/04/2014

„Ég er ekki að þessu að gamni mínu“: Persónulegt ferðalag með Helga Hóseassyni (I)

Eftir Karl Th. BirgissonHelgi Hó

Ég er átta ára og staddur í Skipasundi 48 í Reykjavík.

Hingað finnst mér gaman að koma, en líka svolítið skrýtið. Það er lykt af gömlu, en ég er svosem vanur henni. Það er líka gömul lykt hjá ömmu í Hamri á Breiðdalsvík, stundum hjá ömmu á Njálsgötu og sumu hinu fólkinu sem við heimsækjum.

Það er samt ekki lyktin sem er óvenjuleg í Skipasundinu. Það er annað hjónanna.

Hér eiga heima Helgi Hóseasson og Jóhanna Jakobsdóttir. Þetta er þriggja hæða hús, hæð, ris og kjallari, sem húsasmíðameistarinn Helgi byggði sjálfur í kringum 1950 utan um þau hjónin og fólkið sitt.

Fyrsta heimili þeirra hafði verið í herbragga í Kleppsholtinu nokkrum árum áður. Þar varð fjölmennt því að í þann bragga fluttu líka foreldrar Helga, móðir Jóhönnu og yngstu börnin hennar. Þau voru gott og gestrisið fólk, Jóhanna og Helgi, og töldu ekki eftir sér að hýsa þá sem þurfti.

Svo byggði Helgi í Skipasundi og núna, árið 1971, eru þau bæði rúmlega fimmtug. Í risinu eiga heima foreldrar hans, Hóseas og Ingibjörg, sem áður höfðu búskap í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal, þar sem Helgi fæddist árið 1919.

Hér eru gömul húsgögn, gamlar myndir, gamlar bækur en þó einkum gömul lykt af mikilli manngæzku. Og henni fékk ég að kynnast í ríkum mæli.

Ég kom í Skipasundið allnokkrum sinnum á þessum árum, stundum með mömmu en stundum einn. Þá var mér sagt að ég væri að fara í heimsókn til „Jóhönnu mömmu“ þegar móðir mín taldi rétt að senda mig þangað til hlífa mér við fylleríinu á pabba.

Og við mér tók þetta stóra hús og þetta fólk. Helgi var ekki heima á daginn, en Jóhanna stóð undir nafninu mamma, eins og það var rétt skilið á þeim árum – hæg, hljóðlát, en yndislega hlý og ástúðleg. Átta ára strákur fékk rúgbrauð með kæfu um miðjan daginn og nóg af mjólk.

Helgi kom oft heim í mat í hádeginu og hann gat ekki annað en vakið forvitni barns. Áður en hann fór aftur í vinnuna tók hann til tvennt fyrir mig til að eiga fyrir daginn.

„Hér er maltextrakt og banani.“

Ekki veit ég af hverju Helgi gerði þetta, því að bananar voru ekki á hverju strái á þessum árum og flaska af malti var ekki ódýr kostur heldur. Af því sem ég kynntist síðar af þankagangi Helga þykir mér ekki ósennilegt að honum þætti þarna kannske vera komin gagnleg viðbót við næringu íslenzkra barna á þessum tíma, fleiri bætiefni og fjölbreyttari.

Helgi var enda mjög praktískt þenkjandi maður og gerði sér engar grillur um að líf og líffræði mannsins væri í grundvallaratriðum eitthvað öðruvísi en annarra skepna á jörðinni.

Svo var hvernig hann talaði. Hann talaði stundum um „himnadrauga“ og „þræla.“

Það voru ný orð sem ég skildi ekki. Ég spurði samt einskis. Á þessum árum spurðu börn ekki um það sem þau skildu ekki. Þau biðu átekta.

Ingibjörg Þorbergs hafði gefið fyrirheit um slíkt í Aravísum: „Þú veizt það er verðurðu stór.“

Frekar en að spyrja las ég um Tarzan apabróður daglangt í Skipasundinu.

En Helgi stendur núna í þvottahúsinu. Fyrir framan hann er þvottabali og hann er að hnoða deig. Deigið er í balanum og Helgi fer um það sínum risasterku smiðshöndum, hnoðar og hnoðar.

Í minningunni er deigið að lágmarki fimm kíló, en kannske var það bara eitt. Eða hálft.

„Hvað er þetta?“ spyr barnið.

„Þetta verður brauð, drengur minn,“ segir Helgi, kútveltir deiginu og heldur áfram að hnoða.

„Jaaá,“ segi ég, án þess að skilja neitt meira. Hef aldrei séð svonalagað. Við erum vön að kaupa brauðið okkar í mjólkurbúðinni á Kárastíg.

Helgi skiptir deiginu upp í parta og setur í form.

Hann lyftir upp einu forminu. „Þetta borðum við á morgun. Þjófarnir í Rangá verða að finna sér aðra til að rýja.“

Rangá er hverfisverzlunin í Skipasundi. Hún er á númer 56.

Ég hafði aldrei heyrt fólk kallað þjófa áður. Og það verzlunarmenn? Fátt þótti móður minni fínna fólk í samfélaginu en það sem vann í eða rak verzlun. Það hafði hún sjálf gert, pabbi hennar og bróðir.

Þegar mamma var með fórum við upp í risið og spjölluðum við Hóseas og Ingibjörgu.

Réttara sagt: Mamma spjallaði. Um Breiðdalinn, fólkið þar og svoleiðis.

Þau gömlu hjónin áttu þar annan son, Kristin, sem var prestur í Heydölum, svo að alltaf voru einhverjar fréttir.

Mér leiddist.

Hóseas var bróðir afa, stjúpa mömmu, og þannig séð frændi okkar.

Og þar með Helgi Hó, sonur hans, líka.

———-

Ég heyrði stundum talað um Helga Hó í tilteknum tóni, að hann væri nú eins og hann væri, að ekki væru nú allir eins, en að hann væri góður maður.

Og frábær smiður – gott ef pabba fannst það ekki, hinum iðnaðarmanninum.

Ástæðurnar skildi ég auðvitað ekki, en ári síðar fékk ég nasasjón af þeim. Helgi ákvað að „sæma þingheim skyri“ með því að sletta á alþingismenn skyrhræringi þegar þeir gengu frá dómkirkjunni yfir í þinghúsið við setningu alþingis haustið 1972.

Það eru ríf fjörutíu ár síðan.

———-

Barátta Helga Hóseassonar við ríki og kirkju fyrir mannréttindum sínum var langvinn og tók á endanum yfir líf hans allt. Málstaðurinn var í sjálfu sér mjög einfaldur:

Hann hafði verið skírður eins og önnur börn. Sem nýfætt barn – „svotil blautur úr móður minni“ – var hann látinn gera skírnarsáttmála við hinn kristilega guð. Við þá athöfn var presturinn umboðsmaður guðs og kvittaði undir sáttmálann fyrir hans hönd.

Svo fermdist Helgi og staðfesti með trúarjátningu og fermingu skírnarsáttmálann og allar helztu kennisetningar kristninnar. Aftur var presturinn umboðsmaður guðs hér á jörðu og hinn „samningsaðilinn“ í málinu.

Loks komst Helgi til vits og ára og fór að efast – svo vægt sé til orða tekið – um kristnina, frásagnir Biblíunnar og raunar flest sem sagt var um þá himnafeðga, Jehóva og Jesús.

Þar kom að hann sneri sér til kirkjunnar manna og sagði:

Nú hef ég komizt að þeirri niðurstöðu, að þessi kristni ykkar sé þvæla byggð á „upplognum historíum sunnan úr löndum.“ Eruð þið, umboðsmenn guðs á jörðinni, ekki til í að rifta þessum svokallaða skírnarsáttmála sem ég var látinn gera, ómálga barnið? Það gengur ekki að það standi í kirkjubókum og þjóðskrá að ég trúi því sem ég hef mestu skömm á.

Prestarnir sögðu nei. Það væri ekki hægt – hann gæti gert það fyrir sitt leyti en kirkjan gæti ekki snúið baki við kennisetningum sínum. Hann yrði að snúa sér til guðs með þetta mál.

Helgi var ekki þannig skapi farinn, að hann léti segja sér að tala við einhvern „himnadraug“ sem hann vissi að væri ekki til. Það þótti honum hrein bilun og ekki skynsömum skepnum bjóðandi.

Hófst þá baráttusaga Helga og verður nú rakin í stuttu máli. Hún er allt í senn, skrautleg, sorgleg og lærdómsrík.

———-

Hin eiginlega átakasaga byrjaði árið 1962. Þá skrifar Helgi, 43 ára gamall, biskupnum yfir Íslandi bréf og spyr um tvennt: Hvernig hann geti sagt sig úr kristnum þjóðkirkjusöfnuði og hvernig rifta megi sambandi hans við „allsvaldanda guð“ eftir að hann hafi ákveðið að „kalla aftur skírnarheit það og trúarjátningu“ sem hann hafi „verið látinn gera í bernsku.“

Í svari sínu leiðbeinir Sigurbjörn Einarsson biskup Helga með fyrra atriðið – hann geti sagt sig úr söfnuðinum – en svarið við seinni spurningunni er kjarni þess sem kirkjan hafði trúfræðilega fram að færa frá upphafi málsins allt til loka:

„Þetta er einkamál yðar með Guði. Í skírninni hefur Jesús Kristur tekið yður sér í faðm, lagt hendur yfir yður og blessað yður, samkvæmt bæn ástvina yðar, alveg eins og hann gerði þegar hann var hér á jörð sýnilegur og lítil börn voru borin til hans. Sá kærleikur Guðs til yðar, sem birtist í þessu, breytist aldrei, hvernig sem líf yðar kann að hafa verið eða hvernig sem þér kunnið að vilja líta á þessi mál nú. […]

Með bróðurlegri kveðju og bænarhug.

Yðar,

Sigurbjörn Einarsson“

Helga var ekki skemmt. Allt í svari biskups endurspeglaði það sem hann taldi vera hjátrú og hindurvitni – að hann ætti að tala við einhverja himnaveru –, og að kirkjan neitaði greinilega að axla ábyrgð á embættisverkum presta sinna.

Helgi var einþykkur, hann ætlaði að ógilda skírnarsáttmálann, en það var augljóslega ekkert við þetta kirkjufólk að tala.  Hann yrði því sjálfur að grípa til sinna ráða.

En hverra?

Hann talaði við allmarga, bæði kirkjunnar menn og lögfræðinga, en fékk engin viðhlítandi svör. Einn lögfræðingur, Pétur Þorsteinsson, virtist þó hafa meiri skilning á málstaðnum en aðrir og ákvað að hjálpa honum, þótt óvíst væri hvort armur íslenzkra laga og dómstóla næði alla leið til himna.

Fyrsta ráð Péturs var frumlegt. Frekar en að stefna biskupnum og kirkjunni fyrir dómstóla eftir lagabókstaf, sem var hæpið að næði til ógildingar skírnarsáttmála við guð, ráðlagði hann Helga að leita til hinnar svokölluðu, en þá mjög lítt starfandi, sáttanefndar Reykjavíkur.

Sáttanefndin var merkilegt apparat, sem var komið á fót seint á 19. öld og var vettvangur til að freista þess ná sáttum á milli deilenda í einkamálum áður en þau kæmu til kasta dómstóla.

Helgi samþykkti þetta ráðslag og snemma árs 1964 gaf hann út „Sáttakæru“ sem Pétur útbjó og þar sagði meðal annars:

„Ég hef árangurslaust farið þess á leit við biskup Íslands, að hann ógildi skírnina og ferminguna eða leysi mig frá þeim sáttmála, sem Jehóvi gerði við mig í skírninni og fermingunni, sbr. kver það, sem ég lærði undir fermingu.

Ég leyfi mér því að fara þess á leit við sáttanefnd Reykjavíkur, að hún kalli biskup Íslands, Sigurbjörn Einarsson, fyrir sig ásamt mér til að reyna að fá hann til að ógilda á formlegan hátt sáttmála þann sem Jehóvi gerði við mig í skírninni og votti, svo um grun sé gert, að nafn mitt sé ekki tengt honum lengur. […]

Komist sátt eigi á, óskast málinu vísað til aðgerða dómstólanna.“

Sáttanefndarmenn, sem höfðu ekki fengið nein verkefni árum saman, brugðust skjótt við og gáfu út stefnu á hendur biskupnum 15. apríl 1964:

„Út af framan ritaðri kæru er biskup Íslands, Sigurbjörn Einarsson, Tómasarhaga 15 hér í borg, kvaddur til að koma ásamt kæranda á sáttafund, sem haldinn verður í bæjarþingsstofunni í hegningarhúsinu við Skólavörðustíg 9 hér í borg mánudaginn 20. apríl n.k. kl. 4 e.h.“

Stefnuvottar fóru með þetta skjal samdægurs til biskupsins. Magnea Þorkelsdóttir, eiginkona hans, var heima og „lofaði að afhenda stefnuna kærða er býr í sama húsi, en var fjarverandi.“

Hinn 20. apríl 1964 má lesa þetta í gerðarbókum sáttanefndar Reykjavíkur:

„Fyrir hönd kæranda mætti hann sjálfur.

Fyrir hönd kærða mætti enginn.

Sættir tókust ekki.

Málinu óskast vísað til aðgerða dómstólanna. […]

Í sáttanefnd Reykjavíkur

Sigurður Árnason

Björgúlfur Sigurðsson“

„Ekki bjóst ég við þessu af Sigurbirni,“ skrifaði Helgi síðar í bók sinni, Ríó og rögn þess.

Ríó var skammstöfun Helga á „Ríkisvaldi íslenzkra óþokka.“

„Ég veit ekki dæmi um aðra en einstaka fyllirafta og fáráðlinga sem ekki mæta á sáttafundi og gera einga grein fyrir sér.“

Lauk þar með fyrsta og rólegasta kaflanum, en Helgi undirbjó stefnu fyrir dómstólum.

———-

Það er apríl 1977.  Tveimur vikum eftir að ég fermdist.

Pabbi er dáinn. Honum hafði tekizt að drekka sig í hel.

Útförin er í dómkirkjunni, næst þinghúsinu þar sem Helgi sæmdi þingmenn skyrinu fimm árum áður.

Eftir athöfnina fylgjum við kistunni út. Man ekki vel hvort ég grét mikið, en man ákaflega glöggt þegar ég sá Helga. Hann stóð á gangstéttinni hinum megin við götuna, upp við alþingishúsið, í þykku grænu loðúlpunni sinni, þungbrýnn og alvarlegur.

Hann var kominn til að votta Birgi virðingu sína, en honum hugnaðist ekki að stíga fæti inn í kirkjuna þar hann hafði ógilt skírnarsáttmála sinn ellefu árum fyrr.

Hann hafði verið þarna við þinghúsvegginn allan tímann sem athöfnin stóð, staðfastur og hljóður. Þrjózkur. Svo fór hann heim í Skipasund.

 

(Fyrsti hluti af þremur)

1,495